Hoppa yfir valmynd
5. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Óvissa um næstu máltíð nýr veruleiki margra barna

Ljósmynd: Save the Children - Barnaheill. - mynd

Alþjóðasamtökin Barnaheill – Save the Children minna á að milljónum barna hafi um heim allan verið ýtt út í fátækt með miklu fæðuóöryggi og óvissu um næstu máltíð, nú þegar ár er liðið frá því heimsfaraldur kórónuveirunnar hófst. „Í mörgum löndum hafa skólar verið lokaðir í heilt ár sem hefur skert aðgengi milljóna barna að menntun en samanlagt hafa börn út um allan heim misst 112 milljarða daga úr skóla frá því að faraldurinn hófst. Menntun barna og fæðuöryggi er eitt af meginstoðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem öll börn í heiminum eiga rétt á,“ segir í frétt Barnaheilla.

Samtökin benda á að að heil kynslóð barna hafi orðið fyrir áhrifum heimsfaraldursins og börn hafi þurft að aðlaga líf sitt að nýjum takmörkunum sem hafi meðal annars haft áhrif á skólagöngu þeirra, efnahag fjölskyldna þeirra, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, auk þess sem mörg börn hafi misst tengsl við fjölskyldu og vini. Samtökin segja enn fremur að sálfræðilegar afleiðingar heimsfaraldursins hafi einnig tekið sinn toll af heilsu barna, sem hafi valdið kvíða og þunglyndi hjá mörgum börnum.

„Alþjóðasamtökin Barnaheill – Save the Children hafa unnið í fremstu víglínu við það að aðstoða börn í heimsfaraldri til þess að minnka þann skaða sem börn hafa orðið fyrir vegna Covid-19. Á síðastliðnu ári hafa samtökin aðstoðað 29,5 milljón börn og fjölskyldur þeirra í 88 löndum,“ segir í fréttinni. „Barnahjónabönd hafa aukist gífurlega í kjölfar Covid-19. Um 12 millj­ón­ir stúlkna undir 18 ára eru á hverju ári þvingaðar í hjóna­band og áætla má að vegna Covid-19 eigi rúm­lega 2,5 millj­ón­ir stúlkna til viðbótar á hættu á því að vera þvingaðar í hjóna­band fyr­ir árið 2025. Lokanir skóla eru helsti áhrifavaldur þess að stúlkur séu giftar ungar og er því mikilvægt að skólar opni sem allra fyrst svo að börn geti haldið áfram sinni menntun.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira