Hoppa yfir valmynd
4. júní 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 174/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 174/2021

Föstudaginn 4. júní 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. apríl 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. mars 2021, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 2. september 2020 og var umsókn hans samþykkt 24. september 2020. Í janúar 2021 skráði kærandi sig á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Þann 13. janúar 2021 var kæranda tilkynnt að námskeiðið yrði haldið á tímabilinu 20. janúar til 10. febrúar 2021 og tekið fram að um skyldumætingu væri að ræða. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. mars 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á ástæðum þess að hann hefði hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði. Í bréfinu vakti stofnunin athygli á því að samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar geti þeir sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, án gildra ástæðna, þurft að sæta biðtíma á grundvelli laganna. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. mars 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. apríl 2021. Með bréfi, dags. 8. apríl 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 5. maí 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. maí 2021, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi í janúar 2021 skráð sig sjálfviljugur á fjarnámskeið í boði Vinnumálastofnunar sem auglýst hafi verið á vef stofnunarinnar. Námskeiðið hafi verið kennt í fjarkennslu í fjögur skipti á tímabilinu 20. janúar til 10. febrúar 2021. Áður en námskeiðið hafi byrjað hafi kærandi haft takmarkaðar upplýsingar um innihald þess en aðeins hafi verið stutt lýsing á námskeiðinu á vef Vinnumálastofnunar. Þátttakendur námskeiðsins hafi verið um 20 til 30 manns, auk leiðbeinanda, og hafi það verið haldið á Microsoft Teams. Eftir að hafa setið fyrsta tímann, sem hafi staðið í um tvo til þrjá tíma, hafi kærandi ákveðið að mæta ekki aftur á námskeiðið vegna eftirfarandi ástæðna.

Í fyrsta lagi slök gæði og framkvæmd námskeiðsins. Kærandi hafi oft tekið þátt í fjarkennslu og fengið þjálfun í undirbúningi fjarkennslunámskeiða. Umrætt námskeið hafi ekki verið aðlagað að slíku fyrirkomulagi. Leiðbeinandi námskeiðsins hafi byrjað fyrsta tímann á því að spyrja hvern og einn þátttakanda hvort hann væri mættur sem hafi verið óþarfa tímaeyðsla. Skráning mætingar og kynningar þátttakenda hafi tekið um 30 mínútur áður en hægt hafi verið að hefja námskeiðið. Leiðbeinandi hafi þá lesið upp glærur námskeiðsins, án þess að veita frekari upplýsingar eða gera námskeiðið áhugavert að nokkru leyti fyrir þátttakendur.

Í öðru lagi hafi ekkert kapp verið lagt í námskeiðið. Þegar 45 mínútur hafi verið liðnar af tímanum hafi verið brotist inn í tölvukerfið með þeim afleiðingum að persónulegar upplýsingar þátttakenda hafi verið birtar, án frekari skýringa.

Í þriðja lagi hafi kæranda þótt erfitt að skilja inntak kennslunnar. Leiðbeinandinn hafi augljóslega verið vel menntuð og fróð á sínu sviði en erfitt hafi verið að fylgja kennslunni.

Kærandi hafi skráð sig á umrætt námskeið sjálfviljugur og hann sé virkilega þakklátur fyrir að Vinnumálastofnun bjóði upp á stuðning við atvinnuleitendur í formi námskeiða. Að mati kæranda hafi umrætt námskeið þó ekki verið prófað með tilliti til gæða og gagnsemi. Námskeiðið hafi ekki bætt stöðu atvinnulausra og hvetji kærandi úrskurðarnefnd til þess að skoða upptökur námskeiðsins, séu þær til, til að staðfesta kvartanir kæranda.

Kærandi telji virkilega ósanngjarnt að honum sé refsað í þessu máli þannig að hann missi greiðslur atvinnuleysisbóta í tvo mánuði. Þótt kærandi sé atvinnulaus hafi hann ekki tíma fyrir yfirborðskennd námskeið sem bæti ekki stöðu hans.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi mætt á eitt skipti af fjórum á umrætt fjarnámskeið og hafi hann því aðeins uppfyllt 25% mætingarskyldu. Með erindi, dags. 9. mars 2021, hafi verið óskað eftir frekari afstöðu kæranda til málsins og ástæðum þess að hann hafi ekki mætt á boðað vinnumarkaðsúrræði. Svar kæranda hafi borist þann 22. mars 2021. Þar komi meðal annars fram að kærandi hafi verið ósáttur við kennsluaðferðir í fyrsta tímanum og talið námskeiðið skorta gæði. Með erindi, dags. 31. mars 2021, hafi kæranda verið birt ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt [h-lið] 1. mgr. 14. gr. laganna felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði nr. 55/2006 komi einnig fram skylda þess sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á.

Það liggi fyrir að kærandi hafi skráð sig á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Kæranda hafi verið gerð grein fyrir því að skyldumæting væri á námskeiðið en hann hafi einungis mætt í eitt skipti af fjórum.

Í kæru til úrskurðarnefndar komi meðal annars fram að kærandi hafi ekki mætt á umrætt námskeið sökum þess að gæði námskeiðsins hafi ekki verið góð og kærandi hafi verið ósáttur með kennsluna og frammistöðu kennarans. Að mati Vinnumálastofnunar séu ástæður sem fram komi í kæru til úrskurðarnefndarinnar og í skýringarbréfum frá kæranda til stofnunarinnar ekki gildar í skilningi laga nr. 54/2006. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laganna. Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda og að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim, sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt gögnum málsins skráði kærandi sig á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar á tímabilinu 20. janúar til 10. febrúar 2021. Í tölvupósti frá Vinnumálastofnun, dags. 13. janúar 2021, var kæranda greint frá því að um skyldumætingu væri að ræða. Kærandi mætti í eitt af fjórum skiptum á framangreint námskeið. Kærandi hefur borið því við að skipulagi og gæðum námskeiðsins hafi verið ábótavant.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram viðunandi skýringar sem réttlæta að hann hafi ekki mætt á vinnumarkaðsúrræðið sem honum var gert að sækja. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið er fortakslaust og því er ekki heimilt að beita vægari úrræðum en þar er kveðið á um. Að því virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. mars 2021, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum