Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 654/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 654/2020

Fimmtudaginn 8. apríl 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. desember 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. desember 2020, um að synja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 5. ágúst 2020. Meðfylgjandi umsókn kæranda var skólavottorð þar sem fram kom að kærandi stundaði 25 ECTS-eininga ML nám við B á haustönn 2020. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. september 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið synjað á grundvelli 6. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Með erindi, dags. 9. september 2020, sendi kærandi Vinnumálastofnun frekari skýringar og óskaði eftir endurupptöku málsins. Vinnumálastofnun tók mál kæranda til umfjöllunar á ný og með bréfi, dags. 29. september 2020, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun í máli hennar væri staðfest. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. október 2020. Með erindum, dags. 10. og 19. nóvember 2020, óskaði kærandi á ný eftir endurupptöku málsins. Með ákvörðun, dags. 8. desember 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið synjað á grundvelli 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. desember 2020. Með bréfi, dags. 14. desember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Þann 11. janúar 2021 bárust viðbótargögn frá kæranda. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 22. janúar 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. febrúar 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 10. febrúar 2021 og voru þær sendar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. febrúar 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún sé ósátt við að fá ekki greiddar atvinnuleysisbætur vegna þess að hún sé í fullu fjarnámi við B. Þar sem kærandi sé í fullu námi flokkist hún sem námsmaður í skilningi 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi byrjað í námi við C árið 2010. Á sama tíma hafi hún verið í 100% vinnu þar sem hún hafi ekki talist lánshæf hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, nú Menntasjóði námsmanna. Kærandi hafi haldið áfram námi í D við B en þá hafi hún ekki verið metin lánshæf vegna tekna. Kærandi hafi því ákveðið að flytja aftur heim til foreldra sinna til þess að geta greitt skólagjöld. Kærandi sé í dag í meistaranámi og metin lánshæf en það sé nánast aðeins fyrir skólagjöldum skólans. Kærandi sé ósátt við að hún fái ekki atvinnuleysisbætur þar sem hún hafi allan sinn starfsferil, frá því að hún hafi byrjað að vinna 14 ára gömul, greitt skatta sem eigi meðal annars að nýtast til að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Þegar hún hafi síðan þurft á þeim að halda hafi henni verið synjað. Fjarnám sé þannig að þú lærir eftir vilja og getu. Það þurfi að mæta í skólann á vinnuhelgum en haustið 2020 hafi kærandi verið heima á Teams vegna COVID-19. Kærandi þurfi að mæta í próf en þá sé ekkert mál að skrá sig af atvinnuleysisbótum. Hún hafi alltaf tekið sér launalaust frí til að mæta í skóla og próf. Fjarnám komi þannig ekki í veg fyrir atvinnuleit á sama tíma. Þá hafi verið greitt tryggingagjald af launum hennar og því eigi hún rétt á atvinnuleysisbótum.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Af vottorði um skólavist frá B sé ljóst að kærandi stundi 25 ECTS-eininga nám, eða fullt háskólanám, á haustmisseri 2020. Nám kæranda sé umfangsmikið og uppfylli ekki skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemdum með 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segi að 52. gr. kveði á um þá meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi sem stundað sé á venjulegum dagvinnutíma. Þá sé miðað við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þó sé lagt til að Vinnumálastofnun meti sérstaklega þær aðstæður sem kunni að koma upp er sá sem missir vinnu sína hafi stundað nám samhliða starfi sínu og kjósi að halda því áfram. Megi því ætla að atvinnuleitandi sé engu að síður í virkri atvinnuleit, enda mörg námsframboð miðuð við að fólk haldi áfram störfum með náminu. Þetta eigi þó ekki við þegar námið sé lánshæft samkvæmt reglum um Menntasjóð námsmanna, enda megi þá ætla að atvinnuleitandi geti leitað til sjóðsins á sama hátt og aðrir námsmenn í lánshæfu námi.

Kærandi kveðist vera alfarið í fjarnámi og að hún hafi áður en hún hafi misst starf sitt verið í 100% starfi samhliða námi. Af gögnum málsins og að sögn kæranda sé nám hennar þó lánshæft samkvæmt reglum um Menntasjóð námsmanna og ætti hún því að geta leitað til sjóðsins á sama hátt og aðrir námsmenn í lánshæfu námi.

Jafnframt komi fram í athugasemdum með 52. gr. að mikilvægt sé að Vinnumálstofnun meti aðstæður atvinnuleitanda heildstætt og þá einkum með tilliti til þess hvort hann teljist geta verið í virkri atvinnuleit. Þá þurfi meðal annars að líta til þess hvernig tímasókn í skóla sé háttað í því skyni að meta líkur á því að hlutaðeigandi geti tekið almennu starfi samhliða náminu. Enn fremur beri að líta til umfangs námsins. Kærandi stundi fjarnám og telji sig af þeim sökum vera færa um að taka fullu starfi samhliða námi. Kærandi stundi þó 25 ECTS-eininga nám og því sé umfang námsins töluvert. Í athugasemdum með 52. gr. segi í dæmaskyni að lokaverkefni í háskóla þar sem ekki sé krafist viðveru í skóla, sé engu að síður svo viðamikið að ekki verði unnt að meta námsmanninn í virkri atvinnuleit í skilningi laganna þann tíma sem unnið sé að verkefninu. Ætla verði að sömu sjónarmið gildi um fullt háskólanám þar sem ekki sé krafist viðveru í skóla, líkt og í tilfelli kæranda.

Rétt þyki að benda á að 4. september 2020 hafi lög nr. 112/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar), tekið gildi. Með 6. gr. laga nr. 112/2020 hafi verið gerðar breytingar á 52. gr. laga nr. 54/2006 og tveimur málsgreinum bætt við. Nú segi í 4. og 5. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006:

,,Þrátt fyrir 1.-3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.“

,,Þrátt fyrir 1.-4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi þegar hann sækir um atvinnuleysistryggingar án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.“

Í 11. gr. laga nr. 112/2020 segi að lögin öðlist þegar gildi. Þó gildi 6. gr. einnig um þá atvinnuleitendur sem hafi hafið nám á haustönn 2020 við gildistöku laganna. Kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 5. ágúst 2020. Samkvæmt dagskrá skólaársins 2020-2021 sem finna megi á heimasíðu B hafi nám kæranda hafist 24. ágúst 2020. Að mati Vinnumálastofnunar eigi framangreind ákvæði laga nr. 112/2020 því ekki við í tilviki kæranda, enda hafi kærandi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga áður en haustönn 2020 hafi hafist og því geti ekki verið um að ræða „önn sem sé yfirstandandi“ í skilningi laganna. Þá sé háskólanám jafnframt almennt lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna.

Í ljósi alls ofangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysistrygginga, enda uppfylli kærandi ekki almenn skilyrði 52. gr. laga nr. 54/2006.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en ákvæðið var svohljóðandi þegar kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.“

Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum, en þar segir:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Óumdeilt er að kærandi stundaði 25 ECTS-eininga nám við B þegar hún sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta og að námið var ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Samkvæmt skýrum ákvæðum 2. og 3. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 var á þeim tíma er kærandi lagði inn umsókn hjá Vinnumálastofnun ekki heimilt að stunda nám á háskólastigi umfram 20 ECTS-einingar á námsönn samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Þrátt fyrir fyrirkomulag náms kæranda og að hún hafi starfað lengi á vinnumarkaði verður ekki hjá því litið að sá sem stundar nám telst ekki tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006, nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í 52. gr. laganna. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að synja umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysisbóta. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. desember 2020, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum