Hoppa yfir valmynd
22. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 215/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 215/2022

Miðvikudaginn 22. júní 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 20. apríl 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. mars 2022 á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri með umsókn 7. mars 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. mars 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun teldist ekki nógu ítarleg í ljósi heildarvanda kæranda og auk þess að óljóst væri hvernig fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað. B læknir gerði athugasemdir við niðurstöðuna í læknabréfi, dags. 30. mars 2022, og með bréfi stofnunarinnar, dags. 7. apríl 2022, var kæranda tilkynnt um að ný gögn gæfu ekki tilefni til breytinga frá fyrri synjun.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. apríl 2022. Með bréfi, dags. 27. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 18. maí 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að óskað sé eftir að umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri verði endurmetin þar sem hann sé búsettur í C og sé að sækja sér þau úrræði sem þar séu í boði en hann eigi erfitt með að sækja sér slíka þjónustu út fyrir sveitarfélagið.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærðar séu tvær ákvarðanir stofnunarinnar, annars vegar, dags. 16. mars 2022, og hins vegar, dags. 7. apríl 2022, sem báðar séu vegna synjunar á greiðslum endurhæfingarlífeyris. Stofnunin hafi synjað beiðnum kæranda um endurhæfingarlífeyri þar sem endurhæfing hafi ekki verið hafin á umbeðnu tímabili með fullnægjandi utanumhaldi fagaðila þar sem tekið væri heildstætt á vanda kæranda með starfshæfni að markmiði.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Lagagreinin hljóðar svo:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar.  Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.  Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga.  Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.“

Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun sé fjallað í reglugerð nr. 661/2020. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá sé tiltekið í 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar um endurhæfingarlífeyri. Í 4. og 5. mgr. sé fjallað um upphæð og skerðingu lífeyrisins en í a-lið 1. mgr. sé tekið sérstaklega fram að rétt til lífeyris eigi þeir sem hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka hafi verið óskert er þeir hafi tekið hér búsetu.

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Í 37. gr. laga um almannatryggingar sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Við mat á umsóknum um endurhæfingarlífeyri dagana 16. mars og 7. apríl 2022 hafi legið fyrir umsóknir, dags. 22. febrúar og 7. mars 2022, læknisvottorð, dags. 15. febrúar 2022, endurhæfingaráætlanir, dags. 15. febrúar 2022, og tvær áætlanir, dags. 7. mars 2022, auk læknabréfs, dags. 30. mars 2022.

Kærandi sé greindur með endurtekna geðlægðarröskun og sé yfirstandandi lota alvarleg án geðrofseinkenna. Þá séu aðrar og fleiri læknisfræðilegar greiningar að hrjá kæranda samkvæmt læknisvottorðum málsins, þ.e. kynskiptahneigð, vöðvahvöt og átröskun.

Nánar tiltekið þá komi fram í læknisvottorðunum að kærandi hafi glímt við mikinn kvíða og depurð sem barn og unglingur. Um X ára aldur hafi hann komið út úr skápnum með trans upplifun sína og hafi sótt um að komast í transferli og leiðréttingu á kyni sínu um X síðar en það hafi gengið hægt, auk þess sem Covid 19 ástand hafi seinkað framvindu málsins. Þetta hafi einnig haft aukin áhrif á andlega líðan kæranda sem hafi á köflum verið hættulega veikur sökum þessa og lengi vel ekki haft burði til að fylgja sínum málum eftir og nánast ekki sinnt daglegum athöfnum.

Með ákvörðun, dags. 16. mars 2022, hafi umsókn verið synjað þar sem við skoðun máls hafi ekki þótt vera rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun hafi ekki verið talin nægilega ítarleg í ljósi heildarvanda kæranda og óljóst væri hvernig endurhæfingin kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað, enda virtist virk endurhæfing þar sem tekið væri á heilsufarsvanda, vart hafa verið hafin. Kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því sem fram kemur í endurhæfingaráætlun B heimilislæknis, dags. 15. febrúar 2022, endurhæfingaráætlun D sjúkraþjálfara, dags. 7. mars 2022, og endurhæfingaráætlun E […], dags. 7. mars 2022.

Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 7. apríl 2022, hafi greiðslum endurhæfingarlífeyris verið synjað öðru sinni þar sem ekki hafi þótt vera rök fyrir að meta endurhæfingartímabil í ljósi þess að nýjar upplýsingar hafi ekki gefið tilefni til breytinga á fyrra mati þar sem ekki væri verið að taka á þeim heildarheilsufarsvanda sem ylli óvinnufærni með markvissum hætti með aukna starfshæfni að leiðarljósi.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því sem fram kemur í læknabréfi B, dags. 30. mars 2022.

Samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris að umsækjandi taki þátt í starfsendurhæfingu með það að markmiði að stuðla að aukinni starfshæfni einstaklings. 

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020 skuli endurhæfingaráætlun ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða hann við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða þeim heilsubresti sem valdi skertri starfshæfni hans. Leitast skuli við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni.

Greiðslur endurhæfingarlífeyris taki þannig ekki eingöngu mið af því tímabili sem viðkomandi sé óvinnufær heldur þurfi umsækjandi að taka þátt í starfsendurhæfingu með áherslu á endurkomu á vinnumarkað. Það sé mat Tryggingastofnunar að sú endurhæfing sem fram komi í endurhæfingaráætlununum uppfylli ekki skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, þar sem virk starfsendurhæfing hafi vart verið talin hafin í tilfelli kæranda.

Eins og fram komi í áðurnefndri lagagrein þurfi umsækjandi um endurhæfingarlífeyri að stunda endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem taki heildstætt á þeim heilsufarsvanda sem valdi óvinnufærni hverju sinni til að uppfylla skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris. Óvinnufærni ein og sér veiti þannig ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris, sbr. áðurnefnd 7. gr. laga um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 661/2020. 

Endurhæfingarlífeyrir taki mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri endurhæfingu með utanumhaldi fagaðila þar sem áhersla sé lögð á endurkomu á vinnumarkað. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi hluti þeirra endurhæfingarúrræða, sem lagt hafi verið upp með, vart verið hafin eða fyrirhuguð. Í því samhengi skuli nefnt að sálfræðimeðferð kæranda vegna andlegs vanda virðist eiga að vera í höndum […] en […] séu ekki heilbrigðismenntaðir fagaðilar samkvæmt Embætti landlæknis og sé því ekki hægt að horfa til þeirrar meðferðar við mat á endurhæfingu hjá kæranda, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um endurhæfingarlífeyri.

Þá skuli tekið fram að samkvæmt endurhæfingaráætlun frá sjúkraþjálfara hafi endurhæfing verið falin í hreyfistjórnunarprógrammi á eigin vegum og muni sjúkraþjálfunin sjálf hefjast eftir að hreyfistjórnunarprógrammi lýkur. Samkvæmt upplýsingum úr skráningakerfi Sjúkratrygginga Íslands hafi sjúkraþjálfun ekki verið hafin á því tímabili sem óskað hafi verið eftir endurhæfingarlífeyrisgreiðslum fyrir.

Samkvæmt endurhæfingaráætlun […] sé gert ráð fyrir viðtalstímum hálfs mánaðarlega. Þá skuli að nýju tekið fram að samkvæmt upplýsingum á vef Embættis landlæknis sé umræddur aðili ekki heilbrigðismenntaður fagaðili eins og reglugerðin um endurhæfingarlífeyrir áskilji.

Það hafi því verið mat Tryggingastofnunar 16. mars og 7. apríl 2022 að eftirfylgd hjá heimilislækni tvisvar í mánuði og hreyfiseðill hafi ekki verið nægjanlegt til að auka frekar starfshæfni kæranda þegar til lengri tíma sé litið og veiti því ekki rétt til endurhæfingarlífeyris, sbr. þau efnisskilyrði sem 7. gr. laga um félagslega aðstoð og reglugerð um endurhæfingarlífeyri setji. Umsóknum kæranda hafi því verið synjað á framangreindum forsendum.

Að lokum sé tekið fram að nýju að verði breyting á endurhæfingu kæranda eða aðstæðum þá geti hann lagt inn nýja umsókn um endurhæfingarlífeyri ásamt endurhæfingaráætlun, auk gagna frá fagaðilum sem staðfesti virka þátttöku í starfsendurhæfingu eins og tekið hafi verið fram í fyrir fram gefnum rökstuðningi í synjunarbréfum stofnunarinnar.

Einnig skuli undirstrikað að Tryggingastofnun sé framkvæmdaraðili endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 661/2020 og hafi þannig ekki úrslitaáhrif á það hvernig læknar viðkomandi aðila hagi þeirra endurhæfingu heldur geti stofnunin einungis lagt mat á hvort sú endurhæfing sem lagt sé upp með teljist nægjanlega ítarleg í ljósi heildarvanda einstaklinga. Á þeim forsendum skuli ítrekað að það sé á valdi meðferðaraðila hverju sinni, hvort heldur lækna viðkomandi eða annarra sem uppfylli skilyrðin um að teljast heilbrigðismenntaðir, að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri í úrræði sem aukið geti starfshæfni þeirra og þar með uppfyllt skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun.

Endurhæfingarlífeyrir hjá Tryggingastofnun taki mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri endurhæfingu með utanumhaldi fagaðila þar sem áhersla sé lögð á endurkomu á vinnumarkað. Jafnframt skuli endurhæfingaráætlun miða að því að taka á vanda kæranda hverju sinni og innihalda endurhæfingarþætti sem séu til þess fallnir að styðja við þá nálgun. Í máli kæranda hafi endurhæfingin ekki verið talin hafin í hans tilviki þegar mötin hafi verið gerð. Á þeim forsendum hafi kæranda verið synjað um greiðslur endurhæfingarlífeyris að svo komnu máli.

Tryggingastofnun telji ljóst að stofnunin hafi afgreitt umsókn kæranda í samræmi við innsenda endurhæfingaráætlun, lög um félagslega aðstoð, lög um almannatryggingar, reglugerð um endurhæfingarlífeyri og úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála. Í því samhengi sé meðal annars bent á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í málum nr. 47/2022, 525/2021, 237/2020, 267/2019, 381/2018 og 216/2017, en í þessum málum hafi nefndin staðfest niðurstöðu Tryggingastofnunar. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. mars 2021 um að synja umsókn kæranda um greiðslur endurhæfingarlífeyris. Ágreiningur máls þessa snýst um hvort kærandi uppfylli skilyrði um endurhæfingarlífeyri, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Á grundvelli 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð var sett reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir um mat á líklegum árangri endurhæfingar:

„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingaráætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.“

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir um endurhæfingaráætlun:

„Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Tryggingastofnun metur heild­stætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu upp­fyllt.“

Í læknisvottorði B, dags. 15. febrúar 2022, segir að sjúkdómsgreiningar kæranda séu eftirfarandi:

„Transsexualism

Fibromyalgia

Átröskun, ótilgreind“

Í sjúkrasögu segir í vottorðinu:

„Margvíslegur vandi frá barnæsku. Mikill kvíði og depurð sem barn. Mikil röskun í hormónakerfi , t.d. skjaldkirtli í barnæsku. Erfið andleg líðan síðan á unglingsárum og síðan. Um X ára aldur kom hann út úr skápnum með transtupplifun sína og sótti um að komast í transferli og leiðréttingu ca X síðar og hefur verið ströggla síðan að koma málinu áfram og hægt gengur og covid ástand hefur klárlega seinkað því líka. Þetta hefur sett álag á andlega líðan og á köflum hættulega veikur vegna depurðar og lengi vel ekki haft burði til að hnika sínum málum áfram og nánast ekki daglegum athöfnum. Hefur fengið stuðning […] og er nú bjartsýnni á stöðuna. Þegar komin í hreyfiprógram hjá hreyfistjóra og stefnum að sjúkraþjálfun í framhaldi. Hann var inn á geðdeild […] fyrir ári síðan. Hann er byrjaður að hitta E […] á F sem er þeurapeut einnig.“

Í samantekt segir:

„Núverandi vinnufærni: Óvinnufær eins og er. Þarf að vinna í sér andlega og líkamlega.

Framtíðar vinnufærni: Ekki vinnufær í bili. Þarf að ná upp uppbyggingu með stuðningi fyrst.

Samantekt: Þungur róður hjá ungum manni í transferli og með mikið þunglydni, vefjagikt og […]. Saga um mikla átröskun einnig.“

Í tillögu að meðferð segir:

„Hreyfiprógram með hreyfistjóra og einnig sjúkraþjálfara í framhaldi. Er í stuðningsviðtölum hjá […] sem er með theuapeutiska reynslu og undirritaðan í eftirfylgd ca 2x í mánuði“

Endurhæfingaráætlun B læknis, dags. 15. febrúar 2022, er samhljóða framangreindu vottorði hans, dags. 15. febrúar 2022. Samkvæmt endurhæfingaráætlun D sjúkraþjálfara, dags. 7. mars 2022, var endurhæfingartímabil kæranda áætlað frá 14. febrúar 2022 til 11. febrúar 2023. Samkvæmt áætluninni var gert ráð fyrir að kærandi væri í hreyfistjórnunarprógrammi þar sem markmiðið væri að ná að minnsta kosti 30 mínútna markvissri hreyfingu á dag, fimm daga vikunnar og hafi það gengið vel frá 14. febrúar 2022.

Í endurhæfingaráætlun E […], dags. 7. mars 2022, var endurhæfingartímabil áætlað 18. febrúar 2022 til 18. mars 2023. Samkvæmt áætluninni var gert ráð fyrir að kærandi væri í klukkustundar viðtalstímum hálfsmánaðarlega. Fram kemur að markmiðið með samtölunum sé að efla sjálfstraust og rjúfa hættu á félagslegri einangrun. Ásamt viðtölum verði einnig unnin verkefni sem hæfi viðfangsefninu hverju sinni.

Í læknabréfi B, dags. 30. mars 2022, segir:

„Búið er að sækja um með endurhæfingarvottorði og áætlun fyrir A, eftir langt tímabil lágdeyðu, depurðar og vonleysis. Nú er kominn meiri von í hann og hann að leita leiða til að gera eitthvað uppbyggilegt í sínum málum. Eins og kemur fram hefur transmeðferð einnig gengið hægt og það reynt á hann andlega. Hann er kominn með þéttan stuðning hjá E sem er […] og theurapeut og hefur gengið mjög vel með stuðningsmeðferð áður. Einnig er hann að hitta undirritaðan og hreyfistjóra og í hreyfiprógrammi þar og fer í sjúkraþjálfunarprogram í framhaldi.

Mér finnst það ábyrgðarhluti af TR að hafna bara úrræðum. Hvaða á að gera í staðinn fyrir hann.

a) ekki neitt ?

b) eitthvað sértækt en raunhæft til viðbótar í endurhæfingarplani? Og þá hvað?

c) Tr breyti fyrri ákvörðun og til að byrja með samþykki fyrrgreinda áætlun en setji frekari markmið hvert stefna ætti í framhaldi.

d) Tímabundin örorka.

Undirritaður óskar eftir að TR ákveði hvað kemur til greina af þessum atriðum.“

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort framangreind skilyrði greiðslna endurhæfingarlífeyris séu uppfyllt. Í kærðri ákvörðun Tryggingastofnunar segir að ekki hafi þótt rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem óljóst væri hvernig fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað. Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að kærandi glími við líkamlega og andlega færniskerðingu sem orsaki skerta vinnugetu. Það er mat úrskurðarnefndar að endurhæfing kæranda sé hvorki nægjanlega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi verði talið að því leyti að verið sé að vinna með starfshæfni að markmiði og endurkomu á vinnumarkað eins og 7. gr. laga um félagslega aðstoð gerir kröfur um, sbr. einnig 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020. Úrskurðarnefndin lítur meðal annars til þess að ekki verði ráðið af endurhæfingaráætluninni hvernig þeir endurhæfingarþættir sem lagt var upp með, þ.e. hreyfiprógram með hreyfistjóra, hálfsmánaðarleg stuðningsviðtöl við […] og viðtöl við heimilislækni tvisvar í mánuði eigi að stuðla að endurkomu kæranda á vinnumarkað. Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum er kærandi með andleg og líkamleg veikindi og því telur úrskurðarnefndin að framangreindir endurhæfingarþættir séu ekki nægileg endurhæfing ein og sér til að auka frekar starfshæfni kæranda. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé ekki uppfyllt í tilviki kæranda.

Í kæru er farið fram á að tekið verði tillit til búsetu kæranda úti á landi við ákvörðun endurhæfingarlífeyris. Í 7. gr. laga um félagslega aðstoð segir skýrlega að skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila. Ekki er kveðið á um neina undanþágu frá framangreindu skilyrði í lögunum. Úrskurðarnefndin telur því að almennt sé ekki heimilt að veita undanþágu frá framangreindu skilyrði á grundvelli búsetu.

Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. mars 2022 um að synja kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um endurhæfingarlífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum