Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2017 Utanríkisráðuneytið

Tæpum 800 milljónum varið til mannúðaraðstoðar 2016

Á árinu 2016 námu heildarframlög Íslands til mannúðaraðstoðar um 770 milljónum króna. Þar af voru 500 milljónir króna af sérstöku framlagi sem samþykkt var í ríkisstjórn haustið 2015 og síðar í fjárlögum á Alþingi 2016 um að verja allt að einum milljarði króna til að bregðast við vaxandi vanda í málefnum flóttamanna í kjölfar átakanna í Sýrlandi. Framlögin til mannúðaraðstoðar skiptast á milli borgarasamtaka, 175 milljónir króna og alþjóðastofnana, 595 milljónir króna.

Utanríkisráðuneytið veitir árlega styrki til íslenskra borgarasamtaka sem starfa á sviði mannúðaraðstoðar. Mannúðaraðstoð felur í sér björgun mannslífa, vernd óbreyttra borgara, útvegun nauðþurfta og annarrar aðstoðar sem auðveldar afturhvarf til eðlilegs lífs í kjölfar hamfara og átaka. Íslensk stjórnvöld reiða sig meðal annars á borgarasamtök til að koma mannúðaraðstoð sinni til skila og er styrkjum vegna mannúðaraðstoðar ætlað að svara alþjóðlegum neyðarköllum allt árið um kring.

Í júní var tæpum 90 milljónum króna veitt sérstaklega til sex verkefna til að bregðast m.a. við flóttamannastraumnum sem átökin í Sýrlandi hafa leitt af sér og í Eþíópíu og Malaví. Þar af voru 50 milljónir hluti af fyrrgreindu 500 milljón króna framlagi. Þau borgarasamtök sem hlutu styrk voru Rauði kross Íslands, Barnaheill, SOS Barnaþorp og Hjálparstarf kirkjunnar.

Í nóvember var svo 85 milljónum króna úthlutað til fimm verkefna á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar, Rauða kross Íslands og SOS Barnaþorpa.  Þau varða aðstoð við flóttamenn frá Sýrlandi, mannúðaraðstoð í Sýrlandi, vegna fellibylsins Matthíasar á Haíti og flóttafólks frá Suður Súdan í Úganda. 

Meginframlög Íslands til mannúðarmála fara til stofnana SÞ sem starfa á sviði mannúðaraðstoðar. Ísland greiðir árlega almenn og eynarmerkt framlög til helstu alþjóðlegu samstarfsstofnana og sjóða á sviði mannúðarmála, m.a. til Samhæfingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir mannúðarmál (OCHA), Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF), Matvælaáætlunar SÞ (WFP), Barnahjálpar SÞ (UNICEF) og Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC). 

Þær stofnanir sem fengu framlög á líðandi ári eru; WFP, OCHA, UNICEF, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Flóttamannastofnun SÞ fyrir Palestínuflóttamenn (UNRWA), sérstakir neyðarsjóðir fyrir Líbanon og Sýrland (OCHA Country-Based Pooled Funds) og Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), auk ICRC. Á árinu fór stærstur hluti af framlögum í mannúðaraðstoð vegna afleiðinga átakanna í Sýrlandi. Einnig voru veitt framlög vegna jarðskjálftans í Ekvador og fellibylsins sem gekk yfir Haítí.

Þá hefur utanríkisráðherra ákveðið að ráðstafa 52 milljónum í byrjun árs 2017 til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira