Hoppa yfir valmynd
3. september 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Innleiðing rafrænna lyfseðla hafin

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hleypti í dag af stokkunum sendingu rafrænna lyfseðla á Selfossi, sem fyrsta áfanga í innleiðingu slíkra sendinga á landsvísu. Þetta var gert með formlegum hætti í heimsókn ráðherra í Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfoss í dag. Áætlað er að rafrænar sendingar lyfseðla verði orðnar að veruleika um allt land um næstu áramót eða á fyrstu mánuðum ársins 2008. Prófanir á þessu kerfi hafa staðið yfir síðan árið 2001 fyrst á Húsavík og síðar á Akureyri og nærsveitum sem tilraunaverkefni á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Læknar og apótek sem hafa tekið þátt í tilrauninni telja mikinn ávinning af þessu fyrirkomulagi. Fyrst og fremst er þó um að ræða aukið öryggi við lyfseðlaútgáfu og bætta þjónustu við viðskiptavinina.

Nýir tímar í samskiptum með heilbrigðisupplýsingar

Í lok ársins 2005 var ákveðið að rafrænir lyfseðlar skyldu teknir í notkun um allt land í samskiptum lækna og apóteka. Ástæða þess að innleiðingin hefst ekki fyrr en nú er fyrst og fremst sú að ákveðið var að útfæra almenna samskiptaleið með heilbrigðisupplýsingar sem kæmi ekki eingöngu að notum fyrir lyfseðla, heldur fyrir samskipti með heilbrigðisupplýsingar almennt. Sú samskiptaleið er nú tilbúin og boðar nýja tíma í samskiptum með heilbrigðisupplýsingar. Með því að tengja saman allar heilbrigðisstofnanir, auk fjölda annarra aðila sem starfa á heilbrigðissviði, opnast miklir möguleikar á rafrænum samskiptum milli þessara aðila sem geta aukið öryggi, bætt þjónustu og stuðlað að hagræðingu í heilbrigðisþjónustunni.

Fyrsti áfangi verkefnisins um rafræna lyfseðla nær yfir sendingar lyfseðla frá flestum heilsugæslustöðvum, heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum landsins. Áætlað er að þessum áfanga ljúki á yfirstandandi ári eða í byrjun næsta árs. Í framhaldi af því verður opnað fyrir sendingar frá öðrum læknum. Heildarfjöldi lyfseðla árið 2004 var tæplega 1.900 þúsund og er markmið verkefnisins að um helmingur allra lyfseðla verði sendur með rafrænum hætti við lok ársins 2007.

Miðlæg gátt fyrir lyfseðla

Fyrir sjúkling sem fer til læknis og fær lyfseðil breytist fyrirkomulagið þannig að í stað þess að fá í hendur pappírslyfseðil er lyfseðillinn sendur í lyfseðlagátt. Sjúklingurinn getur þá farið í hvaða apótek sem er og beðið um að fá lyfseðilinn afgreiddan. Sjúklingurinn getur einnig beðið um að lyfseðillinn sé sendur í ákveðið apótek, sem getur þá haft lyfin tilbúin þegar sjúklingurinn kemur. Lyfseðlagáttin geymir lyfseðla allt þar til þeir eru sóttir. Lyfseðils þarf þó að vitja innan 30 daga frá útgáfu, en eftir það geymast fjölnota lyfseðlar í gáttinni og eru tilbúnir til næstu afgreiðslu á réttum tíma. Að lokinni notkun er lyfseðlunum eytt úr gáttinni, þannig að ekki fer fram söfnun upplýsinga.

Aukið öryggi og bætt þjónusta

Sá ávinningur sem mestu skiptir er aukið öryggi og bætt þjónusta. Öryggi í meðhöndlun lyfseðla eykst með minni hættu á mistúlkun, faxsending lyfseðla mun heyra sögunni til og símalyfseðlum fækkar verulega. Fölsun verður einnig mun erfiðari eða nánast ómöguleg sem er mikið framfaraskref og í takt við almenna þróun þar sem t.d. bankaávísanir hafa nánast horfið á síðustu árum. Þjónusta batnar með því að flæði lyfseðla til apóteka verður jafnara og einnig að fjölnota lyfseðlar týnast ekki, heldur liggja á gáttinni og bíða næstu úttektar. Ennfremur geta rafrænir lyfseðlar opnað möguleika fyrir viðskipti með lyf milli landa þegar fram líða stundir.

Á næstu dögum verður gefin út reglugerð þar sem nánar verður kveðið á um innleiðingu rafrænna lyfseðla á landsvísu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum