Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2008 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Reglugerð um töku sýna og rannsókn vegna aksturs undir áhrifum vímuefna

Drög að nýrri reglugerð um töku sýna og rannsókn vegna aksturs undir áhrifum vímuefna eru nú til umsagnar á vef samgönguráðuneytisins. Þeir sem óska geta gert athugasemdir til 1. febrúar.

Í framhaldi af umræðum í þjóðfélaginu og á Alþingi síðast liðið haust um aðferðir við töku sýna vegna ætlaðra brota á ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987 um akstur undir áhrifum áfengis og annarra vímefna ákvað Kristján L. Möller, samgönguráðherra að skipa starfshóp til að semja drög að reglugerð um þetta efni. Í starfshópnum áttu sæti: Ragna Bjarnadóttir frá embætti Ríkissaksóknara, dr. Magnús Jóhannesson frá Lyfja- og eiturefnastofnun H.Í., Jónína Sigurðardóttir frá Ríkislögreglustjóraembættinu, Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, og Birna Hreiðarsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, sem var formaður starfshópsins.

Með reglugerð þessari er kveðið á um hvernig staðið skuli að framkvæmd lögboðinnar sýnatöku af ökumanni sem grunaður er um að vera undir áhrifum vímuefna við akstur vélknúins ökutækis. Ennfremur er kveðið á um meðferð og rannsókn sýna. Drögin eru sett með stoð í 4. mgr. 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og byggja á sjónarmiðum sem fram koma í umferðarlögum með hliðsjón af venjum sem myndast hafa á þessu sviði.

Umsagnarfrestur um reglugerðardrögin er til 1. febrúar 2008 og skulu umsagnir berast á netfang samgönguráðuneytisins, [email protected].

Reglugerðardrögin má finna hér.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira