Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2017 Utanríkisráðuneytið

Undirbúningur að formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu hafinn

Guðlaugur Þór ávarpar undirbúningsfundinn - mynd

Undirbúningur að formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu fyrir árin 2019-2021 hófst í dag og flutti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra opnunarávarp að því tilefni á fjölmennum fundi í Hörpu. Með fundinum er hafinn eiginlegur undirbúningur að íslensku formennskunni í víðtæku samráði við þá fjölmörgu aðila sem sinna norðurslóðamálefnum hér á landi. Rúmlega 100 manns taka þátt í fundinum.

"Það var sérstaklega ánægjulegt að ávarpa þessa fjölmennu samkomu á mínum fyrsta degi sem utanríkisráðherra. Málefni norðurslóða verða áfram í forgrunni utanríksstefnunnar hjá þessari ríkisstjórn og því fer vel á því að hefja undirbúning að formennskutíð Íslands í Norðurskautsráðinu á upphafsdögum hennar. Formennska í Norðurskautsráðinu kallar á vandaðan undirbúning og á fundinum í dag gefast tækifæri til að skiptast á skoðunum um hverjar áherslur Íslands eigi að vera og hverju við viljum fá áorkað í formennskutíð Íslands. Í framhaldinu munum við vinna úr þeim fjölmörgu góðu hugmyndum sem fram hafa komið og verða okkur gott veganesti fram á við," segir Guðlaugur Þór.

Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 og eru aðildarríkin, auk Íslands, Bandaríkin, Rússland, Danmörk (f.h. Grænlands), Finnland, Svíþjóð, Noregur og Kanada. Að auki eiga sex samtök frumbyggja aðild að ráðinu sem fastir fulltrúar og áheyrnaraðilar eru 32 talsins. Finnland tekur við formennsku á vordögum og Ísland árið 2019. Ísland gegndi síðast formennsku í Norðurskautsráðinu árin 2002-2004. 

Efni þessarar fréttar tengist Heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
Heimsmarkmið - mynd
7. Sjálfbær orka
14. Líf í vatni
15. Líf á landi
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum