Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Staðreyndir um heilbrigðisstofnanir og fjárveitingar síðustu ára

Framlög ríkisins til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins jukust um 24% á árabilinu 2017 – 2020. Aukningin til Landspítala nam um 12% á sama tímabili, 8% til Sjúkrahússins á Akureyri og 10% að meðaltali til heilbrigðisstofnananna sex sem starfa um allt land. Staðhæfingar sem fram hafa komið í opinberum umræðum, meðal annars um stórfelldan niðurskurð á Landspítala og heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, eiga ekki við rök að styðjast.

Heilsugæslan hefur verið efld til muna með áherslu á hlutverk hennar sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu. Í þeim efnum er Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins einnig mikilvæg á landsvísu og taka auknar fjárveitingar mið af því. Innan hennar vébanda starfar Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Þroska- og hegðunarstöðin og nýstofnað geðheilsuteymi fanga fyrir landið allt.

Rúmir 5,6 milljarðar króna í aukin framlög til Landspítala

Í meðfylgjandi töflu má sjá hvernig framlög ríkisins til sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana og heilsugæslu hafa verið aukin umtalsvert á síðustu árum. Aukin framlög sýna glöggt hvernig heilbrigðisþjónustan hefur markvisst verið efld í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, m.a. með eflingu heilsugæslunnar. Heilbrigðisstofnanir um allt land hafa verið styrktar með áherslu á að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Sama máli gegnir með Sjúkrahúsið á Akureyri sem jafnframt sinnir í vaxandi mæli því hlutverki að vera bakhjarl heilbrigðisstofnana þegar á þarf að halda til að bæta aðgengi fólks að þjónustu sérgreinalækna. Það er því rangt sem haldið hefur verið fram að dregið hafi verið úr hlutverki heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, þvert á móti hafa þær stofnanir verið efldar til að gegna betur hlutverki sínu við íbúa í heimabyggð.

Aukin framlög til Landspítalans um 12% nema í krónum talið rúmum 5,6 milljörðum króna. Tekið skal fram að í meðfylgjandi tölum um aukin framlög eru launa- og verðlagsbætur undanskildar. Byggingaframkvæmdir eru einnig undanskildar, þannig að framlög vegna uppbyggingar nýs Landspítala eru ekki meðtalin. Hér er því um að ræða aukin framlög til heilbrigðisþjónustu og reksturs hennar.

Eins og fram kom í máli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld eru margir þættir til þess fallnir að styrkja og bæta stöðu Landspítalans aðrir en að auka framlög til sjúkrahússins. Þar nefndi hann sérstaklega áhrifin af því að efla heilsugæsluna, hjúkrunarþjónustu og aðra heilbrigðisþjónustu út um landið, því um eina heild sé að ræða. Heilbrigðisráðuneytið birti nýverið samantekt með upplýsingum um það helsta sem gert hefur verið af hálfu heilbrigðisyfirvalda að undanförnu í þessum efnum.

Breyting á ríkisframlagi milli áranna 2017 og 2020 samkvæmt fjárlögum

...að launa- og verðlagsbreytingum undanskildum

Stofnun

m.kr.

%

Landspítali

5.648

12%

Sjúkrahúsið á Akureyri

560

8%

Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni

2.194

10%

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu

2.288

24%

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum