Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2011 Utanríkisráðuneytið

Íslandsdagur haldinn í Eistlandi 21. ágúst

islandsdagur
islandsdagur

Sérstakur Íslandsdagur verður haldinn í Tallinn í Eistlandi sunnudaginn 21. ágúst, í tilefni þess að tuttugu ár eru liðin frá því að Íslendingar urðu fyrstir þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Eistlands. Forseti Íslands, utanríkisráðherra og fyrrum utanríkisráðherra taka þátt í deginum auk íslenskra tónlistarmanna, ljósmyndara, hönnuða og matreiðslumanna. Eistnesk stjórnvöld standa að deginum með stuðningi íslenska utanríkisráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun setja hátíðina á miðnætti, aðfararnótt 21. ágúst með tónleikum sem verður sjónvarpað. Hann mun auk þess opna sýninguna "Íslensk samtímahönnun" um íslenska hönnun og arkitektúr sem fyrst opnaði á Kjarvalsstöðum árið 2009 og hefur undanfarin misseri ferðast víða um heim. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tekur ásamt Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra þátt í málþingi í tilefni Íslandsdagsins, auk þess sem hann opnar m.a. veggspjaldasýninguna Sögueyjan: Svipmyndir af íslenskum samtímahöfundum með portrett ljósmyndum Kristins Ingvarssonar og textum Péturs Blöndal um íslenska rithöfunda og ljósmyndasýningu Páls Stefánssonar "Light years" sem ferðast hefur um heiminn undanfarin ár á vegum sendiráða og samstarfsaðila þeirra. Þá fundar utanríkisráðherra með starfsbróður sínum, Urmas Paet og í framhaldinu halda til Riga í Lettlandi til fundar við Girts Valdis Kristovskis, utanríkisráðherra Lettlands.

Fjölmargir íslenskir listamenn taka þátt í Íslandsdeginum, m.a. Hjaltalín, Retro Stefan, Lay Low, Mosfellskórinn, Karlakór Kjalnesinga, Snorri Helgason, For a Minor Reflection, Ólafur Arnalds, Sykur og President Bongo. Leikin verða verk eftir Atla Heimi Sveinsson, Atla Ingólfsson og Pál Ragnar Pálsson. Þá koma rithöfundarnir Andri Snær Magnason og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson fram og sýnd verður íslensk hönnun og svipmyndir af íslenskum arkitektúr, svo og ljósmyndir Páls Stefánssonar sem jafnframt verður viðstaddur. Þá verða kynnt íslensk matvæli og heimildarmyndin Heima um hljómsveitina Sigurrós verður sýnd.

Dagskrá Íslandsdagsins er að finna hér

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum