Hoppa yfir valmynd
26. júní 2002 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/2002

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 1/2002:

 

A

gegn

Síld og fiski ehf.

 --------------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 26. júní 2002 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

 Með bréfi dags. 19. febrúar 2002, sem barst kærunefnd jafnréttismála 21. febrúar sama ár, óskaði kærandi, A, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort uppsögn úr starfi hjá Síld og fiski ehf., brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Síld og fiski ehf., með bréfi, dags. 8. apríl 2002. Var með vísan til laga nr. 96/2000 óskað eftir afstöðu til þess hvort uppsögn kæranda úr starfi hjá Síld og fiski ehf. hafi brotið gegn ákvæðum laganna.

Með bréfi Guðrúnar B. Bjarnadóttur, hdl. f.h. Síldar og fisks ehf., dags. 29. apríl 2002 bárust svör við framangreindum fyrirspurnum.

Með bréfi, dags. 6. maí 2002, var kæranda kynnt umsögn Síldar og fisks ehf. og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Sú umsögn var veitt með bréfi, dags. 13. maí 2002.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Kærandi flutti ásamt sambýlismanni sínum og barni þeirra að B í september 1999. Á sama tíma hófu þau störf hjá fyrirtækinu Síld og fiski ehf. sem rekur svínabú á staðnum. Hún starfaði sem matráðskona, en fyrrverandi sambýlismaður hennar sinnti akstri fyrir búið, slátrun og annarri tilfallandi vinnu.

Í nóvember 2001 slitu kærandi og sambýlismaður hennar samvistum. Eftir sambúðarslitin flutti sambýlismaður kæranda af staðnum. Þann 30. nóvember 2001 fékk kærandi uppsagnarbréf þar sem tilkynnt var um uppsögn með samningsbundnum eins mánaðar uppsagnarfresti. Engar ástæður voru tilgreindar sérstaklega fyrir uppsögninni.

Fljólega eftir uppsögn úr starfi flutti kærandi af staðnum og í kjölfar þess flutti fyrrverandi sambýlismaður kæranda í þá íbúð sem þau höfðu áður haft til umráða.

 

III

Sjónarmið kæranda

Kærandi byggir kæru sína á því að kynferði sitt hafi ráðið því að henni var sagt upp starfi hjá Síld og fiski ehf., en ekki fyrrverandi sambýlismanns hennar. Kærandi tekur þó fram að eftir samúðarslit þeirra hafi þau ekki getað unnið saman og hafi hann flutt af heimili þeirra eftir sambúðarslitin.

Kærandi kvaðst hafa innt bústjórann, sem er faðir fyrrverandi sambýlismanns kæranda, um ástæður fyrir uppsögninni. Hann hafði sagt að nýta ætti húsnæðið betur í kjölfar breytinga hjá fyrirtækinu. Kærandi mótmælir því að uppsögnin hafi átt sér með hennar samþykki. Einnig kveður kærandi það ósannindi að hún hafi verið í hálfu starfi, hún hafi verið í fullu starfi.

Kærandi kveður að sér hafi ekki verið boðið starfi fyrrverandi sambýlismanns síns, sem fólst m.a. í því að aka sendibifreið fyrirtækisins við útkeyrslu kjöts, en hún hafi haft réttindi til slíkra starfa. Þannig taldi hún sig hafa getu til að sinna starfi fyrrverandi sambýlismanns síns en það hafi henni aldrei staðið til boða.

 

IV

Sjónarmið kærða

Síld og fiskur ehf. byggir málatilbúðnað sinn á því, að kynferði hafi engu ráðið um það þegar kæranda var sagt upp starfi hjá fyrirtækinu.

Í bréfi Síldar og fisks ehf., dags. 29. apríl 2002, er vísað til þess að bústjórinn hafi litið svo á að vilji kæranda hafi staðið til þess að flytja af staðnum, enda hefði hún lýst því yfir að hún hygðist flytja brott. Fyrirtækið taldi að mjög erfið staða hefði komið upp við sambúðarslit kæranda og fyrrverandi sambýlismanns hennar. Legið hefði fyrir að annaðhvort kærandi eða fyrrverandi sambýlismaður hennar yrði að láta af störfum og flytjast brott.

Fyrrverandi sambýlismaður kæranda hafi verið hægri hönd bústjóra, sinnt akstri og tilfallandi vinnu við búið. Hluti af því hafi verið að vinna líkamlega erfiða vinnu við slátrun á svínum og fleira. Hann hafi einnig lært bifvélavirkjun sem hafi komið sér vel fyrir búið. Hann hafi því mun meiri ábyrgð í starfi og verið verðmætari starfskraftur en kærandi, sem einungis hafi verið í hálfu starfi.

Fyrirtækið kveður ljóst að kærandi hafi hvorki getað gengið í störf fyrrverandi sambýlismanns síns né hafi verið auðvelt að finna annan starfsmann sem sinnt gæti störfum hans. Kærandi hafi einungis verið í hálfu starfi og mikil eftirspurn eftir slíkum störfum, þannig að ekki hefði verið erfitt að ráða nýjan starfsmann í stað kæranda. Því hafi sú ákvörðun verið tekin að segja kæranda upp starfi.

Fyrirtækið telur það einnig hafa haft áhrif á ákvörðun sína að um nokkurt skeið hafi gætt óánægju með störf kæranda og viðhorfs hennar til starfs síns. Hafi slök mæting hennar til vinnu og skapgerðarbrestir haft neikvæð áhrif á starfsandann. Vegna þessa andrúmslofts sem skapast hafði á vinnustaðnum við sambúðarslitin, og til þess að skapa vinnufrið á staðnum, hafi verið ákveðið að þangað til kærandi flytti brott, myndi fyrrverandi sambýlismaður kæranda fá frí frá störfum. Hann hafi farið í launalaust leyfi frá störfum í u.þ.b. tvær vikur.

 

V

Niðurstaða

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að tilgangur laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnun tækifæra kvenna og karla. Í því skyni þurfi að bæta sérstaklega stöðu kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Fyrir liggur í gögnum málsins að kærandi og sambýlismaður hennar gegndu sitt hvoru starfinu hjá Síld og fiski ehf., þegar kom að hinni umdeildu uppsögn hinn 30. nóvember 2001, og voru störfin ólík. Uppsögnin átti sér stað með samningsbundnum fyrirvara. Ekki verður annað ráðið en að meginástæða uppsagnarinnar hafi verið sambúðarslit kæranda og tilvísaðs samstarfsmanns hjá Síld og fiski ehf. og þær breytingar á aðstæðum sem af því leiddu. Með vísan til þessa þykir ekki sýnt að kynferði kæranda hafi þarna skipt sköpum. Verður því ekki talið að við uppsögnina hafi verið brotið gegn IV. kafla laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það álit kærunefndar jafnréttismála að Síld og Fiskur ehf. hafi ekki brotið gegn IV. kafla laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar kæranda, A, var sagt upp störfum 30. nóvember 2001.

 

 

Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Stefán Ólafsson

  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira