Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Rauði krossinn á Íslandi sendir 28 milljónir króna til Sómalíu

Ljósmynd: Rauði krossinn. - mynd

Rauði krossinn á Íslandi sendi nýverið um 28 milljónir króna  til Sómalíu til að mæta alvarlegum fæðuskorti í landinu. Fjármagnið verður notað til að veita lífsbjargandi mannúðaraðstoð á svæðinu með því að gefa fólki aðgang að vatni, matvælum, fjárhagsaðstoð og heilbrigðisaðstoð.

Tugmilljónir í fjölda ríkja í Afríku sunnan Sahara standa frammi fyrir alvarlegum fæðuskorti, en ástandið er einna verst í Sómalíu, þar sem milljónir eru á barmi hungursneyðar og fæðuskorturinn hefur leitt til ýmissa félagslegra vandamála. Ýmsir áhrifaþættir hafa skapað þessar erfiðu aðstæður, fyrst og fremst langvinnir þurrkar sem orsakast af loftslagsbreytingum og vopnuðum átökum í Evrópu sem hamla matvælaflutningum.

„Það ástand sem við erum að verða vitni að sýnir okkur glögglega að heimurinn er ein heild og það sem gerist á einu svæði getur hæglega haft áhrif á önnur svæði jafnvel þótt þau séu víðsfjarri í kílómetrum talið,“ segir Atli Viðar Thorstensen sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins á Íslandi.

 „Átökin í Úkraínu, ofan í miklar og neikvæðar loftslagsbreytingar, hafa þannig skert aðgengi milljóna að stöðugri og næringarríkri fæðu og er ástandið víða svo alvarlegt að mikill fjöldi barna og fullorðinna stendur jafnvel frammi fyrir hungurdauða verði ekkert að gert. Því miður hafa átökin í Úkraínu einnig haft þau áhrif að kastljós fjölmiðla og áhugi almennings nær æ sjaldnar til annarra neyðarástanda, jafnvel af þeirri stærðargráðu sem margir tugir milljóna standa frammi fyrir í Afríku,“ segir hann.

„Við hjá Rauða krossinum viljum með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins og Mannvina Rauða krossins leggja okkar lóð á vogarskálarnar og hvetja almenning á Íslandi til að leggja okkur lið svo fólk geti haft val um að dvelja á sínum heimaslóðum í stað þess að leggja mögulega á flótta með þeim hættum sem því fylgja,“ segir Atli Viðar að lokum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur
16. Friður og réttlæti
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum