Hoppa yfir valmynd
22. september 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 455/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 455/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21080008

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Þann 7. janúar 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. október 2020, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Grikklands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 11. janúar 2021. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 18. janúar 2021. Beiðninni var synjað af kærunefnd þann 5. febrúar 2021. Þann 20. maí 2021 kærði kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar um niðurfellingu á þjónustu til hans. Þann 15. júní 2021 var sú ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi.

Þann 5. ágúst 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Dagana 12. og 17. ágúst 2021 bárust upplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun um málsmeðferð í máli kæranda. Þá bárust frekari upplýsingar frá stoðdeild hinn 31. ágúst 2021. Athugasemdir og gögn bárust frá lögmanni kæranda þann 20. ágúst 2021.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að hann hafi komið fyrst til landsins þann 6. júlí 2020 og hafi því verið í meira en 12 mánuði á landinu. Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á því að þar sem 12 mánuðir séu nú liðnir frá umsókn hans og tafir á meðferð málsins séu ekki á hans ábyrgð skuli taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærandi vísar til úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU17090040 frá 27. október 2017 til stuðnings kröfu sinni. Með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga krefjist kærandi þess að kærunefnd endurupptaki mál hans, felli ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og geri stofnuninni að taka umsókn hans til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 20. ágúst 2021, kemur fram að kærandi telji að sýnataka vegna Covid-19 sé læknisrannsókn og áréttar að hver og einn einstaklingur geti afþakkað slíka læknisrannsókn. Þá þurfi ávallt að vera möguleiki á að komast hjá slíkum prófunum með sóttkví eða öðrum leiðum. Kærandi vísar til þess að hann beri ekki ábyrgð á þágildandi reglum stjórnvalda sem gerðu kröfu um skimunarvottorð sem hafi verið forsenda þess að ferðast erlendis. Ekki sé hægt að leggja að jöfnu að afþakka ónauðsynlega læknisrannsókn og að tefja mál með vísvitandi hætti. Að mati kæranda standist það ekki nánari skoðun eða meðalhóf að neita honum um endurupptöku á máli sínu vegna þess að hann afþakkaði ónauðsynlega læknisrannsókn. Þá vísar kærandi til þess að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að nauðsynlegt væri að mæta í tíu skipti að tilkynna sig en hann hafi mætt sex sinnum. Kærandi vísar til þess að hann eigi við margvísleg vandamál að stríða, bæði líkamlega og andlega. Af þeim sökum eigi hann ef til vill erfitt með að skilja fyrirmæli stjórnvalda hvað þetta varðar. Ennfremur gæti komið til skoðunar hvort að fyrirmæli stjórnvalda hafi verið nægilega skýr.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum sé þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar séu í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 6. júlí 2020 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti þann 6. júlí 2021. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra, dags. 17. ágúst 2021, varðandi fyrirspurn um tafir á málsmeðferð og flutningi kæranda kemur fram að þann 15. mars 2021 hafi verið haft samband við kæranda símleiðis með aðstoð túlks og hann spurður hvort hann vildi fara til Grikklands. Hann hafi greint frá því að hann vildi ekki fara sjálfur til Grikklands. Þann 31. mars 2021 hafi aftur verið haft samband við kæranda og hann hafi sagt að hann vildi fara til Grikklands og honum tjáð að farið yrði í að ganga frá farmiðum fyrir hann. Þann 6. apríl 2021 hafi verið haft samband við kæranda símleiðis og hafi kærandi sagst vera í skóla að læra íslensku og að hann myndi hafa samband við lögmann sinn og hafa samband við lögreglu þann 7. apríl 2021. Kærandi hafi hringt þann 8. apríl 2021 og greint frá því að hann ætli ekki að fara til Grikklands og að hann sé með mál sitt til meðferðar fyrir íslenskum dómstólum. Þann 27. apríl hafi verið haft samband við hann símleiðis en hann ekki svarað. Þann 28. apríl hafi verið farið til hans og hann spurður að nýju hvort hann vildi fara til Grikklands. Kærandi hafi sagt að hann ætli að fara með mál sitt fyrir íslenska dómstóla. Kærandi hafi verið settur í tilkynningarskyldu frá 19. maí til 2. júní 2021 í 14 daga og hafi átt að mæta alla virka daga og tilkynna sig. Viðkomandi hafi einungis mætt í sex af tíu skiptum. Þar sem afstaða hans hafi legið fyrir hafi ekki verið haft meira samband við hann. Í upplýsingum sem kærunefnd bárust frá Útlendingastofnun, dags. 12. ágúst 2021, varðandi fyrirspurn um tafir á málsmeðferð kemur fram að kærandi hafi neitað að mæta í sýnatöku vegna Covid-19 daginn áður en hafi átt að flytja hann úr landi. Að því leyti telji Útlendingastofnun að kærandi hafi tafið mál sitt, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þann 23. ágúst 2021 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá stoðdeild um það hvort kærandi hefði verið boðaður í Covid-19 sýnatöku á ákveðnum fyrirframgefnum tíma þegar til stóð að flytja hann úr landi. Samkvæmt svari stoðdeildar, dags. 31. ágúst 2021, hafi ekki verið búið að ákveða nákvæma dagsetningu fyrir sýnatöku kæranda en kærandi hafi neitað að fara í sýnatöku þann 28. apríl 2021 þegar lögreglan hafi farið heim til hans.

Af svari frá stoðdeild má því ráða að þau samskipti sem áttu sér stað milli kæranda og stoðdeildar hafi aðallega snúið að því almennt að kanna afstöðu kæranda til fyrirhugaðs flutnings til Grikklands. Þá var kærandi settur í tilkynningarskyldu frá 19. maí til 2. júní 2021. Kærunefnd tekur fram að flutningur umsækjenda um alþjóðlega vernd sem fengið hafa neikvæða niðurstöðu hér á landi í máli sínu er íþyngjandi ákvörðun og því eðlilegt að umsækjendur séu mótfallnir slíkum flutningi. Þá má sjá af samskiptum stoðdeildar við kæranda að síðasta tilraun til að koma kæranda í Covid-19 sýnatöku var þann 28. apríl 2021 en líkt og að framan greinir leið 12 mánaða fresturinn í máli kæranda þann 6. júlí 2021. Af svari stoðdeildar má ráða að ekki hafi verið gerðar frekari tilraunir af hálfu stoðdeildar að undirbúa flutning á kæranda og framkvæmdin því ómarkviss af hálfu stoðdeildar. Að mati kærunefndar er ekki hægt að slá því föstu að kæranda hafi með formlegum og skýrum hætti verið tilkynnt um hvar og hvenær hann ætti að mæta í sýnatöku. Við þessar aðstæður telur kærunefnd að það hefði verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, m.a. í því skyni að fyrirbyggja misskilning og tryggja sönnun, að upplýsa hann með formlegum og sannanlegum hætti um skyldur sínar gagnvart Útlendingastofnun. Kærunefnd telur að líta verði svo á að munnleg almenn yfirlýsing kæranda um að hann vilji ekki snúa aftur til Grikklands eða undirgangast Covid-19 sýnatöku til þess að gera íslenskum stjórnvöldum kleift að flytja hann þangað, geti ekki ein og sér talist vera töf á afgreiðslu málsins.

Með hliðsjón af framangreindu er því ekki grundvöllur fyrir kærunefnd til að ákvarða að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er uppfyllt og ber að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

Í ljósi framangreinds er því fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

 

 

 

Úrskurðarorð:

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for international protection in Iceland.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sandra Hlíf Ocares                                                    Bjarnveig Eiríksdóttir

           

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum