Hoppa yfir valmynd
17. desember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 428/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. desember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 428/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20110001

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 2. nóvember 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Gambíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. október 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 1. júlí 2019. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 28/2020, dags. 29. janúar 2020, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. september 2019, um að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 3. febrúar 2020. Þann 4. maí 2020 leiðbeindi kærunefnd kæranda, með vísan til þeirrar stöðu sem uppi sé vegna Covid-19 faraldursins, að óska eftir endurupptöku máls hans hjá nefndinni. Þann 7. maí 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku máls hans. Með úrskurði kærunefndar, dags. 20. maí 2020, var fallist á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans og ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi. Lagt var fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 19. ágúst 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 14. október 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 2. nóvember 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 16. nóvember 2020. Þá bárust kærunefnd athugasemdir kæranda 23. nóvember 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til frásagnar hans í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 19. ágúst 2020. Þar hafi kærandi greint frá því að hann sé fæddur og uppalinn í þorpinu [...] í Gambíu, tilheyri Mandinka þjóðflokknum og sé múslimi. Kærandi hafi búið einsamall ásamt móður sinni en faðir hans hafi látist um það leyti sem hann hafi fæðst og systur hans þrjár hafi jafnframt látist fyrir fæðingu hans. Vegna þess hafi þorpsbúar álitið kæranda og móður hans fjölkunnug (e. wizard). Kærandi hafi verið sendur af móður sinni að vinna við slátt á bújörð og hafi kærandi kveikt í grasinu sem hann hafði safnað saman. Kærandi hafi reynt að stöðva eldinn en eldurinn hafði dreift sér og kviknað hafi í fleiri landareignum í kring. Kærandi hafi orðið svo óttasleginn að hann hafi hlaupist á brott af ótta við að vera barinn til dauða af eigendum jarðanna. Móðir kæranda hafi gefið honum pening og ráðlagt honum að flýja land. Kærandi hafi flúið til Casamance í Senegal þar sem hann hafi spilað fótbolta og þjálfari hans þar hafi gefið honum pening til að fara til Líbíu og þaðan yfir til Ítalíu. Þá hafi kærandi greint frá því að nokkrar fjölskyldur frá heimabæ hans væru á eftir honum og að lögreglan væri að leita hans.

Kærandi hafi margsinnis orðið fyrir ofbeldi í heimaríki og hafi þau mæðgin verið útilokuð frá samfélaginu og orðið fyrir stöðugu áreiti, m.a. hafi steinum verið kastað í þau og kærandi orðið fyrir árás þar sem hníf hafi verið kastað í kálfann á honum. Kærandi hafi ekki getað leitað til lögreglu eftir aðstoð því næsta lögreglustöð væri í fjarlægri borg. Ef vandamál kæmu upp í þorpinu væri leitað til þorpshöfðingja sem leysti úr deilum án aðkomu lögregluyfirvalda. Ennfremur kvaðst kærandi aldrei hafa séð lögreglu og ekki vita hvernig hann ætti að nálgast hana. Þá hafi móðir kæranda látist í heimaríki og teldi kærandi að ef honum yrði gert að snúa aftur til heimaríkis myndu þorpsbúar berja hann til dauða.

Um almennt ástand mannréttindamála í Gambíu vísar kærandi til umfjöllunar í greinargerð hans til Útlendingastofnunar, dags. 2. september 2020. Þar er vísað til skýrslna alþjóðlegra stofnana og félagssamtaka og m.a. fjallað um breytingar á stjórnarfari Gambíu síðastliðin ár eftir einræðistíð Yaha Jammeh. Með nýjum forseta hafi ýmsar jákvæðar breytingar átt sér stað varðandi framfylgni á mannréttindum og réttarfari en þó sé enn langt í land. Núverandi forseti hafi verið gagnrýndur fyrir hægfara framfarir og svipuð valdníðsla sé enn við lýði líkt og hjá forvera hans. Ríkisútgjöld fari að mestu leyti í öryggis- og varnarmál á meðan fjárveitingar til heilbrigðis- og menntastofnana séu látnar mæta afgangi. Þá vísar kærandi til þeirra áhrifa sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á landið. Heilbrigðiskerfið sé talið illa í stakk búið til að takast á við faraldurinn og erfiðlega hafi gengið að koma í veg fyrir útbreiðslu smita.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun í greinargerð sinni til kærunefndar, m.a. við trúverðugleikamat stofnunarinnar. Kærandi gerir athugasemd við það mat stofnunarinnar að stjórnvöld í Gambíu ofsæki ekki þá sem grunaðir séu um fjölkynngi með vísan til umbóta sem hafi átt sér stað í valdatíð núverandi forseta. Kærandi telur með vísan til umfjöllunar í greinargerð hans til Útlendingastofnunar um fjölkynngi að ótti hans sé ástæðuríkur. Þá gerir kærandi athugasemd við staðhæfingu Útlendingastofnunar um að kærandi kunni að hafa gerst brotlegur við þarlend hegningarlög og brotið kunni að varða fangelsisrefsingu en vegna valdaskipta í landinu hafi orðið miklar umbætur í fangelsum landsins. Kærandi leggur í því sambandi áherslu á þá staðreynd að kærandi hafi verið barn þegar hann hafi valdið brunanum í heimaríki. Heimildir beri með sér að gambísk yfirvöld hafi mátt sæta alvarlegri gagnrýni af alþjóðasamfélaginu vegna fjölda gæsluvarðhalda á börnum allt niður í 15 ára og fyrir lífshættulegar aðstæður í fangelsum. Kærandi áréttar að ótti hans byggist á því að hann verði ofsóttur í heimaríki, muni ekki fá réttláta málsmeðferð og muni verða fyrir ómannúðlegri meðferð verði honum gert að fara aftur til Gambíu.

Vegna krafna kæranda um alþjóðlega vernd vísar kærandi til greinargerðar hans til Útlendingastofnunar. Þar kemur fram að kærandi krefjist þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sem megi rekja til aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi þar sem hann og móðir hans hafi verið álitin fjölkunnug af þorpsbúum í Gambíu, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi orðið fyrir alvarlegu ofbeldi, áreiti og útskúfun samfélagsins af þeim sökum.

Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af umfjöllun um aðalkröfu kæranda sé ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. málsl. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingu eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki sínu.

Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, vegna viðkvæmrar stöðu og erfiðra aðstæðna hans í heimaríki. Kærandi vísar til eiðsvarinnar yfirlýsingar starfsmanns félagsþjónustu í Banjul í Gambíu, dags. 10. september 2019. Þar segi að kærandi hafi verið algjörlega einangraður og móðir hans verið álitin norn af bæjarbúum og samskipti við slíka fjölskyldu sé talin leggja bölvun á fólk. Bæjarbúar hafi talið fjölskylduna haldna illum öndum. Kærandi hafi í kjölfar þessa glímt við andleg veikindi. Þá sé fjallað um umræddan bruna í yfirlýsingunni og afleiðingar hans fyrir kæranda. Í dag sé enn verið að leita að kæranda og sé óöruggt fyrir hann að vera staðsettur þar í landi. Þá vísi kærandi til þess að í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi hann greint frá höfuðverk og að andleg heilsa hans sé bágborin. Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna komi fram að kærandi hafi sögu um stoðkerfis- og höfuðverki tengda álagi og streitu. Þá hafi kærandi í nokkur skipti hitt sálfræðing ásamt því að hafa verið sendur á bráðamóttöku geðdeildar í kjölfar þess að hann hafi skorið sig. Þá hafi kærandi verið greindur með kvíða og þunglyndi. Loks vísi kærandi til þeirra áhrifa sem Covid-19 hefur haft á stöðu kæranda í heimaríki sínu. Með hliðsjón af framangreindu telur kærandi að hann uppfylli skilyrði dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í hinni kærðu ákvörðun var frásögn kæranda, um að hann væri álitinn fjölkunnugur í heimaríki og að hann hafi orðið þess valdur að eldur breiddist út svo að tjón hafi orðið á bújörðum og landareignum í heimaríki, lögð til grundvallar við úrlausn málsins m.a. með vísan til þess að frásögnin hafi verið stöðug og án misræmis. Þá vísaði stofnunin til þess í ákvörðun sinni að kærandi kynni að hafa framið brot í heimaríki sem varði fangelsisrefsingu og fjallaði stuttlega um stöðu fangelsismála í landinu. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að kærandi hefði ekki gert það sennilegt að hann eigi á hættu að sæta ofsóknum af hálfu stjórnvalda í heimaríki sínu og að hann eigi þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda verði hann fyrir áreiti, hótunum eða ofbeldi þar í landi.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Þá mælir 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga fyrir um að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann beri fyrir sig. Líkt og áður greinir var í ákvörðun Útlendingastofnunar frásögn kæranda af þeim atburðum sem hann bar fyrir sig lögð til grundvallar. Þá var lagt til grundvallar að kærandi kynni að eiga yfir höfði sér fangelsisrefsingu í heimaríki. Það er mat kærunefndar að aðstæður sem bíði kæranda í heimaríki, eigi hann yfir höfði sér fangelsisrefsingu þar í landi, hafi ekki verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti, einkum hvað varðar þá málsmeðferð sem kærandi kann að hljóta þar og hvort hann eigi á hættu að sæta refsingu sem er óhófleg eða mismuni honum á ómálefnalegum grundvelli. Þá hafi núverandi aðstæður í fangelsisstofnunum landsins ekki verið rannsakaðar fyllilega en samkvæmt gögnum um heimaríki kæranda, m.a. skýrslum utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna undanfarin ár og skýrslu EASO frá árinu 2017, er ljóst að helstu vandamál á sviði mannréttinda þar í landi séu mögulega lífshættuleg skilyrði og slæmur aðbúnaður fanga í fangelsisstofnunum þess þrátt fyrir að umbætur hafi orðið í kjölfar stjórnarskipta í landinu.

Við meðferð málsins lagði kærandi fram ljósrit af eiðsvarinni yfirlýsingu starfsmanns félagsþjónustu í borginni Banjul í heimaríki kæranda, dags. 10. september 2019, til stuðnings frásögn sinni. Í hinu framlagða skjali kemur t. a. m. fram að öryggisfulltrúar, lögreglan og landeigendur leiti að kæranda í landinu öllu vegna tengsla kæranda við eldsvoðann. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að skjalið hafi ekki verið lagt til grundvallar við úrlausn málsins þar sem um ljósrit sé að ræða og því hafi ekki verið hægt að ganga úr skugga um áreiðanleika og uppruna skjalsins. Þann 25. nóvember 2020 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum hjá kæranda um hvort hann hefði frumrit af umræddu gagni undir höndum. Í svörum kæranda, dags. 1. desember 2020, kvaðst kærandi geta aflað frumritsins og hefur hann lagt frumrit þess fram hjá kærunefnd. Þrátt fyrir að frásögn kæranda hafi verið metin trúverðug og hún lögð til grundvallar við úrlausn málsins er það mat kærunefndar að það hefði verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að kanna hvort kærandi hefði undir höndum eða gæti aflað frumrits umræddrar yfirlýsingar til að kanna áreiðanleika skjalsins og þar með hvort unnt væri að leggja skjalið til grundvallar í málinu.

Í tengslum við kröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða rakti stofnunin þau heilsufarsgögn sem kærandi lagði fram við meðferð málsins og taldi kvilla og veikindi kæranda ekki ná því alvarleikastigi að kærandi hafi ríka þörf fyrir vernd á grundvelli heilbrigðisástæðna. Í gögnum frá bráðamóttöku Landspítalans, dags. 3. október 2019, sem kærandi hefur lagt fram við meðferð máls hans, kemur fram að kærandi hafi verið sendur á bráðamóttöku Landspítalans eftir að hafa skorið sig á handlegg. Kemur fram að kærandi hafi sagst heyra raddir, sjá sýnir og verið með sjálfsvíghugsanir til lengri tíma. Í viðtali hjá sálfræðingi viku síðar, dags. 9. október 2019, hafi kærandi hitt sálfræðing og greint m.a. frá því að hann hafi heyrt rödd móður sinnar segja honum að fremja sjálfsvíg. Ekki liggja fyrir nýrri heilsufarsgögn í málinu. Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að kærandi er ungur að árum og þá bera fyrirliggjandi gögn með sér að hann glími við andlega erfiðleika. Þá ber framburður kæranda með sér að foreldrar hans og systkini í heimaríki séu látin og kvaðst kærandi ekki eiga neina aðra fjölskyldumeðlimi þar í landi. Liggur því fyrir að kærandi hafi takmarkað stuðningsnet. Með hliðsjón af stöðu kæranda, þ. á m. í ljósi gagna um heilsufar hans og þess að Útlendingastofnun hafi lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi kunni að hljóta fangelsisrefsingu í heimaríki, telur kærunefnd að stofnuninni hafi borið að ganga úr skugga um hvort að nýlegri heilsufarsgögn yrðu lögð fram við meðferð máls hans og meta hvort þörf hefði verið á að kærandi undirgengist sjálfræðimat, til að varpa ljósi á andlegt heilsufar hans, áður en stofnunin tók ákvörðun í máli hans.

Er það mat kærunefndar að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. laga um útlendinga.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda þar sem ekki hafi farið fram viðhlítandi rannsókn í tengslum við kröfu hans um alþjóðlega vernd, sem ekki sé unnt að bæta úr með frekari rannsókn æðra stjórnvalds. Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

Með vísan til þess sem framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                  Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum