Hoppa yfir valmynd
4. október 2013 Innviðaráðuneytið

Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga námu í fyrra liðlega 32 milljörðum króna

Á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem haldinn var í Reykjavík 2.október kom fram í máli Elínar Pálsdóttur, forstöðumanns sjóðsins, að framlög sjóðsins á síðasta ári til sveitarfélaga og verkefna hafi numið liðlega 32 milljörðum króna og að tekjuafgangur hefði verið 176 milljónir. Árið 2011 námu framlögin 29,5 milljörðum og á þessu ári er gert ráð fyrir að framlögin verði alls rúmlega 34 milljarðar króna.

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn 2. október.
Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn 2. október.

Í upphafi ársfundar flutti Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, ávarp og bar fundarmönnum kveðju Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra sem gat ekki komið því við að sitja fundinn. Hermann fór yfir hugmyndir nefndar um endurskoðun á regluverki sjóðsins og hvernig unnið yrði að breytingum. Sagði hann að bætt hefði verið í lögin um tekjustofna sveitarfélaga skilgreiningu á hlutverki Jöfnunarsjóðs og heimild til að setja reglugerð um að heimilt sé að fella niður framlag úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaga sem hafa heildarskatttekjur af útsvari og fasteignaskatti sem teljist verulega umfram landsmeðaltal. Þá sagði Hermann að stóra verkefnið væri að kanna hvernig koma mætti á einfaldara kerfi og varanlegum umbótum í jöfnunarhlutverki sjóðsins. Sagði hann engar breytingar verða á regluverki sjóðsins á næsta ári en stefnt að því að þær kæmu til framkvæmda árið 2015. Næsta sumar yrði sett fram umræðuskjal um breytingarnar og mótaðar tillögur með haustinu.

Elín Pálsdóttir flutti skýrslu um starfsemi Jöfnunarsjóðs.Elín Pálsdóttir, forstöðumaður Jöfnunarsjóðs, kynnti ársskýrslu sjóðsins. Framlög hans skiptast í fimm flokka:

Bundin framlög eru greidd Sambandi íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtökum sveitarfélaga, Innheimtustofnun sveitarfélaga, umsjónarnefnd eftirlauna og Húsafriðunarsjóði. Alls námu þessu framlög 1.398 milljónum á síðasta ári.

Sérstök framlög eru greidd sveitarfélögum vegna sérstakra aðstæðna í umhverfi eða rekstri þeirra, til dæmis vegna sameiningar sveitarfélaga, til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum, til stofnkostnaðar við vatnsveitur á lögbýlum, til greiðslu húsaleigubóta og fleira. Alls námu þessi framlög á síðasta ári rúmum 6,6 milljörðum króna.

Jöfnunarframlögum er annars vegar úthlutað til að jafna tekjur sveitarfélaga og hins vegar til að jafna útgjöld þeirra. Þau námu alls 6,6 milljörðum á síðasta ári.

Jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla námu í fyrra 7,2 milljörðum króna. Þau eru meðal annars almenn framlög, framlög vegna sérþarfa fatlaðra nemenda, vegna nýbúafræðslu, vegna reksturs skólabúða að Reykjum og vegna íþyngjandi kostnaðar við rekstur grunnskóla og til einstakra verkefna.

Fimmti flokkurinn eru síðan jöfnunarframlög vegna málefna fatlaðs fólks sem voru á síðasta ári 10,4 milljarðar króna.

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn 2. október.

Á ársfundinum fluttu einnig erindi þeir Eiríkur Benónýsson, sérfræðingur hjá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, sem fjallaði um stöðu og horfur í fjármálum sveitarfélaga, og Oddur G. Jónsson, frá KPMG sem ræddi framsetningu sveitarfélaga á fjárhagslegum upplýsingum í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks

Innanríkisráðherra hefur á hendi yfirstjórn Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en honum til ráðuneytis er fimm manna ráðgjafarnefnd. Hana skipa: Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi bæjarstjóri í Fjarðabyggð sem jafnframt er formaður, Bjarni Jónsson, sveitarstjórnarfulltrúi í Sveitarfélaginu Skagafirði, Björk Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, Hermann Jón Tómasson, bæjarfulltrúi í Akureyrarkaupstað og Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður og sveitarstjórnarfulltrúi í Vopnafjarðarhreppi. Árni Rúnar Þorvaldsson, bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Hornafirði, tók að beiðni ráðuneytisins sæti Hermanns Jóns í námsleyfi hans síðasta vetur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum