Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Þróunarsamvinna í kjölfar COVID-19 heimsfaraldurs

Ljósmynd: Rauði krossinn - mynd

Þegar eitthvað afbrigðilega stórt og mikið gerist í heimssögunni er oft erfitt að meta afleiðingar og áhrif þess fyrr en eftir langan tíma. Þetta á svo sannarlega við um heimsfaraldurinn sem hefur haft djúpstæð áhrif á líf nær allra jarðarbúa undanfarið ár. Daglegt líf færist smám saman í eðlilegt horf hér á landi þó margir eigi eftir að finna áfram fyrir eftirköstunum, en það verður erfiðara fyrir margar aðrar þjóðir og sérstaklega þær fátækari að ná sér aftur á strik. Þjóðir sem til dæmis reiða sig mikið á þróunarsamvinnu og hagstæð erlend lán til að renna stoðum undir veika innviði, tryggja menntun og heilbrigði fyrir íbúa sína standa höllum fæti.

Margt hefur sannarlega áunnist fyrir fátækar þjóðir á síðustu árum og áratugum. Það er jákvæð staðreynd að frá árinu 1990 fór hlutfall þeirra sem bjuggu við sárafátækt úr því að vera einn af hverjum þremur í að vera einn af hverjum tíu í lok árs 2019. Mikilvægi þróunarsamvinnu við að ná þessum árangri verður seint metin til fulls, en ljóst er að þróunarsamvinna ber ávöxt.

Hverjar verða afleiðingarnar af COVID-19 fyrir fátækustu þjóðirnar?

Íslensk stjórnvöld hafa lengi verið eftirbátar annarra Norðurlanda í framlögum til þróunarsamvinnu en þeim verður að hrósa fyrir að gefa ekki eftir núna þegar þörfin hefur sjaldan verið meiri, heldur bæta í framlög til þróunarsamvinnu.

Vegna efnahagslegra afleiðinga heimsfaraldursins, þar með talið samdráttar til þróunarsamvinnu, mun þeim fjölga sem búa við sárafátækt í fyrsta skipti í 20 ár. Og um allt að 115 milljónir! Víða um heim treysta stórir þjóðfélagshópar á „óformlega efnahagskerfið“ og hafa lítið sem ekkert öryggisnet, sóttavarnaraðgerðir hafa því hrikaleg áhrif á líf og heilsu þessara hópa. Það auk vopnaðra átaka og aukinnar tíðni hamfara sem rekja má til loftslagsbreytinga, mun neyða milljónir einstaklinga til að flýja heimili sín og heimalönd og leita skjóls í öruggari ríkjum.

Og hvað er þá til ráða?

Þótt á brattann sé að sækja fyrir þau sem verst standa er bæði von og tækifæri til að gera jörðina okkar að betri og friðsælli stað fyrir mannkynið. Það þarf að gera á grundvelli sjálfbærni og grænna lausna með langtímahugsun að leiðarljósi. Við töpum öll á því missa stóran hluta jarðarbúa í sárafátækt og skapa þannig frjóan jarðveg fyrir átök innan og á milli ríkja.

Til þess að nefna dæmi um mikilvæg verkefni í þróunarsamvinnu sem þarf að gefa gaum má nefna:

Valdefling heimafólks. Sjáflboðið starf sem byggir á þörfum og frumkvæði heimafólks líkt og Rauði krossinn leggur áherslu á, er aðferð sem skilar árangri. Ef við höldum áfram að hlúa að og byggja upp staðbundna þekkingu og leggjum meiri þunga á að mennta og valdefla stúlkur og konur mun enn meiri árangur nást. Forsenda fyrir framþróun er aukin menntun og valdefling stúlkna.

Nauðsynlegt er að tryggja öllum íbúum heims jafnt aðgengi að bóluefni gegn COVID-19 sem og öðrum bóluefnum. Afleiðingarnar geta verið geigvænlegar ef margar þjóðir eru skildar eftir, ekki aðeins fyrir fátækari þjóðir. Við sjáum ebólufaraldra enn blossa upp í sumum ríkjum Afríku, þrátt fyrir að bóluefni sé til gegn sjúkdómnum. Bólusetning fyrir öll er eitthvað mikilvægasta heilbrigðisverkefni sem við tökumst á við.

Ísland og þróunarsamvinna

Ísland hefur heilmikið fram að færa í alþjóðlegri þróunarsamvinnu, ekki síst með grænar og sjálfbærar lausnir í huga. Ísland sem sjálft var fátækt land fyrir ekki svo mörgum áratugum er líka gott dæmi um að þróunarsamvinna ber ávöxt.

Með samhentu átaki íslenskra stjórnvalda, fyrirtækja, almennings og félagasamtaka í þróunarsamvinnu getum við haft jákvæð og lífsbjargandi áhrif á milljónir ef ekki tugmilljónir íbúa í fátækustu löndum heims og stutt verkefni sem renna stoðum undir Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna - með mælanlegum árangri. Með aukinni uppbyggingu og samstarfi við félagasamtök í þeim ríkjum stuðlum við að uppbyggingu félagasamtaka sem geta bæði veitt stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald og jafnframt stutt við þau að taka mikilvæg framfaraskref með heilsu og velferð íbúa að leiðarljósi. Sjálfbær og græn þróunarsamvinna þar sem allir taka höndum saman er forsenda árangurs, ekki bara í okkar þágu heldur framtíðarkynslóða.

Höfundur er sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi.

Greinin er skrifuð í tilefni af fræðsluátakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum allra helstu íslenskra félagasamtaka í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu, í samstarfi við utanríkisráðuneyti.

Greinin birtist áður í Fréttablaðinu 24. febrúar 2021

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum