Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2017 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 101/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. febrúar 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 101/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU16110080

Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. nóvember 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. nóvember 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hana til Spánar.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) og 1. mgr. 45. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Þann 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 22. ágúst 2016 ásamt foreldrum sínum og þremur systkinum. Leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann sama dag, skilaði engum niðurstöðum. Þann 15. september 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Spáni, sbr. 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun frá spænskum yfirvöldum. Þann 22. september 2016 barst svar frá spænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 22. nóvember 2016 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hún skyldi endursend til Spánar. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 29. nóvember 2016 til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hennar væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 30. nóvember 2016. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 27. desember 2016.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hún skyldi endursend til Spánar. Lagt var til grundvallar að Spánn virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Spánar ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hana til Spánar, sbr. d-lið 1. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga.

Þá væri það mat Útlendingastofnunar að ekkert benti til þess að fjölskylda kæranda yrði aðskilin væri hún send til Spánar en kærandi sé fullorðinn einstaklingur að lögum. Að sama skapi væri vandkvæðum bundið fyrir [...]. Auk þess verði ekki annað séð en að kærandi geti leitað til lögreglu á Spáni með vandamál sín gagnvart [...].

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda og fjölskyldu hennar kemur fram að að kærandi hafi ákveðið að koma til Íslands þar sem hún hafi lesið sér til um landið, hér sé friðsælt og mannréttindi í hávegum höfð. Ljóst sé að Ísland sé fyrsta landið þar sem fjölskyldan hafi sótt um alþjóðlega vernd og því eigi umsóknir þeirra að vera teknar til afgreiðslu hér á landi en ekki á Spáni. Kærandi álíti að á Spáni muni hún ekki fá þá mannúðlegu meðferð sem henni sé tryggð í alþjóðlegum sáttmálum sem og að mál hennar muni ekki fá þá vönduðu og efnislegu málsmeðferð sem hún eigi rétt á. Sé þessi ótti kæranda byggður á þeirri staðreynd að Spánn sé eitt þeirra ríkja sem samþykki hve fæstar umsóknir um alþjóðlega vernd af þeim löndum sem komi að Schengen samstarfinu sem og vitneskju hennar um ýmsa galla á spænska kerfinu.

Þá er í greinargerð fjallað um skýrslu spænsku flóttamannastofnunarinnar (s. Comisión Española de Ayuda al Refugiado) fyrir árið 2016. Þar komi fram að einungis 220 einstaklingar hafi fengið stöðu flóttamanns á Spáni árið 2015 og að enginn hafi fengið dvalarleyfi í landinu á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Síðustu ár hafi umsóknum um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi fjölgað nokkuð á Spáni en samþykktum umsóknum að sama skapi fækkað.

Enn fremur vísar kærandi til niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli A.C. og annarra gegn Spáni (mál nr. 6528/11) frá 22. apríl 2014 en þar hafi Spánn brotið gegn 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þ.e. rétti til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns, í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd frá Marokkó. Þá er vísað til sérstaks fréttabréfs á vef Evrópumiðstöðvar fyrir stjórnarskrár- og mannréttindi (e. European Center for Constitutional and Human Rights) frá nóvember 2016. Þar séu nefnd mörg dæmi um ólöglega afgreiðslu spænskra yfirvalda á málum flóttamanna, þ.á m. hvernig spænsk yfirvöld þvingi umsækjendur um alþjóðlega vernd við landamærin aftur til þeirra landa sem þeir komi frá eða flytji þá nauðuga til Marokkó, án nokkurrar málsmeðferðar. Í sama fréttabréfi komi fram að spænsk stjórnvöld hafi gerst brotleg gegn réttindum barna með stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd. Svo virðist vera að börn sem leiti alþjóðlegrar verndar á Spáni séu flutt úr landinu án nokkurrar málsmeðferðar og ekki sé tekið tillit til aldurs þeirra og þroska. Sé því sannað með hliðsjón af ofangreindu að Spánn brjóti oft á tíðum gegn grundvallarmannréttindum fólks og réttindum flóttamanna. Telji kærandi ljóst að fullt tilefni sé til þess að óttast að hún fái ekki sanngjarna málsmeðferð á Spáni við endursendingu þangað.

Að lokum er í greinargerð lýst bágu ástandi fjölskyldunnar á meðan hún hafi búið í [...]. Hafi [...]. Af öllu ofangreindu sé ljóst að ótti kæranda sé hvorki órökréttur né augljóslega illa grundaður. Kærandi telji að verði hún send til Spánar muni hún í framhaldinu verða send aftur til [...] án viðeigandi málsmeðferðar. Sé þess því óskað að íslensk yfirvöld taki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til meðferðar með vísan til 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og 1. mgr. 45. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að spænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Spánar er byggt á því að kærandi hafi fengið útgefna vegabréfsáritun þar í landi.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð á Spáni, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

· Asylum Information Database, Country Report: Spain (European Council on Refugees and Exiles, 18. apríl 2016),

· 2015 Country Reports on Human Rights Practices – Spain (United States Department of State, 13. apríl 2016),

· Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report Universal Periodic Review: Spain (UNHCR, júní 2014),

· Freedom in the World 2016 – Spain (Freedom House, 14. júlí 2016),

· Amnesty International Report 2015/16 – Spain (Amnesty International, 24. febrúar 2016),

· Concluding observations on the sixth periodic report of Spain (UN Committee against Torture, 29. maí 2015),

· Report to the Spanish Government on the visit to Spain carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment from 14 to 18 july 2014 (Council of Europe: Committee for the Prevention of Torture, 9. apríl 2015),

· Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council Of Europe Following his Visit to Spain from 3 to 7 June 2013 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 9. október 2013) og

· Upplýsingar af vefsíðu borgarráðs Barselóna: www.ciutatrefugi.barcelona/en, Barcelona Ciutat Refugi.

Í framangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Spáni eiga rétt á viðtali áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra og fá aðstoð túlks ef þess þarf. Auk þess eiga umsækjendur rétt á lögfræðiþjónustu við að leggja fram umsókn og eftir atvikum við kærumeðferð máls. Umsækjandi sem hefur fengið synjun á umsókn sinni getur bæði leitað endurskoðunar innan stjórnsýslunnar og fyrir dómstólum. Þá geta umsækjendur um alþjóðlega vernd lagt fram nýja umsókn ef fyrri umsókn er synjað. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir geta skilyrði nýrrar umsóknar verið uppfyllt. Spánn er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Af framangreindum gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd á Spáni má jafnframt ráða að samkvæmt spænskum lögum er umsækjendum um alþjóðlega vernd tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda.

Í greinargerð kæranda er vísað til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu, í máli A.C. og annarra gegn Spáni (mál nr. 6528/11) frá 24. apríl 2014, máli kæranda til stuðnings. Í dóminum komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að spænsk stjórnvöld hefðu brotið gegn 13. gr. mannréttindasáttmálans þar sem stuttur málsmeðferðartími hafi komið í veg fyrir að kærendur í málinu gætu fært rök fyrir máli sínu, áður en þeir voru endursendir til heimalands síns. Kærunefnd hefur áður leitað til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um upplýsingar varðandi málsmeðferð á Spáni. Spurning nefndarinnar laut að því hvort að Flóttamannastofnun hefði vitneskju um svipuð tilvik og áttu sér stað í ofangreindum dómi og hvort slík tilvik væru algeng í málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd hjá spænskum stjórnvöldum. Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnun eru tvær mismunandi málsmeðferðir vegna umsókna um alþjóðlega vernd á Spáni, annars vegar málsmeðferð við landamæri (e. border procedure) og hins vegar málsmeðferð innanlands (e. inland procedure). Umsóknir einstaklinganna í ofangreindum dómi Mannréttindadómstólsins heyrðu undir málsmeðferð við landamæri. Hvað þá tegund málsmeðferðar varðar þá sé enn skortur á raunhæfum réttarúrræðum, þar sem kæra á ákvörðun í hælismáli frestar ekki réttaráhrifum og verndar ekki gegn endursendingu. Hins vegar fara umsóknir einstaklinga, sem eru endursendir til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, alltaf í málsmeðferð innanlands. Samkvæmt framangreindu telur kærunefnd ljóst að umsókn kæranda mun ekki fara í málsmeðferð við landamæri á Spáni og því sé ekki hætta á að brotið verði gegn 13. gr. mannréttindasáttmálans við endursendingu hennar, af þeim sökum.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd á Spáni, sérstaklega hvað varðar málsmeðferð spænskra stjórnvalda, hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Spánar brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af gögnunum verður einnig ráðið að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns á Spáni bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi hefur greint frá því að hún óttist [...]. Þau gögn sem kærunefndin hefur kynnt sér benda til þess að kærandi geti leitað aðstoðar yfirvalda á Spáni óttist hún tilgreinda aðila eða að á henni verði brotið.

Kærandi er ung kona sem sótti um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt foreldrum sínum og systkinum. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi sé [...]. Kærunefnd metur aðstæður kæranda ekki slíkar að hún teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Af þeim skýrslum og gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd á Spáni leggur nefndin til grundvallar úrlausn málsins að kærandi geti leitað sér nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu á Spáni. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hennar verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 25. október 2016 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að hún sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hún lagði fram umsókn sína þann 22. ágúst 2016.

Í máli þessu hafa spænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hennar um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda hana til Spánar með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum