Hoppa yfir valmynd
15. desember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 532/2022 Úrskurður

Beiðni kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 15. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 532/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110073

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 510/2021, dags. 21. október 2021, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. júní 2021, um að taka ekki umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Marokkó (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 25. október 2021. Með úrskurði kærunefndar nr. 595/2021, dags. 16. nóvember 2021, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa synjað. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku 22. apríl 2022. Með úrskurði kærunefndar, dags. 9. júní 2022, var beiðni kæranda um endurupptöku synjað. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku að nýju 25. nóvember 2022.

    Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

     

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) skuli flutningur umsækjanda eins og getið sé um í c- eða d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, frá aðildarríki sem leggi fram beiðni, til aðildarríkisins, sem beri ábyrgð, fara fram eins fljótt og við verður komið og í síðasta lagi innan sex mánaða frá því að að annað aðildarríki samþykki beiðni um endurviðtöku, eða lokaákvörðun tekin um kæru eða endurskoðun ef um sé að ræða áhrif til frestunar í samræmi við 3. mgr. 27. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

    Lokaákvörðun í máli kæranda hafi verið tekin með úrskurði kærunefndar 21. október 2021, sem hafi verið birtur 25. október 2021. Hinn 13. desember 2021 hafi umræddur frestur verið framlengdur í 18 mánuði. Frestur samkvæmt 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar hafi því runnið út 24. nóvember 2022.

    Í ljósi framangreinds fer kærandi fram á endurupptöku málsins með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

    Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

    Kærandi byggir á því að skylda Ítalíu til að taka við kæranda sé fallin niður þar sem flutningur hans hafi ekki farið fram innan 6 mánaða frests sem er tilgreindur í 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Af lestri greinargerðar kæranda er því ljóst að kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að atvik hafi breyst verulega frá því að úrskurður í máli hans var kveðinn upp þar sem umræddur frestur leiði til þess að ekki sé lengur heimilt að synja umsókn kæranda um efnismeðferð á grundvelli 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

    Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b-, og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverjum samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

    Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröðun, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Eins og fram kemur í úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 510/2021, í stjórnsýslumáli kæranda nr. KNU21070061, dags. 21. október 2021, kemur fram að ítölsk stjórnvöld samþykktu endurviðtökubeiðni íslenskra stjórnvalda hinn 24. maí 2021, á þeim grundvelli að hann hefði fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi, sbr. d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

    Við rekstur máls sem fer samkvæmt fyrirkomulagi Dyflinnarreglugerðarinnar þurfa stjórnvöld að gæta að tilteknum tímafrestum, sbr. m.a. 1. og 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um fyrirkomulag og fresti. Í því ákvæði felst m.a. að flutningur á umsækjanda skal fara fram innan sex mánaða frá því að lokaákvörðun er tekin um kæru eða endurskoðun. Þó er heimilt í undantekningartilvikum að framlengja frest til flutnings í að hámarki 18 mánuði ef hlutaðeigandi einstaklingur hleypst á brott (e. abscond). Ef umræddir frestir líða leiðir það til þess að ábyrgð á viðkomandi umsókn um alþjóðlega vernd færist sjálfkrafa yfir til þess aðildarríkis sem leggur fram beiðni, sbr. til hliðsjónar dómur Evrópudómstólsins í máli C-201/16 Shiri frá 25. október 2017, 26. - 34. mgr. Ef frestir samkvæmt 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar líða er íslenskum stjórnvöldum því ekki lengur heimilt að krefja viðkomandi ríki um viðtöku einstaklings í skilningi c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar, s.s. úrskurði nefndarinnar nr. KNU19040090 frá 9. maí 2019, að þegar mál hefur verið kært til kærunefndar og réttaráhrifum frestað yrði upphafstími þessa frests miðaður við dagsetningu birtingar úrskurðar kærunefndar.

    Hinn 28. nóvember 2022 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun. Sneri fyrirspurn nefndarinnar að framkvæmd ákvörðunar í máli kæranda og veru kæranda hér á landi frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp 21. október 2021.

    Í svari Útlendingastofnunar, sem barst 29. nóvember 2022, kemur fram að frestur til flutnings kæranda hafi verið framlengdur til 24. nóvember 2022. Stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi flutt kæranda til Rómar 1. september 2022. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi komið aftur hingað til lands, án þess þó að sækja um alþjóðlega vernd, en hafi verið tekinn í flugstöð þar sem hann hafi verið í ólögmætri dvöl á Schengen-svæðinu. Hafi kæranda verið birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann 14. september 2022 og síðar ákvörðun 30. september 2022 sem kærandi hafi neitað að skrifa undir. Kærandi væri nú vistaður í fangelsi hér á landi þar til hægt væri að flytja hann að nýju til Ítalíu. Útlendingastofnun hafi sent nýja endurviðtökubeiðni á ítölsk stjórnvöld 22. september 2022, sem hafi verið samþykkt 23. september 2022.

    Með tölvubréfi 1. desember 2022 var kærandi upplýstur um framangreind atriði og veittur frestur til þess að koma andmælum að. Í svari frá talsmanni kæranda þann sama dag, kom fram að kærandi hygðist ekki leggja fram andmæli.

    Líkt og að framan greinir var upphaflegur sex mánaða frestur til þess að flytja kæranda til viðtökuríkis framlengdur í 18 mánuði 13. desember 2021 og rann frestur til þess að flytja hann út 24. nóvember 2022. Samkvæmt gögnum málsins flutti stoðdeild kæranda til viðtökuríkis 1. september 2022 en kærandi hafi komið aftur til landsins án þess að sækja um alþjóðlega vernd. Þá liggur fyrir að Útlendingastofnun hafi sent nýja endurviðtökubeiðni á ítölsk stjórnvöld sem þau hafi samþykkt 23. september 2022.

    Í ljósi þess að flutningur kæranda fór fram 1. september 2022 liggur fyrir að ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hefur ekki flust yfir á íslensk stjórnvöld. Þá liggur fyrir samþykki ítalskra stjórnvalda um endurviðtöku kæranda. Af þeim sökum er íslenskum stjórnvöldum enn heimilt að krefjast þess að viðtökuríkið taki við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Því fellst kærunefnd ekki á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

     

 

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellants’ request is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                           Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum