Hoppa yfir valmynd
1. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 17/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 17/2022

Miðvikudaginn 1. júní 2022

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 5. janúar 2022, kærði B lögmaður f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 2. desember 2021 á umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn sem barst Sjúkratryggingum Íslands 23. október 2019 vegna tjóns sem hún telur að rekja megi til meðferðar á C þar sem brot í hægri hendi hafi verið vangreint. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 2. desember 2021, á þeim grundvelli að ekki væri um að ræða bótaskylt atvik með vísan til 2. og 12. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. janúar 2022. Með bréfi, dags. 11. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 24. janúar 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. janúar 2022, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði hina kærðu ákvörðun og viðurkenni rétt hennar til bóta á grundvelli laga um sjúklingatryggingu.

Í kæru segir að kærandi hafi leitað til C 4. júní 2019 í kjölfar slyss sem hún hafi orðið fyrir. Hún hafi klemmt hægri hendi á milli tveggja kara við vinnu sína X 2019 og kvartað undan verk í hægri hendi. Tekin hafi verið röntgenmynd sem hafi verið send í úrlestur til D. Niðurstöður rannsókna hafi verið þær að röntgenmyndin sýndi ekki brot. Kærandi hafi aftur leitað til C 13. júní 2019 vegna áframhaldandi verkja frá hægri hendi með leiðni í úlnlið og olnboga. Hún hafi fengið vottorð vegna óvinnufærni.

Kærandi hafi farið í skoðun á C 1. júlí 2019 þar sem hún hafi verið óvinnufær í tæpan mánuð og versnað mikið eftir að hafa reynt að fara aftur til vinnu. Þar hafi komið fram að versti verkurinn kæmi við að hreyfa og nota hendina, eymsli væru yfir handarbaki og fingur ásamt verkjasting upp handlegg af og til. Kærandi hafi aftur haft samband við stofnunina 2. júlí 2019 vegna verkja og óskað eftir að komast í segulómun sem fyrst. Læknir hafi haft samband við E og segulómun farið fram 4. júlí 2019. Sú rannsókn hafi ekki sýnt merki um brot.

Í samskiptaseðli 9. júlí 2019 segi að kærandi sé lítið sem ekkert skánandi og hún hafi fengið beiðni í sjúkraþjálfun og ráðleggingu um hvíld frá vinnu. Kærandi hafi aftur haft samband við C 19. júlí 2019 eftir ráðleggingu sjúkraþjálfara um að fá bæklunarlækni til að lesa úr myndunum. Stofnunin hafi sent tilvísun 24. júlí 2019 til handaskurðlæknis á Landspítala og fyrrnefndar röntgen- og segulómunarmyndir verið færðar inn í kerfi spítalans.

Kærandi hafi verið skoðuð 15. október 2019 á göngudeild Landspítala. Samkvæmt vottorði meðferðarlæknis, dags. 14. október 2020, hafi eymsli verið yfir „pisiformebeininu“ og við endurskoðun á fyrrnefndum myndum hafi þótt ljóst að kærandi hefði fengið ótilfært brot í „pisiformbeini“ sem ekkert hafi verið hægt að gera við þá.

Í samantekt og niðurstöðum meðferðarlæknis Landspítala, dags. 14. október 2020, segi að kærandi hafi fengið brot við klemmuna og áverka á aðlægan lið og mjúkvefi og við endurmat tæpu ári eftir slys hafi hún enn verið með daglega verki með umtalsverð áhrif á daglegar athafnir. Einnig segi að töf hafi orðið á greiningu þar sem brotið hafi ekki greinst fyrr en við lestur handaskurðlæknis og röntgenlæknis Landspítala á fyrrnefndum myndum 15. október 2019.

Krafa um bótarétt sé byggð á því að kærandi hafi orðið fyrir líkamlegu tjóni vegna rangrar meðhöndlunar á C tímabilið 4. júní 2019 til 15. október sama ár, sbr. 1. tölul. 2. gr. sjúklingatryggingarlaga.

Í hinni kærðu ákvörðun segi að kærandi hafi fengið meðferð sem hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið í samræmi við viðurkennda og gagnreynda læknisfræði með tilliti til þeirra niðurstaðna sem hafi fengist úr rannsóknum D og E. Eftirlitið hafi verið þétt, óskað hafi verið eftir röntgenmyndatöku og segulómskoðun, auk þess sem kærandi hafi fengið tilvísun í sjúkraþjálfun.

Kærandi telji að C hefði í öllu falli átt að framkvæma ítarlegri rannsóknir á myndgreiningunum þar sem hún hafi verið með þrálát einkenni til þess að taka af allan vafa um brotáverka. Kærandi hafi sjálf þurft að biðja um álit bæklunarlæknis sem hafi leitt til þess að brotáverkinn hafi orðið ljós af lestri sömu mynda, sbr. vottorð meðferðarlæknis Landspítala, dags. 14. október 2020. Hefði rannsókn verið hagað eins vel og unnt hefði verið, þ.e. að fá álit bæklunarlæknis fyrr, hefði verið hægt að greina brot hennar fyrr og koma í veg fyrir frekara tjón. 

Sjúkratryggingar Íslands hafi bent á að þar sem D og E séu ekki í eigu hins opinbera og þau beri ábyrgð á lestri úr myndgreiningunum skuli beina kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu vegna tjóns í tengslum við umrædda meðferð til vátryggingafélags viðkomandi meðferðarstaða en ekki Sjúkratrygginga Íslands. Kærandi fallist ekki á þetta þar sem hún hafi leitað til C en ekki D eða E C hafi sent kæranda í röntgen, sbr. samskiptaseðil 4. júní 2019, og hafi stofnunin haft samband við kæranda 6. júní 2019 til þess að upplýsa hana um niðurstöðu röntgenmyndarinnar. Þá komi fram að 2. júlí 2019 hafi kærandi verið svo verkjuð að hún hafi ekki getað beðið lengur eftir segulómun og því hafi tilvísun verið send til E þar sem sjúklegar breytingar hafi ekki greinst. Það hafi verið læknir C sem hafi haft samband við kæranda 9. júlí 2019 og upplýst um niðurstöðu segulómunar og hafi hann útbúið tilvísun til sjúkraþjálfara. Þá hafi það verið sjúkraþjálfari sem hafi ráðlagt kæranda að fá bæklunarlækni til að skoða fyrrnefndar myndir þar sem hann hafi talið verki hennar ekki samræmast niðurstöðum C á myndunum. Vegna þessa hafi læknir C sent tilvísun til bæklunarlæknis 24. júlí 2019, sbr. fyrrnefnt vottorð læknis, dags. 14. október 2020. Kærandi telji þannig ljóst að hún hafi þurft að ýta á eftir allri meðferðinni til að fá ítarlegri rannsóknir á verkjum sínum og meðferðin öll farið fram í gegnum C. Þannig sé ljóst að stofnunin beri ábyrgð á vanmeðferðinni. Kærandi hafi sjálf þurft að biðja um aðstoð bæklunarlæknis.

Lög um sjúklingatryggingu mæli fyrir um víðtæka ábyrgð. Ljóst sé að 2. gr. feli í sér afslátt af kröfum til sönnunar um orsakatengsl, þ.e. ekki séu gerðar jafn ríkar kröfur til tjónþola um slíka sönnun og endranær, enda nægi samkvæmt greininni að sanna að það megi að öllum líkindum rekja tjón til þess að ætla mætti að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræði hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Ljóst sé að hefði fullnægjandi meðferð átt sér stað á C hefði kærandi ekki þurft að glíma við eins slæmar afleiðingar og raun beri vitni, enda hafi ekkert verið hægt að gera fyrir hana þegar brotið hafi greinst vegna tafa á greiningu, sbr. fyrrnefnt læknisvottorð, dags. 14. október 2020. Í vottorðinu segi einnig að haldi verkir áfram að vera vandamál megi íhuga að gera tölvusneiðmynd yfir svæðið eða fjarlægja „pisiforme“ í aðgerð.

Með vísan til framangreinds sem og fyrirliggjandi gagna séu skilyrði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu uppfyllt þannig að kærandi eigi rétt til bóta vegna þess líkamlega tjóns sem hafi leitt af umræddri vanmeðferð. Líkamstjónið megi rekja til þess að ekki hafi verið staðið rétt að læknismeðferð og hún því verið greind of seint með brot á hægri handlegg.


 

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir meðal annars að í hinni kærðu ákvörðun komi fram:

„Við ákvörðun um hvort einstaklingur eigi rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaðferð eða tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þarf að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo skilyrði séu fyrir greiðslu bóta.

Í 11. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000, er fjallað um hverjir eru undanþegnir vátryggingarskyldu, þ.e. heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir sem ríkið á í heild eða að hluta. Í 12. gr. laganna kemur fram að beina skuli kröfu um bætur samkvæmt lögum þessum vegna tjóns hjá öðrum en þeim sem 11. gr. tekur til, til vátryggingafélags hins bótaskylda.

Samkvæmt gögnum málsins var röntgenmynd tekin af handaáverka X 2019. Lesið var úr röntgenmyndinni í D þann 5.6.2019 en þar greindust ekki brot. Það liggur fyrir að C hafði aðeins milligöngu um að senda fyrrnefnda röntgenmynd til D til úrlesturs. 

Þann 2.7.2019 var send beiðni um segulómun af hendi til E. Rannsóknin fór fram þann 4.7.2019 og fór úrlestur hennar jafnframt fram í E. Við þá rannsókn greindust engin áverkamerki. 

Þar sem D og E eru ekki í eigu hins opinbera skal beina kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu vegna tjóns í tengslum við umrædda meðferð til vátryggingafélags viðkomandi meðferðarstaða en ekki Sjúkratrygginga Íslands, sbr. 12. gr. laga um sjúklingatryggingu. Er umsækjanda því bent á að setja sig í samband við D og E og fá upplýsingar um vátryggingafélag viðkomandi meðferðarstöðva og senda umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu til þess vátryggingafélags.

Þar sem framangreindar meðferðarstöðvar eru sjálfstætt starfandi verður meðferð þeirra í tengslum við atburðinn því ekki skoðaðar efnislega.

Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins er það mat SÍ að sú meðferð sem umsækjandi fékk á C og LSH hafi verið hagað eins vel og unnt var og í samræmi við viðurkennda og gagnreynda læknisfræði með tilliti til þeirra niðurstaðna sem fengust úr rannsóknum D og E. Eftirlit var þétt, óskað var eftir röntgenmyndatöku og segulómskoðun auk þess sem umsækjandi fékk tilvísun í sjúkraþjálfun.

Með vísan í framangreint er ljóst að ekkert í gögnum málsins bendir til þess að meðferð hafi ekki verið hagað með fullnægjandi hætti. Með vísan til þessa eru skilyrði 1.–4. tl. 2. gr. laganna ekki uppfyllt.“

Með kæru hafi borist ný gögn sem stofnunin telji þó ekki breyta hinni kærðu ákvörðun. Ítrekað sé að úrlestur röntgenmyndar, sem hafi verið tekin 5. júní 2019, hafi farið fram í D. Þá hafi segulómunin farið fram 2. júlí 2019 og úrlestur hennar farið fram hjá E. Úrlestur gagnanna falli því utan gildissviðs laga um sjúklingatryggingu.

Þar sem D og E séu sjálfstætt starfandi meðferðarstöðvar hafi meðferð þeirra í tengslum við atburðinn ekki verið skoðuð efnislega. Stofnunin taki því ekki afstöðu til þess hvort um vangreiningu hafi verið að ræða hjá þeim. Það sé mat stofnunarinnar að meðferð kæranda á C og Landspítala hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við viðurkennda og gagnreynda læknisfræði með tilliti til þeirra niðurstaðna sem hafi fengist úr rannsóknum D og E.

Í ljósi þess að ekki verði annað séð en að afstaða stofnunarinnar til kæruefnis hafi nú þegar komið fram í hinni kærðu ákvörðun þyki ekki efni til að svara kæru efnislega með frekari hætti.

Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun á bótum á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna tjóns sem kærandi telur að rekja megi til vangreiningar á broti í hægri hendi tímabilið 4. júní til 15. október 2019.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Að mati úrskurðarnefndar eiga sömu sjónarmið við þegar tjón verður rakið til afleiðinga slyss. Afleiðingar, sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss, eru þannig ekki bótaskyldar, en aftur á móti getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings, leiði könnun og mat á málsatvikum í ljós að líklegra sé að tjónið stafi til dæmis af rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Til skoðunar kemur í málinu hvort tilvik kæranda verði fellt undir 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Samkvæmt samskiptaseðli C X 2019 leitaði kærandi til læknis vegna slyss sem átti sér stað deginum áður þar sem hún hafði lyft kari og klemmst á milli tveggja kara. Tekið var fram að hvorki væri um að ræða aflögun né mar. Í beiðni um röntgenmyndatöku til D sama dag kom fram að verkur væri í hægri hönd og úlnlið, eymsli væru yfir „MC“ 5 og „proc styl ulna.“ Í niðurstöðu D, dags. X 2019, segir að brot hafi ekki greinst, en smærri kölkun í „TFC complex inn við triquetrum.“ Næsta dag upplýsti læknir C kæranda símleiðis um að brot hefði ekki greinst. Samkvæmt samskiptaseðli stofnunarinnar 13. júní 2019 leitaði kærandi til læknis þar sem hún var enn mikið verkjuð. Hún lýsti verkjum í hendi sem leiddu upp í úlnlið og olnboga. Fékk hún vottorð vegna óvinnufærni. Í samskiptaseðli 2. júlí 2019 vegna símtals við kæranda segir að hún hafi óskað eftir að komast sem fyrst í segulómskoðun og sama dag var send beiðni um myndgreiningu til E þar sem upplýsingar höfðu fengist um að hún gæti komist þar fljótt að. Einnig átti kærandi að fá beiðni í sjúkraþjálfun. Í úrlestri rannsóknar E, sem gerð var 4. júlí 2019, segir að engin merki séu um brot. Enginn mjúkpartaþroti. Eðlilegar sinar og sinaslíður, eðlileg liðbönd. Niðurstaðan var sú að sjúklegar breytingar greindust ekki. Læknir C upplýsti kæranda um niðurstöðuna símleiðis 9. júlí 2019 og í samskiptaseðli þann dag segir að meðferð verði áfram „conservatív“, sjúkraþjálfun og hvíld. Samkvæmt samskiptaseðli hjúkrunar C 19. júlí 2019 upplýsti kærandi að sjúkraþjálfari hennar hafi ráðlagt að bæklunarskurðlæknir yrði fenginn til að lesa úr myndunum. Læknir stofnunarinnar sendi tilvísun til bæklunarskurðlæknis 24. júlí 2019 þar sem ástandi kæranda var lýst og óskað eftir því að hún yrði kölluð til frekara skrafs og ráðagerða. Röntgen- og segulómmyndirnar voru jafnframt sendar í kerfi Landspítalans. Í vottorði læknis á C, dags. 15. ágúst 2020, segir að þegar heimilislæknir kæranda hafi rætt við hana í október 2019 hafi komið fram að hún hefði farið til bæklunarlæknis á Landspítala sem hafi sagt að það hefði sést beináverki, bæði á röntgen- og segulómmyndum. Í vottorði handa- og bæklunarskurðlæknis, dags. 14. október 2020, segir að röntgenmynd hafi sýnt óreglu við pisiformis og MRI mynd, sem hafi rétt náð yfir pisiformis, hafi sýnt vökvasöfnun í liðnum. Tekið var fram að myndirnar hefðu verið skoðaðar með röntgenlækni. Fram kom að við klemmuna hefði kærandi fengið brot á pisiformis en að ekkert væri hægt að gera við því núna. Kærandi noti höndina eins og vanalega og einkenni ættu að jafna sig á næstu mánuðum.

Í umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu segir meðal annars í lýsingu á tjónsatvikinu að úrlestur úr báðum myndatökunum hafi brugðist. Þá segir í kæru að í öllu falli hefði átt að framkvæma ítarlegri rannsóknir á myndgreiningunum þar sem kærandi hafi verið með þrálát einkenni til þess að taka af allan vafa um brotáverka. Hún hafi sjálf þurft að biðja um álit bæklunarlæknis sem hafi leitt til þess að brotáverkinn hafi komið í ljós af lestri sömu mynda.

Ljóst er af framangreindu að kærandi leitaði ítrekað til C vegna einkenna sinna í kjölfar slyssins. Ekki verður annað ráðið en að brugðist hafi verið við kvörtunum hennar og hún fengið viðunandi meðferð þar sem hún gekkst undir röntgenrannsókn, fékk beiðni í sjúkraþjálfun sem og vottorð um óvinnufærni. Þá var þegar fallist á beiðni hennar um segulómun sem og tilvísun til bæklunarsérfræðings í lok júlí 2019. Tekið skal fram að úrlestur myndrannsókna lá fyrir en fór ekki fram á C en það var ekki fyrr en eftir endurskoðun bæklunarlæknis á myndunum með röntgenlækni sem brotáverkinn varð ljós. Ljóst er að greining á áverkanum með röntgenmynd er vandasöm og er það í samræmi við skoðun úrskurðarnefndar á fyrirliggjandi röntgenmyndum. Úrskurðarnefndin fellst þannig ekki á að sú yfirsjón geti verið á ábyrgð heilbrigðisstarfsfólks C. 

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, gögn málsins ekki sýna annað en að meðferð sú sem kærandi fékk á C hafi verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu á reynslu á viðkomandi sviði. Verður því ekki fallist á að skilyrði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu sé uppfylllt.

Í 11. gr. laga um sjúklingatryggingu segir að heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir sem ríki eigi í heild eða að hluta séu undanþegin vátryggingarskyldu samkvæmt 10. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laga um sjúklingatryggingu segir að kröfu um bætur samkvæmt lögum þessum vegna tjóns hjá öðrum en þeim sem 11. gr. taki til skuli beina til vátryggingafélags hins bótaskylda. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um sjúklingatryggingu segir að bótakröfu vegna tjóns hjá bótaskyldum aðila sem er undanþeginn vátryggingarskyldu skal beina til [Sjúkratrygginga Íslands] en öðrum bótakröfum ber að beina til viðkomandi vátryggingafélaga.

Myndrannsóknir sem og úrlestur þeirra átti sér stað í D og hjá E en fyrir liggur að þær heilbrigðisstofnanir eru ekki undanþegnar vátryggingarskyldu samkvæmt 10. gr. Bótakröfu kæranda á þeirri forsendu að úrlestrinum hafi verið ábótavant ber því að beina til viðeigandi vátryggingafélaga.

Að öllu því virtu, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 2. desember 2021, þar sem kæranda var synjað um bætur á grundvelli laga um sjúklingatryggingu.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum