Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2017 Utanríkisráðuneytið

Tilskipun Bandaríkjaforseta mótmælt

Gudlaugur Thor og Benjamin Ziff
Guðlaugur Þór og Benjamin G. Ziff

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, kom í morgun á framfæri mótmælum íslenskra stjórnvalda við tilskipun Bandaríkjaforseta um bann við komu flóttafólks og borgara sjö ríkja til Bandaríkjanna á fundi með Benjamin Ziff, aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, sem staddur er hér á landi. Gerði ráðherra meðal annars grein fyrir þeim afleiðingum sem bannið hefði hérlendis á íslenska ríkisborgara með tvöfalt ríkisfang sem eiga uppruna sinn að rekja til þeirra ríkja sem bannið nær til.

"Bandaríkin hafa ætíð, og framar flestum öðrum, tekið opnum örmum á móti innflytjendum sem hafa mótað samfélagsgerðina þar í landi með mjög jákvæðum og afgerandi hætti. Tilskipun Bandaríkjaforseta er því mjög fjarri því sem við höfum átt að venjast frá Bandaríkjunum, og þeim gildum sem við eigum sameiginleg. Í því felast mikil vonbrigði og því var mikilvægt að koma skilaboðum á framfæri með skýrum hætti og milliliðalaust. Sá er vinur er til vamms segir," segir Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðherra kom einnig á framfæri mótmælum við tilskipun Bandaríkjaforseta um að ekki megi veita fé til samtaka eða stofnana sem veita upplýsingar um fóstureyðingar eða veita aðgang að öruggum fóstureyðingum erlendis.
"Aðgengi að öruggum fóstureyðingum er mikilvægt mannréttinda- og heilbrigðismál og því veldur sú tilskipun Bandaríkjaforseta sömuleiðis miklum vonbrigðum," segir Guðlaugur Þór.

Á fundinum voru ennfremur öryggis- og varnarmál og norðurslóðamál til umræðu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira