Hoppa yfir valmynd
19. desember 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 13. - 19. desember

Lyfjakostnaður hefur vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum þótt lyfjaverð hafi ekki hækkað
Lyfjakostnaður hefur aukist um 10-15% á ári síðustu ár. Lyfjaverð hefur hins vegar ekki hækkað og raunar hefur verð eldri lyfja fremur lækað að jafnaði. Þetta kemur fram í upplýsingum skrifstofu lyfjamála heilbrigðisráðuneytisins þar sem vakin er athygli á misskilningi sem oft kemur fram þegar þessu tvennu er ruglað saman. Meðal ástæðna fyrir því að lyfjakostnaður eykst stöðugt er að ný lyf sem fá markaðsleyfi eru oft mjög dýr og veldur vaxandi notkun þeirra hækkun lyfjakostnaðar. Lyfjaverð hér á landi er engu að síður hátt. Veldur því m.a. að Íslendingar eru meðal tekjuhæstu þjóða í heimi en lyfjaframleiðendur verðleggja vöru sína eftir greiðslugetu markaðarins. Í nýrri samantekt NOMESKO um heilbrigðistölfræði er fjallað um lyfjanotkun á Norðurlöndunum og í samanburði kemur fram að lyfjakostnaður á mann er langhæstur hér á landi (árið 2001). Í upplýsingum skrifstofu lyfjamála kemur fram að álagning á lyf er hærri hér á landi en hjá hinum þjóðunum, bæði í heildsölu og smásölu. Loks er bent á að þriðjungur lyfjakostnaðar hér á landi liggur í flokki tauga- og geðlyfja sem Íslendingar nota í meira mæli en nokkur hinna norðurlandaþjóðanna.


Fyrirhugað að tillöguréttur tryggingaráðs um ferðakostnað sjúklinga innanlands verði færður til ráðuneytisins
Fyrsta skrefið í þá átt að breyta umhverfi reglna um ferðakostnað sjúklinga innanlands hefur verið stigið með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem nú liggur fyrir Alþingi. Breytingin lýtur að því að færa tillögurétt tryggingaráðs um ferðakostnað alfarið til ráðuneytis. Þetta kom fram í skriflegu svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi nýlega. Spurt var hvort ráðherra hyggðist beita sér fyrir endurskoðun á reglum um ferðakostnað og vinnutap foreldra með það að markmiði að jafna búsetuskilyrði í landinu. Frumvarpið er nú til umfjöllunar í heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis.
Svar ráðherra...

Breytingar á hlut einstaklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustu taka gildi um áramótin
Þann 1. janúar nk. taka gildi reglugerðir sem hafa í förn með sér breytingar á kostnaðarhlut einstaklinga sem leita til heilsugæslustöðva, á hlut sjúkratryggðra sem leita til sérfræðilækna, og hlutdeild einstaklinga í þjálfunarkostnaði. Samtímis er réttur tekjulágra fjölskyldna sem bera mikinn kostnað vegna læknishjálpar, lyfjakaupa og þjálfunar rýmkaður. Engar breytingar verða á rétti einstaklinga til afsláttargjalds vegna þjónustu lækna eftir að tilteknu hámarksþaki er náð.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
19. desember 2001

Póstur til umsjónarmanns
[email protected]


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum