Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2021 Innviðaráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Viljayfirlýsing um sameiginlega úttekt á þróun skólastarfs undirrituð

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra undirrituðu viljayfirlýsinguna. - mynd

Viljayfirlýsing um sameiginlega úttekt á þróun skólastarfs var undirrituð í gær í tilefni þess að aldarfjórðungur er nú liðinn frá því að rekstur grunnskólans fluttist alfarið frá ríki til sveitarfélaga. Úttektin verður unnin í samvinnu sveitarfélaga og ríkisins. Það voru þau Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra sem undirrituðu viljayfirlýsinguna. 

Úttektinni er ætlað að svara spurningunni: Með hvaða hætti geta ríki og sveitarfélög hagnýtt reynslu af yfirfærslu grunnskólans vegna samstarfs um innleiðingu nýrrar menntastefnu til 2030, nýrra laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna og aðgerða í byggðaáætlun um skólaþjónustu, starfsþróun og þverfagleg landshlutateymi?

Ný menntastefna til 2030, nýsamþykkt lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna og þingsályktunartillaga um stefnumótandi byggðaáætlun næstu ára boða bætta og samhæfðari þjónustu þvert á fagsvið í þágu barna og fjölskyldna óháð búsetu, með áherslu á snemmtækan stuðning sem fram fer að mestu leyti innan leik- og grunnskóla. Niðurstöður slíkrar úttektar geta gefið mikilvægar upplýsingar sem nýtast við innleiðingu þeirra áætlana ásamt vísbendingum um þróun og framgang stefnumótandi áætlana ríkis og sveitarfélaga, hvað auðveldar framgang þeirra og hvaða hindranir þurfi að yfirstíga. Áætlað er að úttektin verði unnin á næsta ári.

Mögulegir þættir slíkrar úttektar gætu verið:

  • Kortlagning og þróun skólaþjónustu í átt að samhæfingu þvert á fagsvið
  • Þróun laga, reglugerða og námskráa
  • Fagleg stjórnun
  • Þróun námsárangurs
  • Þróun rekstrarkostnaðar
  • Starfsþróun og hæfni starfsfólks

Stefnt er að því að leitað verði til innlendra aðila og/eða stofnana um framkvæmdina og að hún byggi stórum hluta til á fyrirliggjandi gögnum, rannsóknum og viðtölum við þá sem skipuðu stærstu hlutverkin við undirbúning og framkvæmd yfirfærslunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum