Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2008 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Reykjavík síðdegis fékk viðurkenninguna Umferðarljósið

Kristján L. Möller samgönguráðherra afhenti stjórnendum útvarpsþáttarins Reykjavík síðdegis á Bylgjunni viðurkenningu Umferðarráðs, Umferðarljósið, við setningu umferðarþings í dag. Á þinginu var fjallað um umferðaröryggi, ökumenn og samgöngukerfið.

Samgönguráðherra ávarpar umferðarþing 2008.
Samgönguráðherra ávarpar umferðarþing 2008.

Samgönguráðherra sagði í ávarpi sínu að umferðaröryggisáætlun væri það tæki sem hægt væri að beita með mestum árangri í þeirri viðleitni að fækka slysum þar sem hún tæki til allra þátta umferðar og samgangna, frá hönnun mannvirkja til hegðunar gangandi, hjólandi og akandi í umferðinni.

Þeir Þorgeir Ástvaldsson, Kristófer Helgason og Bragi Guðmundsson tóku við viðurkenningunni umferðarljósinu og sagði ráðherra að þáttur þeirra á Bylgjunni, Reykjavík síðdegis, væri mikilvægur umræðuvettvangur til að efla skilning almennings á nauðsyn umferðaröryggis. Hvatti hann þá til að halda áfram á þeirri braut.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis, gerði grein fyrir helstu atriðum umferðaröryggisáætlunar, árangri hennar síðustu ár og helstu aðgerðum og endurskoðun sem nú stæði yfir. Nefndi hún þá fjóra þætti sem umferðaröryggisáætlun tekur yfir sem eru ökumenn og farartæki, fræðsla og áróður, öruggari vegir og umhverfi þeirra og þróunarmál.

Af öðrum erindum á umferðarþingi má nefna umfjöllun John Dawson, yfirmanns EuroRap gæðamatsins, um sýnina til móts við umferð án banaslysa, greint verður frá vinnu við endurskoðun umferðarlaga, kröfur til eldri borgara varðandi akstur og hvort rétt væri að hækka ökuleyfisaldur í 18 ár.


Samgönguráðherra afhendir Bylgjumönnum Umferðarljósið  
Samgönguráðherra afhendir Bylgjumönnum Umferðarljósið.      

 Umferðarmálin rædd í fundarhléi á umferðarþingi.      
Karl Ragnars, forstjóri Umferðarstofu, Kristján L. Möller samgönguráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri ræddu eflaust umferðarmál í fundarhléi.      

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira