Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2007 Innviðaráðuneytið

Ræddi markaðsmál ferðaþjónustu, samgöngur og fjarskipti

Samgöngumál, fjarskipti og markaðsmál í ferðaþjónustu voru meðal umræðuefna í ávarpi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra á aðalfundi Ferðamálasamtaka Íslands sem nú stendur á Ísafirði. Auk hefðbundinna aðalfundastarfa eru á fundinum flutt erindi um uppbyggingu markaðsstofu Vestfjarða og stefnumótun og miðlun upplýsinga.

Sturla Böðvarsson ávarpar aðalfund Ferðamálasamtaka Íslands
Sturla Böðvarsson ávarpar aðalfund Ferðamálasamtaka Íslands

Samgönguráðherra sagði meðal annars að góðar samgöngur væru forsenda framfara á öllum sviðum og þar á meðal í ferðamálum. Nefndi hann nokkur umfangsmikil verkefni sem væru að hefjast svo sem nýbyggingu Djúpvegar í Mjóafirði með þverun fjarðarins og brú sem ljúka ætti á næsta ári. Þegar því verki lyki væri unnt að aka á bundnu slitlagi milli Hólmavíkur og Bolungarvíkur. Þá sagði hann framundan að bjóða út vegagerð um Tröllatunguheiði og í Barðastrandasýslum.

Um fjarskiptamál sagði ráðherrann að nýlega hefði verið skrifað undir verksamning við Símann hf. um að þétta gsm-farsímanetið á Hringveginum og nokkrum fjallvegum, þar á meðal Steingrímsfjarðarheiði. Þeim verksamningi fylgi að setja upp sendi í Flatey á Breiðafirði sem þýðir að farsímaþjónustan batnar mjög á stórum köflum á þjóðveginum um Barðastrandasýslur. Sagði hann þetta fyrri áfanga í því verki að auka farsímaþjónustuna og síðari áfanga verður netið þétt enn á fjölmörgum stöðum í þjóðvegakerfinu þar á meðal mjög víða á Vestfjörðum. Einnig sagði ráðherra að á næstunni yrði boðið út verkefni til að bæta háhraðatengingu víða um land þar sem fjarskiptafyrirtæki hafa ekki séð hag sinn í að bjóða upp á þjónustu.

Aukin umsvif skemmtiferðaskipa

Þá gerði samgönguráðherra að umræðuefni aukin umsvif í móttöku skemmtiferðaskipa en á síðasta ári höfðu 22 skip viðdvöl á Ísafirði og næsta sumar er gert ráð fyrir komu 28 skipa með um það bil 18 þúsund gestum. ,,Þjónusta við skemmtiferðaskip og farþega þeirra er mikilvæg búbót. Móttaka farþega frá skemmtiferðaskipum hefur marga snertifleti, í skipulagi og sölumennsku, menningu- og listum, land- og mannlífskynningum svo eitthvað sé nefnt. Með vaxandi umsvifum á þessu sviði er nauðsynlegt að við séum tilbúin með innviðina á þessum stöðum, að hafa nægan mannskap til að sinna verkefnum á þessu sviði þegar mest er um að vera. Þetta hafið þið leyst með því að selflytja fólk og farartæki milli landshluta til að anna þörfinni og mér sýnist að með slíkri útsjónarsemi séu ykkur allir vegir færir þegar gestunum fjölgar,? sagði Sturla Böðvarsson meðal annars.

Undir lok ræðunnar fjallaði ráðherra um markaðsmál og sagði meðal annars: ,,Samgönguráðuneytið hefur undanfarin ár styrkt Ferðamálasamtök Íslands og níu upplýsingamiðstöðvar um allt land með veglegum styrkjum. Á þessu ári hafa fjárframlög til Ferðamálastofu vegna ferðamálasamtaka landshlutanna hins vegar verið stóraukin og því ekki lengur þörf á aðkomu samgönguráðuneytisins á þessu sviði. Ráðuneytið mun á þessu ári styrkja nokkrar markaðsskrifstofur eins og undanfarin ár en síðan er alls óljóst hvað verður. Eðlilegt er að fjárframlög til skrifstofanna sem og ferðamálasamtakanna komi í auknum mæli frá sveitarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum auk Ferðmálastofu.?



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum