Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Neysluviðmið verða kynnt innan skamms

Vinnu sérfræðinga við gerð neysluviðmiða fyrir íslensk heimili lýkur á næstunni og verða niðurstöður þeirra kynntar 7. febrúar.

Í júlí 2010 gerði félags- og tryggingamálaráðuneytið samning við Rannsóknaþjónustu Háskólans í Reykjavík um þróun neysluviðmiða fyrir helstu gerðir íslenskra heimila á grundvelli niðurstöðu nefndar um kosti og galla neysluviðmiðs frá árinu 2006. Í samningnum var kveðið á um verklok 15. desember 2010. Til samræmis við samninginn var settur á fót óformlegur stýrihópur til að taka þátt í mótun starfsins. Í hópnum eiga sæti fulltrúar ráðuneytisins, fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Umboðsmanns skuldara og Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.  

Við framvindu verkefnisins varð ljóst að samhliða því að reikna út dæmigerð neysluviðmið sem eru lýsandi fyrir neyslu íslenskra fjölskyldna þyrfti að þróa grunnneysluviðmið sem fela í sér mat á því hvað fjölskyldur þurfa sér til framfærslu. Ákveðið var að ráðast í þessa vinnu og birta þessi viðmið samtímis.

Þar sem töluvert hefur verið fjallað um setningu neysluviðmiða í fjölmiðlum að undanförnu og ræddar mögulegar ástæður þess að áformuð kynning hafi dregist, bendir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra á að verkið hafi einfaldlega verið viðameira og tímafrekara en áætlað var. Mikilvægt sé að vanda til verksins og sömuleiðis til kynningar á niðurstöðunum. „Málið krefst kynningar og umræðu áður en kemur að frekari ákvarðanatöku og því verður það sett í formlegt kynningarferli um leið og sérfræðingarnir ljúka verki sínu og skýrsla þeirra liggur fyrir.“

Guðbjartur segir mikilvægt að fólk geri sér raunhæfar væntingar um setningu viðmiðanna. „Það er ekki svo að viðmiðin verði birt og að þar með verði bætur og lágmarkslaun hækkuð samtímis sem nemur viðmiðunum. Því miður er það ekki raunhæft og það verður að vera öllum ljóst. Ég lít hins vegar á setningu viðmiðanna sem mikilvægt tæki til að ná sátt um það hvernig við nálgumst ákvarðanir um lágmarksbætur í velferðarkerfinu og launa við gerð kjarasamninga í framtíðinni. Þessar forsendur hefur skort hingað til og löngu tímabært að birta viðmið af þessu tagi.“

Ákveðið hefur verið að opna vefsvæði til að kynna viðmiðin og þar verður skýrsla sérfræðinganna birt. Á vefsvæðinu verður aðgengileg reiknivél þar sem fólki gefst kostur á að skoða stöðu sína miðað við dæmigerð neysluviðmið annars vegar og grunnneysluviðmið hins vegar. Vefsvæðið verður opnað 7. febrúar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum