Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 287/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 287/2016

Miðvikudaginn 8. febrúar 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 3. ágúst 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2016, annars vegar niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2015 og hins vegar innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins á endurreikningi og uppgjöri tekjutengdra bóta ársins 2015 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 385.058 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu hennar með bréfum, dags. 21. júní 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. ágúst 2016. Með bréfi, dags. 10. ágúst 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. september 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. september 2016. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst hafa byrjað á greiðslum hjá Tryggingastofnun ríkisins í nóvember 2014 og hún hafi ekki haft vitneskju um rétt sinn hjá lífeyrissjóðum. Þá hafi hún fengið greiðslur frá B aftur í tímann þar sem hún hafi átt góðan rétt til lífeyris, greiðslurnar hafi verið háar í desember 2014 og janúar 2015 og svo í kjölfarið verið um lægri greiðslur að ræða. Þá segir að hún hafi unnið frá 1. maí 2015 til desember það sama ár en þá veikst aftur.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2015 sem hafi verið kynntur kæranda með bréfi stofnunarinnar, dags. 21. júní 2016.

Þá segir að í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með síðari breytingum sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar kemur fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Í a. lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 komi fram að við endurreikning bóta til þeirra sem fengu greiðslur hluta úr bótagreiðsluári skuli byggja á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um sé að ræða tekjur sem séu staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eingöngu beri að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur hafi verið fyrir hendi í.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Þá segir að á árinu 2015 hafi kærandi notið endurhæfingarlífeyris og tengdra greiðslna frá 1. janúar til 31. maí.

Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri á hendur kæranda sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2016 vegna tekjuársins 2015 hafði farið fram, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafði gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum á skattframtölum bótaþega lögum samkvæmt.

Kæranda hafi verið send tekjuáætlun vegna ársins 2015 með bréfi, dags. 14. janúar 2015, þar sem gert hafi verið ráð fyrir því að kærandi hefði 17.160 kr. í fjármagnstekjur á árinu og engar aðrar tekjur. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við tillögu Tryggingastofnunar og kærandi hafi því fengið greitt miðað við þessar forsendur tímabilið 1. janúar til 31. mars 2015.

Í mars hafi komið í ljós við reglubundið samtímaeftirlit Tryggingastofnunar að tekjuáætlun kæranda hafi ekki verið í samræmi við upplýsingar frá staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Tryggingastofnun hafi tilkynnt kæranda um að búið væri að mynda áætlaða kröfu vegna þessa með bréfi, dags. 13. mars 2015. Kæranda hafi einnig verið send ný tekjuáætlun þar sem gert hafi verið ráð fyrir óbreyttum fjármagnstekjum en bætt við 2.112.273 kr. í lífeyrissjóðstekjur yfir árið. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við tillögu Tryggingastofnunar og hafi fengið greitt miðað við þessar forsendur tímabilið 1. apríl til 31. maí 2015.

Í maí hafi komið aftur í ljós við reglubundið samtímaeftirlit Tryggingastofnunar að tekjuáætlun kæranda hefði ekki verið í samræmi við upplýsingar frá staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Tryggingastofnun hafi tilkynnti kæranda aftur um að búið væri að mynda áætlaða kröfu vegna þessa með bréfi, dags. 11. maí 2015. Kæranda hafi einnig verið send ný tekjuáætlun þar sem gert hafi verið ráð fyrir óbreyttum fjármagnstekjum en lífeyrissjóðstekjur nú áætlaðar 2.989.815 kr. yfir árið. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við þessa tillögu Tryggingastofnunar, en þar sem kærandi hafi ekki fengið neinar greiðslur frá Tryggingastofnun eftir maímánuð hafi ekki komið til þess að hún hafi fengið greitt eftir þessum forsendum.

Við bótauppgjör ársins 2015 hafi verið gert upp eingöngu það tímabil sem kærandi hafi notið greiðslna endurhæfingarlífeyris og tengdra greiðslna, þ.e. frá 1. janúar til 31. maí 2015. Þá hafi komið í ljós að á tímabilinu hafi kærandi verið með 1.400.444 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 388.533 kr. í launatekjur og 3.260 kr. í fjármagnstekjur. Þessi mismunur hafi leitt til þess að tekjutengdar greiðslur hafi verið ofgreiddar í nokkrum bótaflokkum um 385.058 kr. að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagareiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 201[5] hafi farið fram lögum samkvæmt. Eftir að Tryggingastofnun hafi farið yfir gögn málsins þyki ekki ástæða til þess að breyta fyrri ákvörðunum stofnunarinnar.

Þá segir í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins að rétt sé að svara sérstaklega tveimur atriðum sem fram hafi komið í kæru. Í fyrsta lagi komi fram að kærandi telji að einstakar lífeyrissjóðsgreiðslur eigi að tilheyra fyrri tímabilum. Tryggingastofnun sé, eins og fram hefur komið, bundin við skattframtöl og staðgreiðsluskrár þegar komi að endurreikningi á réttindum bótaþega. Telji kærandi hins vegar að skattframtal hennar sé ekki rétt geti hún óskað eftir leiðréttingu hjá skattyfirvöldum. Í kjölfar skattbreytinga megi svo óska eftir endurreikningi á uppgjöri.

Í öðru lagi komi kærandi inn á tekjur sem hafi fallið í desember 2014. Þær tekjur kæranda hafi ekki áhrif á uppgjör ársins 2015.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2015 og innheimtu ofgreiddra bóta.

Kærandi var á endurhæfingarlífeyri á árinu 2015 frá 1. janúar til 31. maí 2015 og fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með síðari breytingum er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Á grundvelli 7. mgr. þeirrar lagagreinar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Í a. lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags segir að við endurreikning bóta til þeirra sem fengu greiðslur hluta úr bótagreiðsluári skuli byggja á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um sé að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eingöngu beri að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur hafi verið fyrir hendi í.

Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Sá endurreikningur, sem ágreiningur þessa máls snýst um, leiddi í ljós að kærandi hefði fengið ofgreidda tekjutryggingu og sérstaka uppbót til framfærslu, samtals 385.058 kr. að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þessarar ofgreiðslu var sú að tekjuforsendur voru ekki réttar. Með bréfi, dags. 14. janúar 2015, sendi Tryggingastofnun ríkisins kæranda tillögu að tekjuáætlun vegna ársins 2015 sem gerði eingöngu ráð fyrir 17.160 kr. í fjármagnstekjur á árinu. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. mars 2015, var kæranda tilkynnt um að við reglubundið eftirlit stofnunarinnar hafi komið í ljós ósamræmi milli tekna í tekjuáætlun hennar og tekna samkvæmt staðgreiðsluskrá. Þá var kærandi einnig upplýst um að greiðslur vegna janúar til og með mars hafi verið ofgreiddar að fjárhæð 253.077 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Meðfylgjandi bréfinu var ný tekjuáætlun sem gerði ráð fyrir að kærandi myndi hafa 2.112.273 kr. í lífeyrissjóðstekjur á árinu. Þá fylgdi einnig ný greiðsluáætlun vegna ársins þar sem upplýst var um að mánaðarlegar greiðslur til kæranda myndu lækka. Kærandi gerði ekki athugasemdir við framangreint bréf. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 11. maí 2015, var kærandi upplýst um að við reglubundið eftirlit hafi komið í ljós ósamræmi á milli tekna í tekjuáætlun og tekna samkvæmt staðgreiðsluskrá. Því hafi myndast ofgreiðsla að fjárhæð 131.120 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Meðfylgjandi bréfinu var ný greiðsluáætlun ársins miðuð við þessar nýju forsendur ásamt nýrri tekjuáætlun þar sem lífeyrissjóðstekjur kæranda voru hækkaðar í 2.989.815 kr.

Tryggingastofnun framkvæmdi endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2015 á grundvelli skattframtals 2016 vegna tekjuársins 2015. Skattframtal ársins sýndi fram á 1.400.444 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 388.533 kr. í launatekjur á umræddu tímabili frá janúar til og með maí 2015. Einnig liggur fyrir að umræddur tekjustofn hefur áhrif á bótarétt en í 2. mgr. áðurnefndrar 16. gr. segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur. Þar falla lífeyrissjóðstekjur undir a-lið 7. gr. Launatekjur kæranda á því bótatímabili sem um ræðir reyndust vera 388.533 kr. en þær upplýsingar lágu ekki fyrir í neinni tekjuáætlun á bótatímabili kæranda. Eins og gögn frá kæranda bera með sér féllu þær tekjur til í maímánuði 2015. Í tilviki kæranda höfðu þessar launatekjur kæranda ekki áhrif á tekjutengdar greiðslur kæranda. Lífeyrissjóðsgreiðslurnar leiddu til framangreindrar ofgreiðslu í tekjutryggingu og sérstakri uppbót til framfærslu. Fjármagnstekjur kæranda á árinu voru óverulegar.

Það er á ábyrgð greiðsluþega sem nýtur tekjutengdra bóta að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári, sbr. áðurnefnda 39. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun ríkisins greiðir tekjutengdar bótagreiðslur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2015 og þá ákvörðun að krefja kæranda um endurgreiðslu þeirrar ofgreiðslu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör vegna tekjutengdra bótagreiðslna A, á árinu 2015 og innheimtu ofgreiddra bóta eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum