Hoppa yfir valmynd
14. maí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 37/2001

Þriðjudaginn, 14. maí 2002

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

 

Þann 21. ágúst 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 8. ágúst 2001.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks vegna náms.

 

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 27. mars 2001, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslu fæðingarstyrks vegna náms. Með bréfi dags. 10. maí 2001 tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda að stofnunin hefði komist að sömu niðurstöðu og áður þrátt fyrir viðbótargögn frá kæranda.

 

Í rökstuðningi með kæru kæranda segir m.a.:

"Ég var við nám í Háskóla Íslands haustið 2000. Þá önn var ég í 4 áföngum, samtals 12 einingum. Ég mætti með vottorð fyrir jólaprófin en vegna mistaka gleymdist að skrifa einn áfangann á vottorðið og fékk ég því fjarveru í honum. Þess vegna fékk ég úrskurð um einungis hálfan fæðingarstyrk. Eftir það fékk ég vottorð fyrir fulla skólavist hjá nemendaskránni. Þá voru komin inn 2 vottorð frá H.Í. Nýja vottorðið var ekki tekið gilt þar sem upplýsingar fengust símleiðis frá nemendaskrá að ég hefði bara verið í 9 einingum. Starfsmaðurinn þekkti ekki til málsins og ekki er hægt að breyta þessu í tölvunni hjá þeim. Fékk ég því aftur synjun um fullan fæðingarstyrk. Ég skilaði inn yfirliti um skólaferil minn og þar á þetta að koma allt skýrt fram.

Tel ég nú að inni hjá Tryggingastofnun séu nóg af gögnum sem sýna fram á þennan misskilning og að hægt verði að leiðrétta þetta."

 

Með bréfi, dags. 23. janúar 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 5. febrúar 2002. Í greinargerðinni segir:

"A óskar endurskoðunar á greiðslum í fæðingarorlofi og að henni verði greiddur fæðingarstyrkur námsmanna, í stað lægri styrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

 

Samkvæmt 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks.

Samkvæmt 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 telst fullt nám vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Leggja skal fram staðfestingu á námi frá viðkomandi skóla og er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur.

 

A sótti um fæðingarstyrk til Tryggingastofnunar þann 16. febrúar 2001. Með umsókn hennar fylgdi vottorð frá Háskóla Íslands sem staðfesti að hún hefði verið í fullu námi vormisserið 2000 og hálfu námi haustið 2000. Umsókninni var synjað þar sem skilyrðið um 75-100% nám var ekki uppfyllt.

 

Nýtt vottorð um skólavist barst lífeyristryggingasviði 26. apríl 2001. Þar sem staðfest að um fullt nám hefði verið að ræða bæði vor- og haustmisseri 2000. Vegna misræmis í vottorðunum hafði þáverandi deildarstjóri fæðingarorlofsmála símasamband við nemendaskrá Háskóla Íslands. Þá fengust þær upplýsingar að A hefði verið skráð í fullt nám en ekki lokið prófum vegna veikinda á meðgöngu. Litið var svo á að ekki væri um fullt nám að ræða í skilningi ffl. og rgl. nr. 909/2000 og því hafnað að breyta upphaflegri afgreiðslu umsóknarinnar.

 

Með kæru A til úrskurðarnefndar foreldra- og fæðingarorlofsmála fylgdi yfirlit yfir námsferil hennar, sem ekki lá fyrir á lífeyristryggingasviði við afgreiðslu umsóknar hennar. Á yfirlitinu kemur fram að hún var skráð í 6 námsgreinar á haustmisseri 2000, alls í 17 einingar. Engu prófi var þó lokið, fjarvistir skráðar í tveimur prófum, úrsögn úr einu og vottorð í þremur, sem væntanlega þýðir að framvísað hefur verið læknisvottorðum vegna fjarveru frá þeim prófum.

 

Lífeyristryggingasvið lítur svo á að skráning í nám veiti ekki ein og sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks námsmanna, heldur verði að vera um raunverulegt nám að ræða. Heimild 2. mgr. 14. gr. rgl. nr. 909/2000 til að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur þegar sótt er um fæðingarstyrk námsmanna rennir stoðum undir þetta álit, sem einnig hlýtur að samræmast tilgangi ffl. með því að greiða námsmönnum hærri fæðingarstyrk en þeim sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

 

A sýnir enga námsframvindu frá því á vormisseri 2000 og fram til þess að barn hennar fæðist í mars 2001. Að mati lífeyristryggingasviðs uppfyllir hún því ekki skilyrði ffl. um fullt nám og á ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður."

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. febrúar 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

 Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

 

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem námsmanns.

 

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skulu foreldrar í fullu námi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í þrjá mánuði til viðbótar, sem annað foreldri getur fengið í heild eða foreldrar skipt honum með sér.

 

Fullt nám í skilningi framangreindra laga og reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks telst vera 75100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

 

Barn kæranda fæddist 15. mars 2001. Kærandi var skráð í Háskóla Íslands á vor- og haustmisseri 2000, svo og á vormisseri 2001. Yfirlit um námsferil frá Háskóla Íslands yfir framangreind misseri liggur fyrir.

 

Á vormisseri 2000 lauk kærandi einungis tveimur fögum, fjarvera skráð í tveimur fögum og úrsögn úr einu fagi. Á haustmisseri var vottorði framvísað í þremur fögum, úrsögn úr einu fagi og fjarvera í tveimur fögum. Á vormisseri 2001 var skráð úrsögn úr fimm fögum og fjarvera í tveimur fögum.

 

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur. Með hliðsjón af því verður ekki talið að skráning í nám geti ein sér talist nægjanleg til þess að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanns í fæðingarorlofi óháð framvindu náms. Við mat á því hvort kærandi hafi verið í fullu námi og eigi rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður er því ekki unnt að líta framhjá námsárangri hennar í Háskóla Íslands á viðmiðunartímabilinu. Með hliðsjón af því sem fram kemur um námsárangur í gögnum málsins verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði um að hafa verið samfellt í fullu námi í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

 

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu í fæðingarorlofi til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum