Hoppa yfir valmynd
23. júní 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 23. júní

Heil og sæl,

Lítum nú yfir fréttir vikunnar, en það var ekki lognmolla á vettvangi utanríkisþjónustunnar, frekar en fyrri vikur.

Í vikunni bar hæst tveggja daga fundur varnarmálaráðherra Norðurlandanna undir merkjum NORDEFCO samstarfsins. Á fundinum voru málefni Úkraínu rædd og stuðningur Norðurlandanna við baráttu þeirra gegn innrás Rússa. Þar var samstaðan með úkraínsku þjóðinni styrkt enn frekar, en stuðningur Norðurlandanna hefur verið í formi fjárframlaga, þjálfunar, auk annars varnartengds stuðnings.

Sömuleiðis var rætt um norrænt varnarsamstarf og breytingar í ljósi þróunar á öryggismálum og væntanlegrar aðildar Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Það mun styrkja samstarf ríkjanna enn frekar og efla sameiginlegar varnir Norðurlandanna. Utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýtti tækifærið á fundinum til að ítreka stuðning Íslands við aðild Svía að bandalaginu og lagði áherslu á mikilvægi þess að aðildarumsókn þeirra yrði samþykkt fyrir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Vilníus í júlí.

Einnig var rætt um vinnu við mótun framtíðarstefnu fyrir norræna varnarsamstarfið og aukna samræmingu á varnarviðbúnaði ríkjanna. Lesa má sameiginlega yfirlýsingu frá fundinum hér.

 

 

Þá sótti utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Grænland heim í vikunni. Í þessari opinberu heimsókn hitti Þórdís utanríkisráðherra Grænlands, Vivian Motzfeldt, þar sem meðal annars var rætt um framkvæmd samstarfsyfirlýsingar landanna tveggja, sem undirrituð var í október síðastliðnum. Einnig var rætt um frekara samstarf á sviði háskóla og ferðaþjónustu, eflingu viðskipta á milli landanna og möguleg vistaskipti milli ráðuneyta landanna. Sömuleiðis var gefin út yfirlýsing um stofnsetningu starfshóps til að kanna fýsileika þess að gera viðskiptasamning milli Íslands og Grænlands.

Ráðherra heimsótti háskóla Ilisimatusarfik, háskóla Grænlands og átti þar fund með rektor skólans. Sömuleiðis sótti hún heim menningarhúsið í Nuuk, náttúrufræðistofnun landsins og hitti forstöðumenn atvinnulífsins í Grænlandi.

 

 

Á vettvangi Heimsljós, upplýsingaveitu um þróunar- og mannúðarmál, kom fram að Ísland hefði aukið framlag sitt til UNHCR í ljósi alvarlegrar stöðu mannúðarmála vegna átakanna í Súdan. Utanríkisráðherra greindi frá þessu í gegnum fjarfundarbúnað á framlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf. Aukaframlagið mun nema um fimmtíu milljónum króna og mun allt renna til UNHCR, sem leiðir viðbrögð Sameinuðu þjóðanna á vettvangi.

Frá því að átökin brutust út í Súdan í apríl hafa 1,8 milljónir manna þurft að flýja heimili sín og um 400 þúsund manns leitað skjóls í nágrannaríkjum, sem eru misvel búin til að taka á móti flóttafólki.

Kíkjum nú á hvað var um að vera á vettvangi sendiskrifstofanna.

Sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu, Hannes Heimisson, afhenti forseta Úkraínu, Volodymyr Selenskí, trúnaðarbréf sitt við hátíðlega athöfn í Kænugarði nú í vikunni. Hannes nýtti tækifærið og hitti varautanríkisráðherra Úkraínu, Yevhen Perebyinis og ræddi við hann um frekara samstarf Íslands og Úkraínu.

Í París tók sendiherra Íslands og fastafulltrúi gagnvart OECD, Unnur Orradóttir Ramette, þátt í að setja af stað vinnu við greiningu OECD á launabili milli kynjanna innan aðildaríkja stofnunarinnar. Unnur flutti sömuleiðis opnunarávarp í pallborði sérfræðinga um málið.

Sendiherra Íslands í Noregi, Högni Kristjánsson, hitti í vikunni tilvonandi sendiherra Noregs á Íslandi, Cecilie A. Willoch. Þar ræddu þau um þétt og gott tvíhliða samstarf landanna og fyrirhuguð verkefni til að styrkja enn frekar samstarf ríkjanna og sendiráðanna tveggja.

Þá tók sendiherran einnig þátt í að fagna Oslo Pride með öðrum sendiherrum sem hafa aðsetur í Osló, en hátíðin fer fram í Osló í vikunni.

Aðalræðisskrifstofa Íslands í Nuuk óskaði Grænlendingum til hamingju með þjóðhátíðardaginn sinn. Grænlendingar fagna þjóðhátíðardegi sínum á lengsta degi ársins, 21. júní og hafa gert frá 1985.

Sendiráðið í Danmörku fagnaði því 19. júní að 108 ár væru frá því að Kristján X. konungur undirritaði lagabreytingu sem veitti konum 40 ára og eldri kosningarétt í kosningum til Alþingis.

Í Berlín bauð sendiherra Íslands í Þýskalandi, María Erla Marelsdóttir til morgunverðarfundar ásamt forsetafrú Íslands, Elizu Reid með útvöldum hópi úr stjórnmálum, menningar- og viðskiptageiranum í Þýskalandi í sendiráðinu í Berlín. Farið var yfir árangur og áskoranir í jafnréttismálum á Íslandi og í Þýskalandi

Þá tók sendiráðið á móti myndarlegum hópi íþróttafólks sem tekur þátt í Heimsleikum fatlaðra (Special Olympics), sem að þessu sinni eru haldnir í Berlín. Eliza Reid, forsetafrú, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, fylgdu íslenska hópnum við setningu leikanna á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Alls taka yfir sjö þúsund iðkendur þátt í leikunum, sem er stærsti íþróttaviðburður Þýskalands frá Ólympíuleikunum í München 1972.

Það var svo á þriðjudaginn sem íslensku fyrirtækin Kerecis og Össur kynntu nýjustu tækni á sínu sviði læknavísinda fyrir samstarfsaðilum í Þýskalandi og fjölluðu meðal annars um meðhöndlun særðra frá stríðinu í Úkraínu. Sendiherra Íslands í Berlín og forsetafrú Íslands opnuðu viðburðinn sem bar yfirskriftina „Innovation from Iceland with local partners“, en hann sóttu einnig læknar frá sjúkrahúsum í Þýskalandi auk aðila úr stjórnmála- og fjölmiðlageiranum.

Fastanefnd Íslands gagnvart Evrópuþinginu í Strassborg hélt einnig uppá kvennréttindadaginn þann 19. júní.

 

 

Fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu Þjóðunum í New York hélt uppá fimmtán ára afmæli LGBTI Core Group innan stofnunarinnar, en Ísland hefur átt sæti í nefndinni. Anna Pála Sverrisdóttir, sendiráðunautur í fastanefndinni, fór í stuttu myndbandi yfir áfanga sem hafa náðst í baráttu fyrir réttindum LGBTQI+ fólks á Íslandi.

 

Það verður þá ekki fleira að sinni. Við óskum samstarfsfólki góðrar helgar og biðjum ykkur vel að lifa.

Upplýsingadeildin

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum