Hoppa yfir valmynd
26. júní 2002 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/2002

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 4/2002:

 

A

gegn

Golfklúbbi Reykjavíkur

--------------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 26. júní 2002 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með bréfi, dags. 11. mars 2002, sem barst kærunefnd jafnréttismála sama dag, óskaði kærandi, A, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort lægra árgjald kvenna en karla hjá Golfklúbbi Reykjavíkur brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Golfklúbbi Reykjavíkur með bréfi, dags. 12. apríl 2002. Óskað var eftir umsögn klúbbsins um erindið.

Með bréfi formanns Golfklúbbs Reykjavíkur, dags. 18. apríl 2002, bárust svör við framangreindu erindi.

Með bréfi, dags. 6. maí 2002, var kæranda kynnt umsögn Golfklúbbsins og óskað eftir frekari athugasemdum. Sú umsögn var veitt með bréfi, dags. 14. maí 2002.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Konur og karlar hjá Golfklúbbi Reykjavíkur greiða ekki sömu árgjöld. Karlar á aldrinum 21-66 ára greiða fullt árgjald, 48.000 krónur, en konur á sama aldri greiða 38.000 krónur. Börn, 14 ára og yngri, greiða 16.000 krónur, en allir aðrir félagsmenn, unglingar 15-20 ára og öldungar 67 ára og eldri, greiða 24.000 krónur.

Árgjald kvenna hefur lengi verið lægra en árgjald karla og lengst af var það 50% af árgjaldi karla, en bilið hefur minnkað með árunum. Tilgangurinn með lægri árgjöldum kvenna var að auka hlut kvenna í golfíþróttinni. Hlutfall kvenna í Golfklúbbi Reykjavíkur var 18% árið 1999, 21% árið 2001, en í ár, 2002, er hlutfall kvenna í klúbbnum 24%. Félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi félagsins.

 

 III

Sjónarmið kæranda

Kærandi kveður það hafa tíðkast hjá Golfklúbbi Reykjavíkur um árabil að karlar greiði hærra árgjald en konur. Hann hafi fengið þær skýringar hjá klúbbnum að um sé að ræða jákvæða mismunun og að tilgangurinn sé að fjölga konum í klúbbnum. Kærandi telur þetta ranglæti og ekki rétta leið til þess að stuðla að framangreindu markmiði.

Kærandi kveður engan fjölskyldu- eða hjónaafslátt vera veittan hjá golfklúbbnum. Bent hafi verið á að kvennaafsláttur komi í mörgum tilvikum í stað fjölskylduafsláttar, sé maki einnig í klúbbnum. Í þessu sambandi bendir kærandi á að þannig sé ekki aðeins verið að mismuna konum og körlum heldur líka giftum konum og ógiftum. Þá vekur kærandi athygli á mismunun þegar í hlut eiga samkynhneigð pör, og nefnir hann sem dæmi að samkynhneigt kvenpar greiði 20.000 krónum lægra árgjald en samkynhneigt karlpar. Það að konur leiki á styttri velli en karlar þykja kæranda ekki sannfærandi rök fyrir því að mismuna kynjunum fjárhagslega.

Kærandi bendir á varðandi yfirlýstan tilgang klúbbsins, að stuðla að fjölgun kvenna í golfi, að hann hafi efasemdir um það sé hinn raunverulegi tilgangur. Konur njóti til dæmis ekki forgangs á biðlistum, nema þá sem makar, auk þess sem stúlkur greiði sama gjald og piltar fram til 21 árs aldurs. Þá greiði karlar og konur, 67 ára og eldri, sama gjald.

 

IV

Sjónarmið kærða

Í bréfi Golfklúbbs Reykjavíkur, dags. 18. apríl 2002, kemur fram að markmiðið með lægra árgjaldi kvenna sé að laða konur til þátttöku í golfi. Í bréfinu kemur fram að undanfarin ár hafi verið unnið markvisst að því að minnka mun á árgjöldum karla og kvenna hjá klúbbnum. Þannig hafi gjöldin verið hækkuð um sömu krónutölu við endurskoðun. Munurinn milli árgjalda kvenna og karla var áður 50% en sé nú ríflega 20% og þannig hafi munurinn minnkað. Þá er bent á varðandi lægra árgjald kvenna, að konur leiki styttri völl en karlar.

Fram kemur í bréfi Golfklúbbs Reykjavíkur að samkvæmt lögum félagsins sé það verkefni aðalfundar að ákveða félagsgjöld, en á aðalfundi hafi allir lögráða félagsmenn atkvæðisrétt. Félagsmenn ákveði því sjálfir árgjöldin.

Einnig er bent á að biðlisti hafi myndast hjá klúbbnum sökum mikillar ásóknar, en makar félagsmanna hafi forgang við inngöngu í klúbbinn. Af kynjaskiptingu klúbbsins leiði því að fleiri konur en karlar hafi forgang til inngöngu í klúbbinn.

 

V

Niðurstaða

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að tilgangur laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnun tækifæra kvenna og karla. Í því skyni þurfi að bæta sérstaklega stöðu kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Í bréfi Golfklúbbs Reykjavíkur, dags 18. apríl 2002, kemur fram að árgjald kvenna á aldrinum 21?66 ára hafi um langt skeið verið lægra en árgjald karla. Lengst af hafi munurinn verið 50%, þ.e. konur greiddu hálft árgjald karla. Markmiðið hafi m.a. verið að laða konur að golfíþróttinni. Upplýst er að hlutfall kvenna í klúbbnum hafi aukist jafnt og þétt á undanförnum misserum, frá því að vera 18% árið 1999 uppí 24% á árinu 2002. Fram kemur að það sé vilji stjórnar golfklúbbsins að auka hlutfall kvenna í klúbbnum, en mismunur á árgjöldum karla og kvenna hafi minnkað undanfarin ár og að munurinn sé nú 10.000 kr., eða ríflega 20%.

Þrátt fyrir það meginsjónarmið laga nr. 96/2000, að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnun tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, þykja framangreindar ráðstafanir, sem ná til tiltekins aldurshóps kvenna, fela í sér jákvæða hvatningu til þátttöku þessa aldurshóps kvenna í félaginu og þar með í golfíþróttinni.

Með vísan til þessa og með hliðsjón af 2. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000, þykir ekki sýnt, eins og hér stendur á, að ákvörðun félagsfundar um lægri félagsgjöld kvenna á aldrinum 21?66 ára í Golfklúbbi Reykjavíkur feli í sér brot á ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, nr. 96/2000.

 

 

 Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Stefán Ólafsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira