Hoppa yfir valmynd
19. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Áhersla á svæðisbundna samvinnu á tímum COVID-19

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ítrekaði mikilvægi svæðisbundinnar samvinnu og lýðræðislegra gilda á utanríkisráðherrafundi Eystrasaltsráðsins sem haldinn var í dag í gegnum fjarbúnað. Utanríkisráðherrar Rússlands, Póllands, Þýskalands, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, auk fulltrúa Evrópusambandsins sóttu fundinn.

„Markviss og náin svæðisbundin samvinna hefur hvað eftir annað sannað gildi sitt. Eystrasaltsráðið byggir á traustum grunni og er mikilvægur vettvangur umræðu meðal ríkja sem oft hafa ólíkar áherslur. Það á ekki síst við á tímum heimsfaraldurs. Saman hafa ríkin náð góðum árangri í mikilvægum málaflokkum á borð við baráttuna gegn mansali, almannavarnir og barnavernd,“ segir Guðlaugur Þór.  

Ráðherra lýsti ánægju sinni með samkomulag um endurbætur á starfsháttum Eystrasaltsráðsins en þær breytingar miða að því að gera það skilvirkara og sveigjanlegra auk þess að stuðla að auknu og reglubundnara samstarfi Eystrasaltsráðsins við aðrar svæðisbundnar stofnanir. Jafnframt lagði utanríkisráðherra ríka áherslu á starf Eystrasaltsráðsins á sviði barnaverndar, meðal annars í ljósi COVID -19 heimsfaraldursins, en Ísland hefur um árabil verið leiðandi á því sviði innan ráðsins og meðal annars hefur barnahúsum að íslenskri fyrirmynd víða verið komið á fót í aðildarríkjum ráðsins.

Á fundinum samþykktu utanríkisráðherrarnir sameiginlega yfirlýsingu þar sem mikilvægi Eystrasaltsráðsins er áréttað. Innan ráðsins fari fram margþætt pólitískt samráð, auk hagnýtrar samvinnu ríkjanna á fjöldamörgum sviðum. Einnig var í yfirlýsingunni fjallað um svæðisbundna innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og sérstök áhersla lögð á stöðu ungmenna í aðildarríkjunum. Auk þess var fjallað um aðgerðir til að stemma stigu við alþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.


  • Mynd frá árlegum fundi utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins sem fram fór í Reykjavík árið 2017.  - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum