Hoppa yfir valmynd
21. mars 2019 Utanríkisráðuneytið

„Konur þurfa að fá A plús í prófinu til að fá einkunnina C mínus“

Frá hliðarviðburðinum á kvennafundi SÞ. - mynd

Hliðarviðburður Íslandsdeildar norræns nets kvenna í friðarumleitunum (Nordic Women Mediators) fór fram fyrir fullu húsi á kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna (CSW63) í New York fimmtudaginn 13. mars. Efni hliðarviðburðarins var bein og merkingarbær þátttaka kvenna í friðarviðræðum, stjórnmálum og umbreytingarréttlæti (e. transitional justice) undir ensku yfirskriftinni: Women at the Table! Transformative change – Women shaping the agenda of peace, transitional justice and political agreements.

Hliðarviðburðinum var stjórnað af Dr. Sarah Taylor, sérfræðingi í málefnum kvenna, friðar og öryggis hjá Alþjóðlegu friðarstofnuninni í New York (e. International Peace Institute). Hún tók fram í inngangi sínum að á síðustu mánuðum hefur þátttaka kvenna í friðarviðræðum verið í lágmarki og að leggja þarf stöðuga áherslu á að koma konum að samningaborðinu.

Á hliðarviðburðinum sögðu fjórar konur frá reynslu sinni og annarra kvenna af virkri þátttöku sem hafði afgerandi áhrif á framgang og árangur jafnréttis á vettvangi stjórnmálastarfs og við gerð friðarsáttmála.

Kristín Ástgeirsdóttir sagði frá starfi og árangri Kvennalistans á Íslandi; Anne Carr sagði frá Kvennasamfylkingunni á Norður Írlandi (The Northern Ireland Women’s Coalition) sem tók sér Kvennalistann á Íslandi til fyrirmyndar til að stuðla að því að konur fengu kosningu og gætu tekið virkan þátt í friðarferlinu sem leiddi til friðarsamkomulags árið 1998 sem kennt er við föstudaginn langa (e. The Good Friday Agreement); Vlora Çitaku sagði frá samstöðu kvenna sem beittu sér fyrir því að þolendur stríðsnauðgana og annars konar kynferðisofbeldis í stríðinu árið 1999 milli serbneska stjórnarhersins og frelsishers Kosovo (e. Kosovo Liberation Army) fengju lagalega viðurkenningu sem borgaraleg fórnarlömb stríðs og opinberan stuðning; og Chouchou Namegabe frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó sagði frá notkun útvarps til að varpa ljósi á það kynferðislega stríðsofbeldi sem konur urðu fyrir og kalla eftir réttlæti og stuðnings við þolendur.

Á fundinum hvatti Kristín konur til þess að taka höndum saman, skipuleggja sig og framkvæma. Hún sagði árangur í jafnréttismálum ekki vinnast sjálfkrafa og krefðist skipulagningar. Það hefur ítrekað komið fram að konur þurfa að leggja sig margfalt meira fram en karlar til að fá sæti við samningarborðið, eða eins og eins og Vlora Citaku orðaði það, „Konur þurfa að fá A plús í prófinu til að fá einkunnina C mínus“. Anne Carr sagði það mikilvægt að nýta tækifærin og stökkva á þau þegar þau gæfust.  Hún sagði frá því hvernig konurnar á Norður Írlandi sáu tækifæri í kosningum árið 1996 og af elju og áræðni náðu á sex vikum að skipuleggja sig til að taka þátt. Þátttaka þeirra í kosningunum gerði það að verkum að tvær konur tóku þátt í samningaviðræðunum, báðar fulltrúar Kvennasamfylkingarinnar. Anne Carr lýsti því einnig hvernig samstaða kvennanna var byggð á sameiginlegum meginreglum og grunngildum. Þær höfðu áhrif á inntak viðræðnanna þar sem þær komu undirbúnar til leiks með skýrar áherslur en þær komu því m.a. til leiðar að friðarsamningurinn innihélt mannréttindakafla sem konurnar höfðu sett í forgang.

Í bæði Kósovó og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó var opinberun persónulegra frásagna kvenna lykilatriði í því að stríðsofbeldi gegn konum var viðurkennt. Stríðsglæpir gegn konum var þögult stríð, þar sem hvorki konur né fjölskyldur þeirra sögðu frá ofbeldinu. Með því að taka upp og útvarpa raddir kvennanna í Lýðveldinu Kongó urðu glæpirnir sýnilegir sem var forsenda viðurkenningar þeirra. Í Kósovó var lögum breytt árið 2013 og þolendur stríðsnauðgana fengu opinbera viðurkenningu sem borgaraleg fórnarlömb stríðs. Síðan þá hafa fórnarlömb stríðsins fengið aukinn opinberan stuðning en þó hefur ekki verið tekið á ofbeldinu með fullnægjandi hætti hvorki í Kósovó né Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó þar sem ekki er refsað fyrir stríðsglæpi gegn konum.

Í frásögnunum kvennanna var samhljómur þess að konur þyrftu vinna þétt saman og sýna samstöðu og frumleika í baráttu sinni við að koma málefnum sínum á framfæri.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum