Hoppa yfir valmynd
19. desember 2003 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Háskóli Íslands og menntamálaráðuneytið undirrita mikilvæga samninga um rannsóknir og kennslu

Föstudaginn 19. desember undirrituðu Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra og Páll Skúlason háskólarektor tvo samninga, annan um rannsóknir og hinn um kennslu, til næstu þriggja ára.

Föstudaginn 19. desember undirrituðu Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra og Páll Skúlason háskólarektor tvo samninga, annan um rannsóknir og hinn um kennslu, til næstu þriggja ára.

Alhliða rannsóknaháskóli í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi

Samningarnir treysta starfsgrundvöll HÍ sem öflugustu menntastofnunar landsins. Markmið samninganna er að tryggja gæði rannsókna, náms og prógráða þannig að þau samsvari þeim gildum og viðmiðum sem viðtekin eru í Evrópu.

Starfsemi Háskóla Íslands hefur á síðustu árum einkennst af sívaxandi krafti í rannsóknum og markvissri uppbyggingu meistara- og doktorsnáms á flestum fræðasviðum. Samhliða þessu hefur HÍ komið sér upp öflugu hvatakerfi fyrir rannsóknir kennara og sérfræðinga, auk þess sem rannsóknir og kennsla lúta ströngu gæðamati.

Samningarnir eru umgjörð um þessar megináherslur í starfsemi og þróun HÍ, styrkingu fjölbreytts grunnnáms, enn frekari eflingu rannsóknastarfs og nauðsynlega uppbyggingu meistara- og doktorsnáms. Í þeim felst mikilvæg viðurkenning á hlutverki HÍ sem rannsóknaháskóla sem starfar í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.

Helstu atriði rannsóknasamningsins:

Samkvæmt samningnum ber HÍ á samningstímabilinu m.a. að

· auka rannsóknavirkni kennara og sérfræðinga,

· hvetja einstaklinga og rannsóknahópa til að keppa um innlenda og erlenda styrki úr samkeppnissjóðum og byggja þannig upp fjölbreyttar háskólarannsóknir, og jafnframt efla sókn vísindamanna í sjóði sem HÍ hefur aðgang að,

· vinna að auknum sveigjanleika milli kennslu- og rannsóknaskyldu starfsmanna,

· beita sér fyrir auknu samstarfi við aðra háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki um rannsóknir og rannsóknanám, m.a. með þátttöku þessara aðila í meistara- og doktorsnámi.

Skyldur menntamálaráðuneytisins skv. samningnum eru m.a. að

· vinna að breytingum á fjármögnun rannsókna í háskólum í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar sem birtast í nýrri stefnu Vísinda- og tækniráðs. Breytingarnar gera ráð fyrir að aukin áhersla verði lögð á fjármögnun rannsókna í háskólum í gegnum samkeppnissjóði,

· beita sér fyrir breytingum á skilyrðum styrkveitinga úr innlendum samkeppnissjóðum með því að tengja betur saman atvinnulíf og opinberar rannsóknastofnanir, þannig að fjárveitingar nýtist betur og auki samstarf þessara aðila,

· veita vísindasamfélaginu aðgang að erlendum vísinda- og tækniþróunarsjóðum,

· beita sér fyrir því að HÍ verði tryggt ákveðið grunnframlag til að fjármagna rannsóknir og innra þróunarstarf skólans en að öðru leyti taki hann þátt í samkeppni um rannsóknafé. Þannig er miðað við að aukin framlög til samkeppnissjóða skapi HÍ ný sóknarfæri, um leið og honum er veitt það aðhald sem í samkeppninni felst,

· styrkja innviði HÍ með áframhaldandi uppbyggingu rannsóknatækja, húsnæðis og almennri aðstöðu til rannsókna. Hugað verður sérstaklega að aðstöðu tilraunavísinda og verkgreina,

· ráðuneytið mun á samningstímanum gefa út reglur um eftirlit með gæðum rannsókna og nýtingu þeirra fjármuna sem til rannsókna fara, auk þess sem það mun beita sér fyrir ytri úttektum á rannsóknastarfsemi í samvinnu við HÍ.

Helstu atriði kennslusamningsins:

· Áætlanagerð HÍ til fimm ára í senn um starfsemi sína og rekstur, sem tekið verður mið af við gerð tillagna um fjárveitingar til skólans,

· áframhaldandi þróun gæðakerfis HÍ, sem byggir á alþjóðlega viðurkenndum viðmiðunum,

· setning reglna um inntökuskilyrði í HÍ og aðstoð við menntamálayfirvöld við þróun samræmdra prófa á framhaldsskólastigi,

· virk þátttaka HÍ í alþjóðlegu samstarfi,

· frumkvæði HÍ að auknu samráði og samstarfi við aðra innlenda skóla á háskólastigi,

· bætt aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins að menntun, m.a. með starfsemi landsbyggðasetra HÍ og samstarfi við símenntunarmiðstöðvar,

· nýting upplýsinga- og fjarskiptatækni í því augnamiði að bæta kennslu og þjónustu og skapa ný menntunartækifæri.

Reykjavík, 19.desember 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum