Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2011 Innviðaráðuneytið

Nýjar reglugerðir varðandi málefni fatlaðs fólks

Ögmundur Jónasson, sem frá áramótum er innanríkisráðherra, setti tvær nýjar reglugerðir fyrir áramót vegna flutnings á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga. Reglugerðirnar tóku gildi 1. janúar.

Önnur reglugerðin snýst um úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk á þessu ári og er hún nr. 1066/2010. Hin reglugerðin, nr. 1067/2010, varðar stofnun Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem annast skal  fasteignir sem nýttar eru í þágu fatlaðra.

Reglugerðirnar eru settar á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum og í samræmi við heildarsamkomulag um yfirfærslu á málefnum fatlaðra sem fulltrúar ríkis og sveitarfélaga skrifuðu undir 23. nóvember síðastliðinn. Í samkomulaginu er lýst lagabreytingum í tengslum við breytinguna og fjallað um þjónustusvæði og fjárhagsramma og fjölmörg önnur atriði sem tengjast þessum verkefnaflutningi.

Í reglugerðinni um úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga kemur fram að tekjur sjóðsins vegna verkefna á sviði þjónustu við fatlaða skuli nema 0,95% af útsvarsstofni auk sérstakra framlaga á fjárlögum. Skulu þessar tekjur renna í sérstaka deild innan Jöfnunarsjóðs. Þá segir reglugerðin til um hvernig skipta skuli almennum framlögum Jöfnunarsjóðs milli sveitarfélaga og þjónustusvæða svo og um skiptingu framlaga vegna kostnaðar við notendastýrða persónulega þjónustu og breytingar samfara flutnings málaflokksins.

Reglugerðin um Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga greinir frá verkefnum sjóðsins sem tekur nú við öllum eignum, réttindum og skyldum Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Fasteignasjóðnum er heimilt að leigja eða selja sveitarfélögum, þjónustusvæðum eða öðrum sem veita fötluðum þjónustu fasteignir sem nýta skal til þjónustu við fatlaða. Heimild sjóðsins til innheimtu leigu tekur þó fyrst gildi 1. janúar 2012, sbr. ákvæði í 4. gr. reglugerðarinnar. Ráðherra skal skipa þriggja manna ráðgjafarnefnd sem fjalla skal um stefnumótandi ákvarðanir í rekstri sjóðsins og hefur einnig eftirlit með starfsemi hans.

Báðar reglugerðirnar skulu endurskoðaðar eigi síðar en 1. október á þessu ári.

Ráðuneytið væntir þess að eiga gott samstarf við sveitarfélögin varðandi þennan mikilvæga málaflokk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum