Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2011 Utanríkisráðuneytið

Hagsmunir Íslands og norðurslóðir

Í blánorðrinu birtast afleiðingar hlýnunar jarðar langhraðast. Ísþekjan minnkar og þynnist örar á norðurslóðum en vísindamenn töldu áður. Suður um allar norðurslóðir hefur bráðnunin nú þegar leitt til gríðarmikilla breytinga. Þær undirstrika með dramatískum hætti hversu brýnt er að heimurinn grípi sameiginlega til róttækra ráðstafana gegn loftslagsvánni. Fyrir okkur Íslendinga er nauðsynlegt að skilja að breytingar í kjölfar bráðnunar geta haft veruleg áhrif fyrir okkur, jákvæð og neikvæð, þegar líður á öldina.

Ísþekjan hopar
Víðfeðm hafflæmi sem áður voru torsótt, eða ófær vegna ísþekju, munu opnast. Fast er sótt á nýtingu auðlinda, ekki síst olíu og gass undir hafsbotni. Ný tækifæri í veiðum gætu líka skapast. Skipaleiðir kynnu að opnast, að minnsta kosti hluta úr ári, milli Kyrrahafsins, um Íshafið yfir til N-Atlantshafs. Í þessu felast margvísleg tækifæri fyrir Íslendinga á sviði þjónustu við mannvirkjagerð, vinnslu, hugsanlega veiðar og jafnvel ferðaþjónustu, á svæðum handan heimskautsbaugs.
Við þurfum hins vegar að vera á varðbergi gagnvart háska sem fylgt getur auknum umsvifum norðan Íslands. Íslendingar verða því að beita sér fyrir skýrri og ígrundaðri stefnu gagnvart norðurslóðum. Hún þarf í senn að tryggja beina hagsmuni okkar, vernda viðkvæma náttúru norðurskautsins og magna um leið slagkraft Íslands í baráttu fyrir róttækum aðgerðum heimsins gegn loftslagsvánni.

Skýr stefnumótun
Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2009 lýsti ég yfir að málefni norðurslóða yrðu eitt af forgangsmálum Íslendinga. Síðan hefur verið unnið sleitulaust að nýrri stefnumótun. Eftir síðustu áramót mælti ég svo á Alþingi fyrir tillögu að stefnu Íslands um norðurslóðir. Strax í kjölfarið kynnti ég hana á stórri alþjóðlegri ráðstefnu í Tromsö í Noregi, þar sem ég og utanríkisráðherra Noregs reifuðum norðurstefnur frændþjóðanna.  
Markmið Íslands er jafnræði allra ríkja á svæðinu um ákvarðanir um sameiginlega hagsmuni norðursins. Einu gildir hvort þær varða umhverfisvernd, varúðarreglur um nýtingu, varnir gegn mengun og rányrkju, eða siglingaöryggi og viðbúnað til björgunar þegar umferð um svæðið eykst. Stefna Íslands þarf að styrkja Norðurskautsráðið sem vettvang umræðu og stefnumótunar um norðrið, en þar eigum við aðild ásamt sjö öðrum ríkjum sem liggja að norðurskautinu. Viðfangsefni ráðsins munu snöggtum aukast næstu áratugi og það þarf aukna þyngd.  
Í anda herlausrar þjóðar hefur Ísland sömuleiðis lagt sterka áherslu á andstöðu gegn hernaðaruppbyggingu í norðri. Við höfum líka tekið afdráttarlaust undir réttindakröfur frumbyggja á norðurslóðum.

Ítrustu varúðarreglur
Olíuslysið mikla í Mexíkóflóa setti í nýtt ljós nýtingu auðlinda undir hafsbotni Norðurhafa. Olía er náttúrulegt efni sem brotnar smám saman niður þegar hún sleppur út í umhverfið. Í fimbulkulda norðursins er niðurbrot hennar miklu hægar en sunnar á hnettinum. Efnahvatar, sem hraða niðurbrotinu, eru gagnslitlir í helkulda blánorðursins.
Ísland er á viðkvæmu svæði í þessu tilliti. Pólstraumar úr norðri ganga suður með landinu bæði að vestan og austan. Þannig má segja að Ísland sé í reynd staðsett í einu af útföllum Norður-Íshafsins. Íslendingar eru ekki á móti nýtingu á norðurslóðum, en við þurfum að beita öllum mætti utanríkisþjónustunnar til að tryggja ítrustu varúðarreglur. Þær verða að taka mið af fimbulkulda blánorðursins, fjarlægð frá byggðu bóli, og ofurviðkvæmri náttúru.


Greinin birtist í DV 28. janúar 2011.
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum