Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 16. desember 2021

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Fundarmenn: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Unnur Gunnarsdóttir varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, Rannveig Júníusdóttir, framkvæmdastjóri á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hófst 11:03

1. Þróun áhættu í fjármálakerfinu og hagkerfinu
Seðlabankinn hélt kynningu á stöðu í fjármálakerfinu og hagkerfinu. Þar var farið yfir þróun hlutabréfa- og fasteignaverðs. Hlutabréfaverð er orðið hátt m.t.t. langtímaleitni en bein skuldsetning á hlutabréfamarkaði er þó ekki mikil. Eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði fer vaxandi en viðskipti eru enn fá. Farið er að hægja á viðskiptum á íbúðamarkaði sem má rekja m.a. til vaxtahækkana og þrengri skilyrða um veðsetningarhlutfall og greiðslubyrðarhlutfall. Þá hefur dregið úr framboði fasteigna. Skuldavöxtur heimila er enn umtalsverður en skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa ekki hækkað mikið. Heimilin hafa í auknum mæli fest vexti á húsnæðislánum til þess að draga úr áhrifum vaxtahækkana á greiðslubyrði en bæði greiðslubyrði og veðsetningarhlutföll hafa farið hækkandi. Fyrstu kaupendur hafa verið um 30% kaupenda en vaxtalækkanir hafa haft mikil áhrif á aðgengi þeirra að markaði. Hafa þarf í huga hvaða áhrif hækkandi vextir gætu haft á þann hóp.

Bankakerfið stendur traust og er eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka er sterk. Dregið hefur úr óvissu um eignagæði þeirra og bankarnir hafa verið að færa virðisrýrnun útlánasafna sinna til baka. Vanskil fyrirtækja eru á svipuðu róli og fyrir heimsfaraldurinn og töluverður fjöldi þeirra fyrirtækja sem höfðu verið með lán í frystingu eru byrjuð að greiða inn á lánin.

Rætt var um netöryggi og rekstraröryggi en í ágúst og september voru gerðar árásir hér á landi sem trufluðu greiðslumiðlun. Síðan þá hefur fjármálafyrirtækjum tekist að verjast árásum.

Rætt var um MREL stefnu sem Seðlabankinn hefur birt. Þar voru stigin nokkuð smærri skref í kröfum um eigið fé og hæfar skuldbindingar fjármálafyrirtækja en á hinum Norðurlöndunum, m.a. vegna mjög góðrar eiginfjárstöðu íslensku bankanna í samanburði við banka Norðurlöndunum.

2. Netöryggismál og endurskipulagning fjármálainnviða
Í um það bil eitt ár hefur staðið yfir vinna við breytingar á Reiknistofu bankanna. Stefnt hefur verið að því að gera RB að innviðafélagi sem stundar ekki samkeppnisstarfsemi. Seðlabankinn er nú orðinn hluthafi í félaginu ásamt öllum bönkunum og þremur sparisjóðum. Meðal þess sem er framundan í breyttu félagi er að halda áfram endurnýjun innviða og skoða lausnir fyrir innlenda greiðslumiðlun. Rætt var um skipulag netöryggismála hér á landi.

3. Opinber stefna um fjármálastöðugleika

Rædd voru drög að opinberri stefnu um fjármálastöðugleika sem samþykkt var að taka til endurskoðunar á fundi ráðsins sumarið 2020. Ákveðið að vinna drögin áfram fram að næsta fundi sem er í mars 2022.

4. Árangur af þjóðahagsvarúðartækjum

Farið var yfir þær leiðir sem fjármálastöðugleikaráð hefur til að meta árangur af þjóðhagsvarúðartækjum sbr. c-lið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 66/2014 og lagt fyrir næsta fund að ákveða hvernig þessi lagaskylda yrði framkvæmd.

Fundi slitið kl. 12:15


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum