Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2022 Matvælaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Matvælaráðherra sækir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Egyptalandi

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mun fyrir hönd íslenskra stjórnvalda sækja tuttugasta og sjöunda aðildarríkjafund Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP27) sem stendur yfir 6.-18. nóvember í Sharm El Sheikh í Egyptalandi. Þar mun ráðherra ávarpa ráðherrafund og taka þátt í hliðarviðburðum. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra mun ávarpa viðburð á vegum Hringborðs Norðurslóða í gegnum streymi.

Sendinefnd Íslands er skipuð 17 fulltrúum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, matvælaráðuneytinu, Umhverfisstofnun og Orkustofnun. Þá styrkir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fulltrúa ungmenna til þátttöku á fundinum og er þetta í annað sinn sem fulltrúi ungmenna er í opinberu sendinefndinni.

Ísland leggur áherslu að ekki verði vikið frá markmiði Parísarsamningsins um að halda hlýnun jarðar frá iðnbyltingu innan við 1,5 °C, en samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna munu núverandi loforð ríkja um samdrátt í losun ekki duga til að markmiðið náist.

Þá styður Ísland nú í fyrsta sinn Aðlögunarsjóðinn með framlögum sínum og eins hafa framlög til Græna loftslagssjóðsins verið aukin. Ísland á nú varamann í stjórn sjóðsins og getur því betur fylgst með og haft áhrif á ákvarðanatökur innan sjóðsins.

Auk hinnar formlegu sendinefndar sækja þingmenn og fulltrúar frá félagasamtökum og fyrirtækjum viðburði sem tengjast loftslagsráðstefnunni beint eða óbeint, en um 50 þátttakendur frá Íslandi eru skráð á COP27 og tengda viðburði. Áætlað er að í kringum 20 þúsund manns taki þátt í loftslagsráðstefnunni og tengdum viðburðum í Sharm El Sheikh.

Nánari upplýsingar um fundinn má finna á heimasíðu COP 27.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

11. Sjálfbærar borgir og samfélög
14. Líf í vatni
15. Líf á landi
17. Samvinna um markmiðin
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
12. Ábyrð neysla og framleiðsla

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum