Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2000 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2000: Dómur frá 7. apríl 2000.

Ár 2000, föstudaginn 7. apríl, var í Félagsdómi í málinu nr. 2/2000:

Alþýðusamband Íslands f.h.

Flugvirkjafélags Íslands

(Bjarki Diego hdl.)

gegn

íslenska ríkinu og

Landhelgisgæslu Íslands

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi hinn 14. mars sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Kristján Torfason og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Grensásvegi 16a, Reykjavík fyrir hönd Flugvirkjafélags Íslands, kt. 550169-0109, Borgartúni 22, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið og Landhelgisgæsla Íslands, kt. 710169-5869, Seljavegi 32, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi:

  1. að ákvæði gr. 04.-8.3. og gr. 04.-8.4. í kjarasamningi FVFÍ og VSÍ vegna Flugleiða hf., sbr. 9. gr. kjarasamnings, dags. 16. apríl 1997, sbr. gr. 1.1. í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, dags. 19. sept. 1989, sbr. kjarasamning sömu aðila, dags. 16. maí 1997, veiti flugvirkjum sem starfa hjá Landhelgisgæslunni, og vinna það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf næsta vinnudags, frítökurétt, 1½ klst. fyrir hverja klst. sem hvíld skerðist vegna þessa, óháð því fyrir hvaða dag vikunnar frítímaskerðingin á sér stað eða hvort næsti vinnudagur sé helgidagur eða annar samningsbundinn eða lögskipaður frídagur

    og að ákvæði gr. 04.-1. í kjarasamningi FVFÍ og VSÍ vegna Flugleiða hf., sbr. 3. gr. kjarasamnings, dags. 13. júní 1984, sbr. 1.1. í fyrrnefndum kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, veiti flugvirkjum, sem starfa hjá Landhelgisgæslunni og vinna aðfaranótt frídags, jafnframt jafnmargra tíma frí á launum og unnið var aðfaranótt frídags, óháð því hvort frídagur sé helgidagur eða annar samningsbundinn eða lögskipaður frídagur,

  2. að Landhelgisgæslunni sé vegna ákvæðis gr. 04.8.7. í kjarasamningi FVFÍ og VSÍ vegna Flugleiða hf., sbr. 9. gr. kjarasamnings, dags. 16. apríl 1997, sbr. gr. 1.1. í fyrrnefndum kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, óheimilt að mæla svo fyrir einhliða, að laugardagur komi í stað frestaðs frídags (sunnudags) flugvirkja og
  3. að starf flugvirkja um borð í þyrlum Landhelgisgæslu Íslands teljist vinna fjarri föstum vinnustað skv. gr. 2.5. í fyrrgreindum kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, nema vinnan fari fram í eða við flugskýli eða á athafnasvæði Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti, en stefnandi áskilur sér rétt til að leggja fram málskostnaðarreikning við aðalmeðferð málsins, ef til hennar kemur.

 

Dómkröfur stefnda

Að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður að mati dómsins.

 

Málsatvik

Samkvæmt lögum nr. 25/1967 um Landhelgisgæslu Íslands, er Landhelgisgæslan (LHG) ríkisstofnun. Starfsmenn hennar, sem eru skipaðir, settir eða ráðnir til starfa til lengri tíma en eins mánaðar og hafa starfann að aðalstarfi, eru ríkisstarfsmenn í skilningi laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í 9. gr. laga nr. 25/1967 segir að laun og kjör þeirra starfsmanna LHG, sem vinna að staðaldri í landi, skuli vera samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna eða stéttarfélagssamningum viðkomandi starfsmanna. Um kaup og kjör flugvirkja, sem starfa hjá LHG, fer samkvæmt kjarasamningi Flugvirkjafélags Íslands (FVFÍ) og Vinnuveitendasambands Íslands (VSÍ) vegna Flugleiða hf., þ.e. að öðru leyti en því sem greinir í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá LGH, sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 1/1995.

Stefnandi kveður að ágreiningur sé milli Flugvirkjafélag Íslands við Landhelgisgæslu Íslands um túlkun nokkurra ákvæða í kjarasamningi á milli félagsins og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni, sbr. kjarasamning milli stefnanda og Vinnuveitendasambands Íslands vegna Flugleiða, dags. 29. janúar 1998, en skv. 1. gr. kjarasamnings aðila máls þessa fari að öðru leyti en þar greinir um kaup og kjör flugvirkja eftir nefndum kjarasamningi FVFÍ og VSÍ. Með bréfi, dags. 10. júní 1999, óskaði formaður FVFÍ eftir því við Landhelgisgæsluna að réttindi flugvirkja um frítökurétt hjá stefnanda yrðu virt. Jafnframt var óskað eftir því að jafnaður yrði ágreiningur varðandi 15% álagsgreiðslur fjarri föstum vinnustað. Krafa þar að lútandi var áréttuð með bréfi dags. 16. ágúst 1999. Með svarbréfi, dags. 25. ágúst 1999, var kröfum stefnanda hafnað. Með bréfi lögmanns FVFÍ, dags. 26. október 1999, voru kröfur flugvirkja ítrekaðar. Þar sem því bréfi hafi í engu verið sinnt kveður stefnandi nauðsynlegt að höfða mál þetta fyrir Félagsdómi.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst byggja dómkröfur sínar á ákvæðum fyrrgreinds kjarasamnings aðila, sem og nefndum kjarasamningi stefnanda og VSÍ f.h. Flugleiða, dags. 29. janúar 1998, en eins og áður segir fer að öðru leyti en í kjarasamningi aðila greinir, um kaup og kjör flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni, eftir síðarnefndum kjarasamningi FVFÍ og VSÍ.

Kröfuliður 1)

Í gr. 04.-8.3. í kjarasamningi stefnanda og VSÍ vegna Flugleiða hf. sé kveðið á um að séu starfsmenn beðnir um að mæta til vinnu, áður en 11 klst. lágmarkshvíld sé náð, sé heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1½ klst. (dagvinna) safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Heimilt sé að greiða út ½ klst. af frítökuréttinum, ef starfsmaður óski þess. Í 1. mgr. gr. 04.-8.4. sé kveðið á um að ef starfsmaður vinnur það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 stunda lágmarkshvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags, þ.e. að öllu jöfnu kl. 08:00, skuli fara með það á sama hátt og í gr. 04.-8.3. og að framan sé lýst. Skapist þá frítökuréttur, 1½ klst., eins og áður greinir. Stefnandi kveður að af hálfu stefnda, Landhelgisgæslu Íslands, hafi verið litið svo á að umræddur frítökuréttur skapaðist ekki, þegar unnið væri aðfaranótt sunnudags. Af því leiði, að nái starfsmaður ekki 11 klst. hvíld fyrir kl. 08.00 á sunnudegi, skapist ekki frítökuréttur. Af hálfu stefnanda sé þessum skilningi stefndu alfarið mótmælt. Skýlaust sé kveðið á um það í tilvitnuðum ákvæðum kjarasamnings FVFÍ og VSÍ vegna Flugleiða hf., sbr. gr. 1.1. kjarasamnings FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, að frítökuréttur skapist þegar unnið er "á undan frídegi eða helgi" og sé sunnudagur þar ekki undanskilinn. Ekki verði því séð að túlkun stefndu eigi sér stoð í greindum ákvæðum kjarasamnings aðila, heldur gangi hún þvert á móti gegn almennri túlkun samningsins.

Í niðurlagi gr. 04.-1. í kjarasamningi stefnanda og VSÍ vegna Flugleiða, sbr. gr. 1.1. í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands segir að þegar unnið sé aðfaranótt frídags skuli flugvirki eiga jafnmarga tíma frí á launum eins og unnið var og skulu þeir frítímar teknir með samkomulagi aðila. Á eftir greininni sé vísað til áðurgreindrar gr. 4.8.4. Kveður stefnandi að með orðinu "frídags" í gr. 04.-1. og tilvísun til gr. 4.8.4. sé verið að vísa til þess að flugvirkjar hjá Landhelgisgæslunni sem vinna aðfaranótt (þ.e. frá kl. 12 á miðnætti) þess dags sem þeir eiga frí, hvort sem næsti dagur sé helgidagur þjóðkirkjunnar, samningsbundinn eða lögskipaður frídagur, skuli fá jafnmarga tíma frí á launum eins og unnið var. Rökin séu m.a. þau að með því að vinna aðfaranótt fyrir frítíma sé frítíminn verulega skertur, m.a. vegna nauðsynlegs aukins hvíldartíma áður en unnt sé að njóta hans. Hafi því í kjarasamningi aðila verið samið, að bæta flugvirkjum upp þann tíma með sérstökum frítímum sem teknir skulu síðar með samkomulagi aðila.

Kröfuliður 2)

Í gr. 04.8.7. í kjarasamningi FVFÍ og VSÍ vegna Flugleiða, sbr. gr. 1.1. í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, komi fram að vikulegur frídagur skuli vera sunnudagur og að meginreglan sé sú að allir starfsmenn hjá sama fyrirtæki skuli taka frí þann dag. Í ákvæðinu sé jafnframt tiltekið að með samkomulagi við starfsmenn megi fresta vikulegum frídegi. Þá sé kveðið á um að sé sérstök þörf á að skipuleggja vinnu þannig að vikulegum frídegi sé frestað skuli um það gerður kjarasamningur. Megi þá hafa töku frídaga þannig að teknir séu tveir frídagar saman aðra hverja helgi (laugardag og sunnudag). Stefnandi kveður óyggjandi að umrætt fyrirkomulag á töku frídaga, þ.e. að leggja saman laugardag og sunnudag og telja þá saman til frídaga, í stað vikulegs frídags, verði að eiga sér stoð í samkomulagi við starfsmenn eða í kjarasamningi, ef um skipulega ráðstöfun sé að ræða. Kveður stefnandi það byggja á skýru ákvæði samningsins. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að stefndi, Landhelgisgæsla Íslands hafi, þrátt fyrir skýrt ákvæði kjarasamnings, einhliða ákveðið að töku frestaðs frídags skyldi vera þannig háttað að teknir væru saman tveir frídagar næstu helgi á eftir, þ.e. laugardagur og sunnudagur. Ekki hafi hins vegar verið gert neitt samkomulag við starfsmenn um þá tilhögun né kjarasamningur gerður með slíkum hætti. Fari þessi framkvæmd því þvert gegn skýru orðalagi ákvæðis gr. 04.8.7. í kjarasamningi stefnanda og VSÍ, sbr. gr. 1.1. í kjarasamningi aðila, um að ekki megi fresta vikulegum frídegi nema með samkomulagi við starfsmenn, þar sem sérstakar ástæður geri slík frávik nauðsynleg.

Kröfuliður 3)

Kafli 2.5. í gildandi kjarasamningi FVFÍ og stefndu, sbr. kjarasamningur, dags. 16. maí 1997, fjalli um álag vegna vinnu fjarri föstum vinnustað. Í gr. 2.5.1. sé tiltekið að greiða skuli flugvirkjum 15% álag á grunnkaup þegar unnið sé fjarri föstum vinnustað. Kveður stefnandi að af hans hálfu sé á því byggt að fastur vinnustaður flugvirkja sem starfa hjá Landhelgisgæslu Íslands sé í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli, þar sem eftirlit, m.a. með þyrlum Landhelgisgæslu Íslands, fari fram og þeim sé viðhaldið. Af því leiði að vinna flugvirkja, sem fari fram annars staðar, teljist fjarri föstum vinnustað. Þá kveður stefnandi að flugvirkjar séu ekki ráðnir til starfa um borð í þyrlu nema til þeirra starfa sem að framan sé rakið, þ.e. á starfssvæði stefnda, Landhelgisgæslu Íslands, á Reykjavíkurflugvelli. Í þeim tilvikum þar sem flugvirkjum sé gert að sinna störfum um borð í þyrlum utan framangreinds starfssvæðis teljist flugvirkjar því starfa fjarri föstum vinnustað. Því verði að telja óyggjandi að vinna flugvirkja um borð í þyrlum Landhelgisgæslu Íslands annars staðar en í eða við starfsaðstöðu á Reykjavíkurflugvelli sé utan fasts vinnustaðar. Ráðningarstaður flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni sé þannig ekki um borð í þyrlum og hljóti því skv. meginreglum vinnuréttar að teljast flugskýlið við Reykjarvíkurflugvöll þar sem þeir starfa að öllu jöfnu. Kveður stefnandi að eðlisrök mæli einnig með því að flugvirkjar njóti álags vegna vinnu í þyrlu, m.a. vegna aukinnar áhættu sem því sé samfara. Stefnandi kveðst mótmæla því sérstaklega að um það hafi verið samið að þátttaka flugvirkja í áhöfn í þyrluflugi fæli það í sér að þar með teldist þyrla fastur vinnustaður flugvirkja, en engu slíku samkomulagi sé til að dreifa. Kveður stefnandi að sérákvæði kjarasamnings hér að lútandi taki einmitt þvert á móti til þess að greiða sérstakt álag vegna flugs, þ.m.t. þyrluflugs. Þá sé einnig rétt að geta þess að greitt hafi verið um árabil álag á grunnkaup þegar unnið hafi verið um borð í þyrlum utan athafnasvæðis Landhelgisgæslu Íslands, þar til því hafi verið algerlega verið hætt af hálfu stefnda, Landhelgisgæslunnar, fyrir nokkru síðan, þrátt fyrir mótmæli stefnanda.

Af hálfu stefnanda er tekið fram að framkvæmd kjarasamninga gagnvart öðrum viðsemjendum en stefnda, aðallega Flugleiðum hf., hafi verið í samræmi við það sem kemur fram í kröfuliðum 1 og 2.

Stefnandi byggir kröfur sínar fyrst og fremst á gildandi kjarasamningi aðila, sbr. kjarasamning, dags. 16. maí 1997, aðallega 1. gr. og gr. 2.5., sem og kjarasamningi stefnanda og VSÍ, dags. 29. janúar 1998, sérstaklega gr. 04.-8.3., 1. mgr. gr. 04.-8.4., gr. 04.-1. og gr. 04.8.7.

Stefnandi vísar einnig til almennra reglna um skuldbindingargildi samninga og meginreglna vinnuréttar og til hliðsjónar til dóms Félagsdóms uppkveðinn þann 27. apríl 1995, í máli nr. 1/1995. Þá er vísað til laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, IV. kafla um Félagsdóm, þ.m.t. 44. gr. að því er varðar lögsögu dómsins til þessa máls.

Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991, aðallega 129. og 130. gr.

 

Málsástæður og lagarök stefndu

Af hálfu stefndu er tekið fram um málavexti að hjá Landhelgisgæslu Íslands vinni tíu starfsmenn sem sinni viðgerðum og viðhaldi á þyrlum og öðrum flugvélakosti LHG og fái greidd laun samkvæmt framangreindum kjarasamningum, þar á meðal sé einn radíóvirki og einn flugvirkjanemi. Allir flugvirkjarnir séu ráðnir til starfa í dagvinnu, en þrír þeirra gangi bakvaktir til viðbótar við dagvinnuna. Bakvaktirnar séu gengnar eina viku í senn, þ.e. eftir að dagvinnu ljúki á mánudegi þar til dagvinna hefjist næsta mánudag.

Flugvirkjarnir þrír sem taki bakvaktir séu jafnframt áhafnameðlimir í þyrluflugi á vegum LHG og sé einn flugvirki ávallt um borð í þyrluflugi. Starfsskyldur þessara flugvirkja séu tvenns konar. Þær felist annars vegar í viðgerðum og viðhaldi á þyrlum og öðrum flugvélakosti og hins vegar í spilvinnu um borð í þyrlum LHG. Þeir sinni þyrluvinnu eftir því sem atvikast hverju sinni, þ.e. ýmist í dagvinnu eða í útköllum af bakvöktum. Vinna þeirra um borð í þyrlum hafi ekki verið talin til vinnu fjarri föstum vinnustað.

Af hálfu stefndu er bent á að 1. kröfuliður stefnanda feli í raun í sér tvenns konar viðurkenningarkröfur. Um alls óskyld atriði sé að ræða og í raun villandi að hafa þær í einni dómkröfu. Þá sé kröfuliðurinn ekki svo skýr sem skyldi. Fyrri krafan lúti að frítökurétti vegna vinnu á undan frídegi eða helgi á grundvelli ákvæða um lágmarkshvíld. Hin síðari feli í sér kröfu um launað frí í jafnmarga tíma og unnir séu aðfaranótt frídags, þ.e. á grundvelli ákvæða um yfirvinnu.

Um ákvæði 04.-8.3. og 1. mgr. 04.-8.4. og önnur ákvæði er varða lágmarkshvíld hafi verið samið með 9. gr. í kjarasamningi FVFÍ og VSÍ vegna Flugleiða hf. frá 16. apríl 1997. Umræddur samningur gildi einnig um flugvirkja hjá LHG, sbr. 1. gr. í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs frá 16. maí 1997. Ákvæði fyrrnefndrar 9. gr. hafi komið til viðbótar vinnutímasamningi ASÍ og VSÍ um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma, dags. 30. desember 1996. Með vinnutímasamningnum hafi aðilar hrint í framkvæmd vinnutímatilskipun Evrópusambandsins, þ.e. tilskipun ráðsins nr. 93/104/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma frá 23. nóvember 1993. Með tilliti til hins íslenska vinnumarkaðar fólust í tilskipuninni ýmis nýmæli, einkum að því er varðar skilgreiningar á daglegri og vikulegri lágmarkshvíld.

Í 9. gr. kjarasamnings FVFÍ og VSÍ vegna Flugleiða hf. sé m.a. að finna meginregluna um 11 klst. samfellda lágmarkshvíld á hverjum sólarhring og vikulega lágmarkshvíld, þ.e. einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma, sem geri samtals 35 klst. samfellda lágmarkshvíld í hverri viku. Áréttað sé að það sé ekki sett sem ófrávíkjanlegt skilyrði að þessi frídagur skuli tengjast helgi. Við tilteknar aðstæður sé heimilt að víkja frá meginreglunum um daglega og vikulega lágmarkshvíld, þ.e. jafnan með því að fresta hvíldinni þar til síðar. Í þeim tilvikum sem daglegri lágmarkshvíld sér frestað vegna þess að viðkomandi sé sérstaklega beðinn um að mæta til vinnu áður en daglegri lágmarkshvíld sé náð skapist frítökuréttur, þ.e. 1,5 klst. í dagvinnu safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist, sbr. ákvæði 4.8.3 í 9. gr. kjarasamningsins frá 16. apríl 1997. Samskonar frítökuréttur skapist einnig þegar unnið sé það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags, sbr. 1. ml. 1. mgr. ákvæðis 4.8.4 fyrrnefndrar 9. gr.

Samkvæmt kröfugerðinni krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að umrædd ákvæði 04.-8.3. og 1. mgr. 04.-8.4. veiti flugvirkjum sem starfa hjá LHG og vinna það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf næsta vinnudags, frítökurétt, 1,5 klst. fyrir hverja klst. sem hvíld skerðist vegna þessa, óháð því fyrir hvaða dag vikunnar "frítímaskerðingin" eigi sér stað eða hvort næsti "vinnudagur" sé helgidagur eða annar samningsbundinn eða lögskipaður frídagur.

Miðað við orðalagið lúti viðurkenningarkrafan eingöngu að frítökurétti sem skapist vegna vinnu á undan frídegi eða helgi. Almennt sé litið svo á að í þeim tilvikum þegar starfsmaður eigi frídag eða helgi sé framundan hjá starfsmanni sé engri vinnuskyldu til að dreifa, sbr. síðar. Þegar af þeirri ástæðu hljómi það þversagnarkennt hjá stefnanda að krefjast frítökuréttar vegna vinnu á undan frídegi eða helgi, óháð því fyrir hvaða dag vikunnar "frítímaskerðingin" eigi sér stað eða hvort næsti "vinnudagur" sé helgidagur eða annar samningsbundinn eða lögskipaður frídagur. Þá sé rétt að taka fram að hugtakið "frítímaskerðing", sem notað sé í viðurkenningarkröfunni, sé hvorki að finna í tilvitnuðum kjarasamningi FVFÍ og VSÍ frá 16. apríl 1997 né í vinnutímasamningnum eða vinnutímatilskipuninni. Gjalda verði varhug við því að Félagsdómur fallist á viðurkenningarkröfur sem fela í sér hugtök sem enginn þekkir og hvergi séu skilgreind.

Við skýringu á hugtökunum frídagur og helgi sé nærtækt að líta til annarra ákvæða fyrrnefndrar 9. gr. Hugtakið frídagur sé skilgreint í ákvæði 4.8.6 en þar segir að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmaður hafa a.m.k. einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma. Með frídegi í ákvæði 4.8.4 hljóti því að vera átt við hinn vikulega frídag í skilningi ákvæðis 4.8.6 en ekki aðra daga sem viðkomandi kunni að eiga frí frá störfum. Ákvæði 4.8.3 snúi hins vegar að daglegum hvíldartíma og eigi ætíð við þegar viðkomandi sé sérstaklega beðinn um að mæta aftur til vinnu áður en 11 tíma daglegri lágmarkshvíld sé náð, óháð því hvort sá dagur sem unninn er, sé á virkum degi, laugardegi, sunnudegi, helgidegi eða samningsbundnum/lögskipuðum frídegi. Það verði því að ætla að hugtakið helgi í ákvæði 4.8.4 einskorðist við fríhelgar, þ.e. þegar viðkomandi eigi frí frá störfum á laugardegi og/eða sunnudegi.

Þar sem flugvirkjar hjá LHG vinni allir dagvinnu verði að ætla að á frítökurétt, vegna vinnu á undan frídegi eða fríhelgi samkvæmt ákvæði 4.8.4, reyni fyrst og fremst hjá þeim sem taki bakvakt. Um bakvaktir sé fjallað í 6. kafla samnings fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og FVFÍ vegna starfa flugvirkja hjá LHG, dags. 19. september 1989. Þar segir m.a. að með bakvakt sé átt við að starfsmaður sé ekki við störf en sé reiðubúinn að sinna útkalli og að bakvakt hefjist þegar dagvinnu ljúki og ljúki þegar dagvinna hefjist. Í bakvakt felist að á viðkomandi hvíli skilyrt vinnuskylda, þ.e. honum sé skylt að vinna ef á hann sé kallað. Af því leiði að hann eigi ekki frí frá störfum meðan á bakvakt standi. Þegar af þeirri ástæðu geti vinna á undan bakvaktarhelgi ekki fallið undir ákvæði 4.8.4 þar sem sú helgi sé ekki fríhelgi. Með sömu rökum geti vinna á undan heilum bakvaktardegi, þ.e. í þeim tilvikum þegar dagvinnufólk eigi frí í miðri viku, ekki fallið undir fyrrnefnt ákvæði.

Samkvæmt framansögðu sé ljóst að frítökuréttur samkvæmt ákvæði 4.8.3 eigi eingöngu við um þau tilvik þegar viðkomandi vinnur það lengi á undan næsta vinnudegi að hann nái ekki 11 klst. lágmarkshvíld, enda hafi hann verið sérstaklega beðinn um að fresta lágmarkshvíldinni. Frítökuréttur skv. ákvæði 4.8.4 eigi hins vegar eingöngu við um þau tilvik þegar viðkomandi vinni það lengi á undan vikulegum frídegi eða fríhelgi að hann nái ekki 11 klst. hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags.

Seinni viðurkenningarkrafan sé að mati stefnda ekki svo skýr sem skyldi. Þar sé vísað í gamalt ákvæði 04.-1. í kjarasamningi FVFÍ og VSÍ vegna Flugleiða hf., sbr. 3. gr. kjarasamnings dags. 13. júní 1984, sbr. grein 1.1. í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá LHG, sbr. kjarasamning, dags. 16. maí 1997.

Samkvæmt kröfuliðnum krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að umrætt ákvæði veiti flugvirkjum, sem starfa hjá LHG og vinna aðfaranótt frídags, jafnframt jafnmargra tíma frí á launum og unnið var aðfaranótt frídags, óháð því hvort frídagur sé helgidagur eða annar samningsbundinn eða lögskipaður frídagur.

Ætla verði að hjá LHG reyni fyrst og fremst á ákvæði 04.-1. þegar flugvirki á bakvakt sé kallaður út að nóttu til. Þar sem bakvaktarfyrirkomulagið hjá LHG sé með þeim hætti að sami flugvirki gangi bakvaktir eina viku í senn frá kl. 16.00 á mánudegi til 08.00 næsta mánudag sé ljóst að dagurinn eftir slíka næturvinnu sé mjög sjaldan frídagur í skilningi fyrrnefnds ákvæðis 04.-1. Því eins og áður sagði, hvíli skilyrt vinnuskylda á bakvaktarmanninum á laugardögum og sunnudögum. Hina daga vikunnar beri honum að inna dagvinnu sína af hendi en skilyrt vinnuskylda hvíli á honum þá virka daga ársins sem flugvirkjar eiga launað frí frá dagvinnu. Fyrrnefnt ákvæði 04.-1. sé þannig eingöngu raunhæft gagnvart bakvaktarmönnum þegar bakvaktarskiptin lendi á frídegi, þ.e. í þeim tilvikum þegar flugvirkjar eiga launað frí frá dagvinnu á mánudegi og útkall á sér stað nóttina áður.

Í stefnu sé fullyrt að aðrir viðsemjendur FVFÍ hafi framkvæmt kjarasamninga í samræmi við það sem fram komi í 1. kröfulið stefnunnar. Þessari fullyrðingu er mótmælt sem ósannaðri. Ekki sé samið um bakvaktarfyrirkomulag á almennum markaði og því ekki raunhæft að taka mið af þeirri framkvæmd sem þar sé viðhöfð.

Í þessum kröfulið sé einnig vísað til ákvæðis 04.-8.7 í kjarasamningi FVFÍ og VSÍ vegna Flugleiða hf., sbr. 9. gr. kjarasamnings, dags. 16. apríl 1997, sbr. grein 1.1. í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá LHG. Umræddur samningur gildi einnig um flugvirkja hjá LHG, sbr. 1. gr. í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs frá 16. maí 1997.

Samkvæmt 2. kröfulið krefst stefnandi þess, að viðurkennt verði með dómi að LHG sé vegna ákvæðis 04.-8.7 óheimilt að mæla svo fyrir einhliða, að laugardagur komi í stað frestaðs frídags (sunnudags) flugvirkja. Athyglisvert sé að í þessum kröfulið sé hugtakið frídagur eingöngu notað um einn dag vikunnar, þ.e. sunnudag en hugtakinu sé ætlað ólíkt rýmri merking í báðum viðurkenningarkröfum 1. kröfuliðar.

Samkvæmt áðurnefndri 9. gr. skuli starfsmaður á hverju sjö daga tímabili hafa a.m.k. einn vikulegan frídag, sem að svo miklu leyti sem því verði við komið skuli vera á sunnudegi. Hinum vikulega frídegi sé heimilt að fresta í tvenns konar tilfellum, sbr. ákvæði 4.8.7 sömu greinar. Í fyrsta lagi megi vinnuveitandi með samkomulagi við starfsmenn sína fresta vikulegum frídegi þegar sérstakar ástæður geri slík frávik nauðsynleg. Í öðru lagi megi vinnuveitandi, ef sérstök þörf sé á, skipuleggja vinnuna þannig að vikulegum frídegi sé frestað samkvæmt heimild í kjarasamningi. Vinnuveitandi þurfi að afla samþykkis starfsmanns/starfsmanna áður en hann beiti fyrri fráviksheimildinni. Beiti vinnuveitandi aftur á móti síðari fráviksheimildinni þurfi hann ekki að bera það undir starfsmann/starfsmenn, enda grundvallist hún á sérstakri heimild í kjarasamningi. Áréttað er í þessu samhengi að samkvæmt meginreglunni um stjórnunarrétt vinnuveitanda sé það vinnuveitandi sem fari með framkvæmd kjarasamnings, þar með talið ákvarðanir er varða vinnutímafyrirkomulagið. Við þá framkvæmd þurfi hann ekki að leita samþykkis eða hafa samráð við starfsmenn nema slíkt sé sérstaklega áskilið, en svo sé ekki í þeim samningi sem hér um ræðir.

Þar sem vinnuskylda flugvirkja hjá LHG takmarkist almennt við dagvinnutíma frá mánudegi til föstudags sé ljóst að viðurkenningarkrafan taki fyrst og fremst til þeirra sem gangi bakvaktir hjá LHG. Vísast hér til þess sem áður sagði um bakvaktir flugvirkja hjá LHG en um þær hafi aðilar samið sérstaklega í kafla 6 í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá LHG frá 19. september 1989. Samkvæmt ákvæði 6.2 í þeim kjarasamningi sé heimilt að láta flugvirkja ganga bakvakt eina viku í senn og þar með fresta vikulegum frídegi.

Samkvæmt ákvæðum fyrrnefnds 6. kafla um bakvaktir séu bakvaktir gengnar viku í senn, þ.e. þá daga og þann tíma sólarhrings sem sé utan hefðbundinnar dagvinnu á virkum dögum. Þetta fyrirkomulag sé í samræmi við áðurnefnt ákvæði 4.8.7. sbr. 9. gr. kjarasamnings, dags. 16. apríl 1997, en þar komi fram að á grundvelli kjarasamningsákvæða sé heimilt að skipuleggja vinnuna með þeim hætti að vikulegum frídegi sé frestað þannig að teknir séu tveir frídagar saman aðra hverja helgi (laugardag og sunnudag).

Að framansögðu leiði að skipulag vinnutímans hjá LHG feli í sér að vikulegum frídegi (sunnudegi) þess flugvirkja sem sé á bakvakt sé frestað til næsta laugardags á grundvelli ákvæða í kjarasamningi. Af framansögðu sé jafnframt ljóst að viðurkenningarkrafa 2. kröfuliðar geti eingöngu átt við um þau tilvik þegar vinnuveitandi þurfi að leita eftir samkomulagi við starfsmann/starfsmenn áður en vikulegum frídegi þeirra sé frestað, en ekki þegar vinnuveitandi fresti vikulegum frídegi samkvæmt ákvæði í kjarasamningi. Ekki liggi fyrir að ágreiningur sé fyrir hendi hvað það atriði varðar, þ.e. frestun vikulegs frídags samkvæmt samkomulagi við starfsmann.

Í 3. kröfulið sé vísað til greinar 2.5. í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands. Ætla verði að stefnandi eigi við kafla 2.5., um álag vegna vinnu fjarri föstum vinnustað í kjarasamningi sömu aðila, dags. 19. september 1989. Þar segir í ákvæði 2.5.1. að greiða skuli flugvirkja 15% álag á grunnkaup þegar unnið sé fjarri föstum vinnustað.

Hér sé krafist viðurkenningar á því að starf flugvirkja um borð í þyrlum LHG teljist vinna fjarri föstum vinnustað skv. umræddu ákvæði 2.5., nema vinnan fari fram í eða við flugskýli eða á athafnasvæði LHG á Reykjavíkurflugvelli.

Af ráðningarsamningum við flugvirkja hjá LHG megi sjá að vinnustaður þeirra sé flugvöllurinn við Nauthólsvík, þ.e. Reykjavíkurflugvöllur, og aðrar starfsstöðvar LHG. Ákvæðið taki þannig til allra starfsstöðva LHG eins og þær séu á hverjum tíma. Starfsemi LHG fari nú fram á Seljavegi 32 í Reykjavík, við höfnina í Reykjavík, á Reykjavíkurflugvelli og um borð í varðskipum og flugvélakosti LHG.

Þyrluflug flugvirkja LHG hefjist ætíð á Reykjavíkurflugvelli og því ljúki þar einnig. Flugvirkjarnir fái greitt fyrir allan þann tíma sem þeir séu um borð. Þyrluflugið taki mislangan tíma. Það sé stundum skemmra en ein klst. og hafi farið upp fyrir átta klst. en sé að meðaltali þrjár stundir. Samkvæmt framansögðu verði ekki séð að flugvirkjarnir hafi sérstök óþægindi af þyrlufluginu.

Flugvirkjar LHG hafi verið áhafnarmeðlimir í þyrluflugi allt frá árinu 1995. Starf þeirra um borð felist fyrst og fremst í því að stjórna spilinu, þ.e. þeim tækjakosti sem notaður sé við sig niður úr þyrlunni og upp aftur. Með því að taka að sér spilvinnuna hafi flugvirkjar í raun fallist á að þyrlurnar séu þeirra vinnustaður við þau störf enda verði spilinu ekki stjórnað nema um borð í þyrlunum. Samkvæmt framansögðu mæli eðlisrök gegn því að vinna flugvirkja um borð í þyrlum LHG geti talist til vinnu fjarri föstum vinnustað.

Áður en stefndi, LHG, fól flugvirkjum að sinna spilvinnunni hafi verið haft samráð við þá. Þeir hafi samþykkt þetta fyrirkomulag fyrir sitt leyti. Frá því að flugvirkjum hafi, auk annarra hefðbundinna starfa, verið falið að gerast áhafnarmeðlimir í þyrluflugi LHG hafi FVFÍ gert tvo kjarasamninga við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, þ.e. þann 10. ágúst 1995 og 16. maí 1997. Í hvorugt skiptið hafi verið hreyft við ákvæðum um álag vegna vinnu fjarri föstum vinnustað og ekki verði séð að FVFÍ hafi haft í frammi nokkrar kröfur í þeim efnum. Að þessu virtu og að teknu tilliti til þess að FVFÍ hafði fyrst síðla árs 1999 í frammi mótmæli vegna þeirra framkvæmdar LHG að líta ekki á vinnu flugvirkja um borð í þyrlum sem vinnu fjarri föstum vinnustað, verði að telja að um tómælti sé að ræða af hálfu FVFÍ.

Varðandi málskostnað er vísað til 130. gr. eml.

 

Niðurstaða

Ákvæði gr. 04.-8.3. og gr. 04.-8.4. í kjarasamningi Flugvirkjafélags Íslands og Vinnuveitendasambandsins vegna Flugleiða hf., sbr. 9. gr. kjarasamnings, dags. 16. apríl 1997, gilda einnig um flugvirkja sem starfa hjá Landhelgisgæslu Íslands, sbr. gr. 1.1. í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, dags. 19. september 1989, sbr. kjarasamning sömu aðila dags. 16. maí 1997. Samningsákvæði þessi fjalla um frávik frá lágmarkshvíldartíma. Í gr. 04.-8.3 segir að séu starfsmenn sérstaklega beðnir að mæta til vinnu áður en 11 klst. hvíld sé náð sé heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar, þannig að frítökuréttur, 1½ klst.(dagvinna), safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Í gr. 04.-8.4 segir að vinni starfsmaður það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags skuli fara með það á sama hátt. Um þessi ákvæði er fjallað í fyrri lið kröfuliðar 1.

Í ákvæði gr. 04.-1. í kjarasamningi FVFÍ og VSÍ vegna Flugleiða hf., sbr. 3. gr. kjarasamnings dags. 13. júní 1984, sbr. gr. 1.1. í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, segir m.a. að ef unnið sé aðfaranótt frídags skuli flugvirki eiga jafnmarga tíma frí á launum eins og unnið var og skuli þeir frítímar teknir með samkomulagi aðila. Um þetta ákvæði er fjallað í síðari lið kröfuliðar 1.

Viðurkenningarkrafa stefnanda samkvæmt fyrri lið kröfuliðar 1 er um það að frítökuréttur samkvæmt þeim samningsákvæðum sé veittur óháð því fyrir hvaða dag vikunnar frítímaskerðingin eigi sér stað og hvort næsti dagur sé helgidagur eða annar samningsbundinn eða lögskipaður frídagur. Viðurkenningarkrafa stefnanda samkvæmt síðari lið kröfuliðar 1 lýtur að því að flugvirkjum, sem starfa hjá Landhelgisgæslunni og vinna aðfararnótt frídags, séu veittir jafn margir frítímar á launum og unnið var aðfaranótt frídags, óháð því hvort frídagur sé helgidagur eða annar samningsbundinn eða lögskipaður frídagur.

Af bréfaskrifum aðila má ráða að ágreiningur sé um frítökurétt flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni samkvæmt greindum kjarasamningsákvæðum, sbr. bréf Flugvirkjafélags Íslands, dags. 10. júní 1999, til Landhelgisgæslunnar og svarbréf stofnunarinnar dags. 25. ágúst 1999. Auk þess deiluefnis, sem greinir í kröfulið 3, er í bréfum þessum einungis lausleg umfjöllun um ágreining varðandi fyrri lið í kröfulið 1. Ekki liggur frekar fyrir að upp hafi komið raunhæf ágreiningstilvik um skilning á umræddum kjarasamningsákvæðum. Krafa stefnanda samkvæmt 1. tölulið lýtur þannig efnislega að því að fá viðurkennda almenna túlkun á kjarasamningsákvæðum án skýrra tengsla við ákveðið úrlausnarefni og án þess að ágreiningsefnið sé afmarkað á glöggan hátt. Þannig framsett er kröfugerð stefnanda ekki dómhæf samkvæmt 1. mgr. 25. gr. og d- og e- liði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Í gr. 04.8.7. í kjarasamningi FVFÍ og VSÍ vegna Flugleiða hf., sbr. 9. gr. kjarasamnings dags. 16. apríl 1997, sbr. gr. 1.1. í kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, er fjallað um vikulegan frídag, sem vera skal á sunnudegi að svo miklu leyti sem því verður við komið. Samkvæmt ákvæðinu er þó heimilt með samkomulagi við starfsmenn að fresta vikulegum frídegi, þar sem sérstakar ástæður gera slík frávik nauðsynleg. Um þetta ákvæði er fjallað í kröfulið 2 og krafist viðurkenningar á því að óheimilt sé að mæla svo fyrir einhliða, að laugardagur komi í stað frestaðs frídags (sunnudags). Krafa stefnanda samkvæmt 2. tölulið er einnig því marki brennd að fá viðurkennda almenna túlkun á kjarasamningsákvæði án beinna tengsla við ákveðið úrlausnarefni, enda kemur hvergi fram í gögnum málsins, eins og fyrr segir, að ágreiningur hafi risið út af þessu samningsákvæði. Í því sambandi má og benda á að tekið er fram í greindu samningsákvæði að sé sérstök þörf á að skipuleggja vinnu þannig að vikulegum frídegi sé frestað skuli um það gerður kjarasamningur. Kröfugerð stefnanda samkvæmt kröfulið 2 er ekki heldur dómhæf og eiga þar við sömu lagarök og um kröfulið 1.

Vegna framangreindra annmarka á kröfugerð stefnanda verður kröfuliðum 1 og 2 vísað frá dómi án kröfu.

Í. gr. 2.5.1 í fyrrgreindum kjarasamningi FVFÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands er kveðið á um það að greiða skuli flugvirkjum 15% álag á grunnkaup þegar unnið er fjarri föstum vinnustað. Samkvæmt kröfulið 3 í kröfugerð stefnanda krefst hann viðurkenningar á því að starf flugvirkja um borð í þyrlum Landhelgisgæslu Íslands teljist vinna fjarri föstum vinnustað í skilningi ákvæðisins, nema vinnan fari fram í eða við flugskýli eða á athafnasvæði Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli.

Stefnandi byggir á því að fastur vinnustaður flugvirkja sem starfa hjá Landhelgisgæslu Íslands sé í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli, þar sem eftirlit, m.a. með þyrlum Landhelgisgæslunnar, fer fram og þeim er haldið við. Þetta telur stefnandi leiða til þess að vinna flugvirkja sem fari fram annars staðar teljist fjarri föstum vinnustað. Stefnandi mótmælir sérstaklega að um það hafi verið samið að þátttaka flugvirkja í áhöfn í þyrluflugi feli það í sér að þar með teljist þyrla fastur vinnustaður flugvirkja.

Stefndi telur að ákvæðið í ráðningarsamningi & aðrar starfstöðvar LHG" taki til allra vinnustaða Landhelgisgæslunnar eins og þeir eru á hverjum tíma, þar með talin skip og flugvélar. Þyrluflug flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands hefjist á Reykjavíkurflugvelli og ljúki þar einnig. Þyrluflug taki að meðaltali 3 stundir. Þá bendir stefndi á að flugvirkjar Landhelgisgæslu Íslands hafi verið áhafnarmeðlimir í þyrluflugi allt frá árinu 1995. Hlutverk þeirra sem áhafnarmeðlima sé einkum að stjórna þeim tækjum sem notuð eru við sig úr þyrlunni. Með því að taka að sér ákveðin verkefni sem áhafnarmeðlimur þyrlu hafi flugvirkjarnir í raun fallist á að þyrlan sé þeirra vinnustaður.

Fyrrgreint ákvæði gr. 2.5.1. var í kjarasamningi málsaðila frá 19. september 1989 og hefur verið óbreytt í öllum þeim samningum sem gerðir hafa verið milli aðila síðan, síðast í samningi frá 16. maí 1997, en gildistími þess samnings var til 15. febrúar 2000.

Allan þennan tíma hefur fylgt samningum aðila Yfirlýsing 1" svohljóðandi: Landhelgisgæsla Íslands er reiðubúin að þjálfa flugvirkja í áhöfn á stærri þyrlur LHG. Skal þeim skylt að fara á vaktskrá þegar LHG óskar þess. Skal það gert í samráði við trúnaðarmann."

Í málinu liggja frammi 7 ráðningasamningar. Í reit sem auðkenndur er Vinnustaður (ráðningarstaður)" er allstaðar skráð: Flugvöllur v/Nauthólsvík, aðrar starfstöðvar LHG".

Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið og að virtu eðli starfa þessara, þykja rök ekki standa til þess að líta svo á að umrædd störf flugvirkja um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar teljist unnin fjarri föstum vinnustað í skilningi tilgreinds ákvæðis kjarasamnings.

Ber því að sýkna stefndu af kröfu stefnanda samkvæmt kröfulið 3 í kröfugerð um viðurkenningu á því að starf flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar, utan starfstöðvarinnar á Reykjavíkurflugvelli, teljist til vinnu fjarri föstum vinnustað.

Rétt þykir að stefnandi greiði stefndu 150.000 kr. í málskostnað.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, íslenska ríkið og Landhelgisgæsla Íslands, skulu vera sýkn af kröfu stefnanda, Alþýðusambands Íslands, f.h. Flugvirkjafélags Íslands, samkvæmt kröfulið 3 í kröfugerð.

Kröfuliðum 1 og 2 í kröfugerð stefnanda er vísað frá dómi án kröfu.

Stefnandi greiði stefndu 150.000 kr. í málskostnað.

  

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Ingibjörg Benediktsdóttir

Kristján Torfason

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum