Hoppa yfir valmynd
2. október 2012 Dómsmálaráðuneytið

Nordic Built hugmyndafræði nýtt við hönnun fangelsis á Hólmsheiði

Innanríkisráðherra undirritaði í dag Nordic Built sáttmálann ásamt fulltrúum hönnunarteymisins sem vinnur að hönnun nýs fangelsis á Hólmsheiði í Reykjavík. Nordic Built er samvinnuverkefni sem hvetur til þróunar samkeppnishæfra lausna í vistvænni mannvirkjagerð.

Skrifað undir aðild að Nordic Built hugmyndafræði vegna hönnunar fangelsis á Hólmsheiði
Skrifað undir aðild að Nordic Built hugmyndafræði vegna hönnunar fangelsis á Hólmsheiði

Ákveðið hefur verið að nýtt fangelsi á Hólmsheiði verði vottað samkvæmt alþjóðlega umhverfisvottunarkerfinu BEEAM og fellur það því sérstaklega vel að öllum 10 meginreglum Nordic Built sáttmálans. Með þeirri hugmyndafræði er við sköpun á manngerðu umhverfi leitast við að auka lífsgæði, nýta sjálfbærni, staðbundnar auðlindir og byggja á norrænni hönnunarhefð eins og hún gerist best.

Norræna ráðherraráðið fjármagnar verkefnið ásamt Nordic Innovation, sem einnig er í forsvari fyrir framkvæmd þess í samvinnu við Norðurlöndin. Verkefnið miðar að því að Norðurlöndin nái markmiðum sínum um að vera leiðandi í nýsköpun, grænum hagvexti og velferð. Með því að hvetja til samvinnu á milli landa og atvinnugreina er stofnað til nýstárlegs samstarfs sem skila á nýsköpun í byggingariðnaði.

Sáttmálann undirrituðu Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Óskar Valdimarsson, einn af sendiherrum Nordic Built á Íslandi og forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, og fulltrúar hönnunarteymisins, Einar Ragnarsson frá Mannviti, Þorvarður Björgvinsson frá Arkís, Eiríkur K. Þorbjörnsson frá  Verkís og Gunnar Kristjánsson frá VSI – öryggishönnun og ráðgjöf.

Nordic Built verkefnið er eitt af sex svonefndum kyndilverkefnum sem stofnað var til í tengslum við mótun nýrrar stefnu um samvinnu í iðnaðar- og nýsköpunarmálum, með áherslu á grænan vöxt, sem norrænu viðskipta- og iðnaðarráðherrarnir samþykktu í október 2011.

Nordic Built verkefnið verður framkvæmt í þremur tengdum áföngum á tímabilinu 2012-2014. Í fyrsta áfanga verkefnisins hefur áhersla verið lögð á að skilgreina þær sameiginlegu áskoranir og tækifæri sem norræni byggingariðnaðurinn stendur frammi fyrir. Sú vinna leiddi til Nordic Built sáttmálans, Nordic Built Charter, sem er kjarni verkefnisins.

Þá er einnig á það bent að meginreglur Nordic Built sáttmálans falla mjög vel að áherslum íslenskra stjórnvalda um heildstæða atvinnustefnu fyrir Ísland sem byggist meðal annars á grænni atvinnuuppbyggingu í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Skrifað undir aðild að Nordic Built hugmyndafræði vegna hönnunar fangelsis á Hólmsheiði

Á myndinni eru frá vinstri:

Eiríkur K. Þorbjörnsson frá Verkís, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Óskar Valdimarsson, einn sendiherra Nordic Built, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður stýrihóps fangelsisbyggingarinnar, Þorvarður Björgvinsson frá Arkís, Einar Ragnarsson frá Mannviti og Gunnar Kristjánsson frá VSI - öryggishönnun og ráðgjöf.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira