Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Skelfilegt ástand í Sómalíu – ákall um stuðning

Ljósmynd: UNICEF/Rich - mynd

Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðlegar mannúðarstofnanir birtu í gær ákall um fjárstuðning við íbúa Sómalíu þar sem um rúmlega átta milljónir íbúa, um helmingur þjóðarinnar, þarf á brýnni mannúðaraðstoð að halda. Ákallið nemur 2,6 milljörðum Bandaríkjadala, rúmlega 370 milljörðum íslenskra króna. Miklar líkur eru á því að lýst verði yfir hungursneyð í landinu á vormánuðum.

Að sögn Adam Abdelmoula mannúðarstjóra Sameinuðu þjóðanna fyrir Sómalíu kom þrautseigja heimamanna og umfang mannúðaraðstoðar í veg fyrir að hungursneyð yrði lýst yfir á síðasta ári. Hann sagði hins vegar milljónir mannslífa í húfi og full ástæða væri til að óttast að lýsa þurfi yfir hungursneyð frá apríl til júní á þessu ári, og lengur ef mannúðaraðstoð verði ekki fullnægjandi og þurrkar haldi áfram eins og spár geri ráð fyrir.

Lengstu og alvarlegustu þurrkar í Sómalíu hafa leitt til þess að landið er orðið gróðursnautt. Nánast úrkomulaust hefur verið fimm regntímabil í röð og þurrkarnir hafa hrakið rúmlega 1,4 milljónir íbúa á flótta. Búpeningur hefur drepist í stórum stíl, lífsviðurværi fólks er horfið og þúsundir barna fá enga mjólk. Þótt tækilegum hungurmörkum hafi ekki verið náð er ástandið afar ógnvekjandi, dauðsföll eru miklu fleiri en eðlilegt getur talist, og ekkert útlit fyrir að dánartíðnin minnki á komandi misserum.

Óttast er að fjármagn til mannúðaraðstoðar dragist saman á næstunni og því er líklegt að 8,3 milljónir íbúa Sómalífu búi við sult í vor þar af 727 þúsund sem verði í bráðri hættu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum