Hoppa yfir valmynd
14. október 2019

Nr. 492/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 14. október 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 492/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19080024

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 14. ágúst 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Bangladess (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. ágúst 2019, um að synja honum um dvalarleyfi vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi. Til vara er þess krafist að málið verði sent aftur til Útlendingastofnunar til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna náms hér á landi þann 29. október 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. mars 2019, var umsókn kæranda synjað. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 16. maí 2019, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. ágúst 2019, var umsókn kæranda á ný synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 8. ágúst sl. og kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 14. ágúst sl. Þann 28. ágúst sl. barst kærunefnd greinargerð kæranda.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru skilyrði 55. gr. og 65. gr. laga um útlendinga reifuð. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum væri kærandi skráður í nám við Háskólann á Bifröst á haustönn 2019 og væri um að ræða nám sem stæði yfir í eina önn, frá ágúst til desember 2019. Samkvæmt staðfestingu frá skólanum sem kærandi hefði lagt fram væri hann skráður í fimm áfanga sem væru sex einingar hver. Að auki gerði háskólinn þær kröfur að umsækjandi hafi lokið í það minnsta eins árs námi á háskólastigi, hafi náð tilteknum árangri í enskuprófi og notist við eigin tölvu á meðan náminu standi.

Í gögnum sem kærandi lagði fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun kom m.a. fram að kærandi hefði lokið framhaldsskólaprófi á sviði félagsvísinda. Þá kæmi fram á umsóknareyðublaði að hann hefði lokið grunn- og meistaragráðu á háskólastigi. Meðal fylgigagna væri einnig brautskráningarvottorð og námsferilsyfirlit, með stimpli frá fulltrúum mennta- og utanríkisráðuneyta Bangladess. Kærandi var jafnframt boðaður í viðtal sem tekið var þann 26. júní sl. með myndbandsupptökubúnaði þar sem kærandi var staddur í heimaríki. Í viðtalinu hafi kærandi átt í verulegum erfiðleikum með að halda uppi einföldum samræðum á ensku. Hafi hann skilið illa þær spurningar sem bornar voru fyrir hann og hafi ekki getað svarað spurningum á borð við hvort hann myndi taka með sér tölvu til Íslands eins og háskólinn gerði kröfu um eða hvort hann myndi ljúka formlegri gráðu frá skólanum. Þá hafi kærandi átt í erfiðleikum með að greina frá menntunarbakgrunni sínum og hefðu svör hans virst í sumum tilvikum vera æfð og óviðkomandi því sem hann hefði verið spurður að. Að mati stofnunarinnar veittu framangreind sjónarmið vísbendingu um takmarkaða enskukunnáttu kæranda og hæfi hans til að stunda nám á háskólastigi á enskri tungu.

Vísaði stofnunin til þess að kærandi virtist uppfylla önnur skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 55. gr. og 65. gr. laga um útlendinga á borð við sjúkrakostnaðartryggingu og skráningu í fullt nám samkvæmt staðfestingu skóla. Þá hefði kærandi skilað gögnum sem virtust staðfesta trygga framfærslu á umsóknartímanum í samræmi við 1. mgr. 56. gr. laganna, sbr. einnig a-lið 1. mgr. 55. gr. Hafi framfærslan verið færð fram með gjaldeyrisreikningi, í banka í heimalandi kæranda, sem bókfærður væri í evrum. Hefðu fyrri framfærslugögn verið sett fram í gjaldmiðli Bangladess, taka. Veitti það vísbendingu um takmarkaðan áreiðanleika framfærslugagna. Teldi stofnunin með vísan til framangreinds og að teknu tilliti til allra gagna og aðstæðna í málinu að tilgangur kæranda með dvalarleyfisumsókn sinni væri ekki sá sami og uppgefinn væri í umsókn og að rökstuddur grunur væri til staðar um að kærandi ætlaði sér ekki að stunda fullt nám hér á landi. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi fullnægði ekki skilyrðum 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga um að tilgangur dvalar skuli vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt sé um né skilyrði 1. mgr. 65. gr. sömu laga um að kærandi ætli sér að stunda fullt nám hér á landi. Var umsókn kæranda því synjað.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð hafnar kærandi því að tilgangur dvalar sé ekki í samræmi við dvalarleyfisumsókn; að enskukunnátta hans sé takmörkuð eða að vísbending sé um að framfærslugögn séu með takmörkuðum áreiðanleika. Hafi hann sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann sé með nægjanlegt fjármagn til að framfleyta sér hér á landi. Þá komi hvergi fram í ákvæðum laga um útlendinga að það sé hlutverk Útlendingastofnunar að meta hvort umsækjandi um dvalarleyfi vegna náms uppfylli kröfur viðkomandi háskóla né að meta það hvort umsækjandi muni eiga auðvelt eða erfitt með að standast þær námskröfur sem gerðar séu til nemenda. Sé það hlutverk viðkomandi háskóla að meta það hvort umsækjandi um námsvist eigi erindi í skólann en Háskólinn á Bifröst hafi metið kæranda sem hæfan einstakling til að sækja námið. Sé tilgangur dvalar í samræmi við umsókn og að námi loknu muni hann snúa aftur til heimaríkis. Vísar kærandi loks til þess að hann sé reiðubúin að hefja nám á vorönn 2020 enda telji hann óraunhæft að geta hafið nám á haustönn 2019 úr því sem komið er.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem ætlar að stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi enda sé hann eldri en 18 ára og fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi. Fullt nám er samkvæmt ákvæðinu samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum, eða annað það nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæðinu eru m.a. að útlendingur fullnægi skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 2. mgr. 65. gr., og að útlendingur stundi fullt nám hér á landi samkvæmt staðfestingu eða vottorði frá hlutaðeigandi skóla, sbr. b-lið 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga.

Af afriti af vegabréfi kæranda, sem lagt var fram við meðferð málsins, má sjá að kærandi er eldri en 18 ára. Í vottorði frá Háskólanum á Bifröst, dags. 24. júní 2019, kemur fram að umsókn kæranda um skólavist frá ágúst til desember 2019 hafi verið samþykkt og að kærandi sé skráður í 30 ECTS eininga nám. Þar kemur jafnframt fram að kærandi fullnægi þeim hæfniskröfum sem skólinn geri í tilgreindu námi. Í vottorðum frá Háskólanum á Bifröst, dags. 1. og 30. júlí 2019, kemur fram að kærandi hafi greitt skólagjöld að fullu fyrir haustönn 2019 og hafi staðist enskupróf sem háskólinn lagði fyrir hann.

Í 65. gr. laga um útlendinga segir m.a. að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi ef hann fullnægir kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi. Af ákvæðinu leiðir að það er verkefni skólans þar sem útlendingur hyggst stunda nám að meta hvort hann fullnægir kröfum námsins. Eins og að framan greinir hefur kærandi fengið inngöngu í 30 ECTS eininga nám í Háskólanum á Bifröst að undangengnu mati skólans á hæfni kæranda til námsins og eftir greiðslu skólagjalda. Kærandi uppfyllir því skilyrði 1. mgr. 65. gr., sbr. b-lið 2. mgr. 65. gr., laga um útlendinga enda er hann eldri en 18 ára, ætlar að stunda fullt nám hér á landi og fullnægir þeim kröfum sem gerðar eru í náminu.

Kemur þá til skoðunar hvort kærandi uppfylli grunnskilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis, sbr. 55. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 1. mgr. er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við ákvæði VI-XI. kafla laganna uppfylli hann skilyrði a- til d-liðar ákvæðisins. Í 2. mgr. 55. gr. kemur fram að tilgangur umsækjenda með dvöl hér á landi skuli vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram sú niðurstaða stofnunarinnar að kærandi uppfylli ekki 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga þar sem tilgangur með umsókn um dvalarleyfi sé annar en að stunda nám hér á landi. Af ákvörðuninni verður ekki annað ráðið en að niðurstaðan sé byggð á ályktunum stofnunarinnar um takmarkaða enskukunnáttu kæranda, takmarkaðan áreiðanleika gagna sem hann hefur lagt fram og að svör hans í viðtali við Útlendingastofnun hafi ekki verið fullnægjandi.

Þótt kærunefndin taki að einhverju leyti undir með Útlendingastofnun að viðtal við kæranda veki upp spurningar um hæfni kæranda til að stunda nám hér á landi verða ályktanir um tilgang dvalar kæranda hér á landi að taka mið af öllum gögnum málsins. Þannig verður að vera upplýst að tilgangur umsækjanda með umsókn sé annar en að stunda nám hér á landi í ljósi allra gagna málsins. Í málinu liggur fyrir mat Háskólans á Bifröst, sem stutt er framlögðum gögnum, um að kærandi standist kröfur skólans um tungumálakunnáttu. Að mati nefndarinnar eru ályktanir starfsmanna Útlendingastofnunar um hæfni í tungumálum, sem byggja eingöngu á stuttu viðtali við kæranda, ekki þess eðlis að unnt sé að leggja til grundvallar við úrlausn þessa máls að tungumálakunnátta kæranda sé ófullnægjandi til að hann geti stunda nám hér á landi í ljósi annarra gagna málsins.

Þá fær kærunefnd ekki séð að mismunur í uppgefnum gjaldmiðlum á bankareikningi kæranda gefi tilefni til að draga sönnunargildi gagna um framfærslu kæranda í efa. Jafnframt fær kærunefnd ekki séð hvernig svör kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun, þótt þau séu að einhverju leyti misvísandi, geti verið grundvöllur ályktunar um tilgang dvalar kæranda hér á landi. Kærunefnd telur gögn málsins ekki benda til annars en að kærandi ætli sér að stunda nám hér á landi enda hefur hann fengið samþykkta skólavist hjá Háskólanum á Bifröst, greitt að fullu skólagjöld fyrir eina önn, auk þess sem hann lagði fram þau fylgigögn sem Útlendingastofnun óskaði eftir við meðferð umsóknar hans. Að mati kærunefndar stendur ákvæði 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga því ekki í vegi fyrir að kæranda sé veitt dvalarleyfi hér á landi að því gefnu að Háskólinn á Bifröst samþykki skólavist kæranda fyrir vorönn 2020.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi uppfylli þau skilyrði sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Er ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Ívar Örn Ívarsson


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum