Hoppa yfir valmynd
17. mars 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 124/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. mars 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 124/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21020048

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 16. febrúar 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. febrúar 2021, um að synja umsókn hans um dvalarskírteini fyrir aðstandendur EES- og EFTA-borgara.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 22. október 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. desember 2019, var umsóknin ekki tekin til efnismeðferðar enda bæru finnsk stjórnvöld ábyrgð á umsókn hans samkvæmt ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013). Ákvörðunin var staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 168/2019, dags. 7. maí 2020, og skyldi kærandi fluttur til Finnlands. Kærandi sótti um dvalarskírteini fyrir aðstandendur EES- og EFTA-borgara þann 11. ágúst 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. febrúar 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 16. febrúar 2021. Með tölvupósti kærunefndar til kæranda, dags. 16. febrúar 2021, var kæranda leiðbeint um að ef hann vildi leggja fram greinargerð eða önnur gögn til kærunefndar hefði hann frest til 2. mars 2021 til að leggja slíkt fram. Greinargerð eða frekari gögn bárust ekki frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að á meðal fylgigagna með umsókn hafi verið hjúskaparvottorð, gefið út af [...] yfirvöldum þann 22. desember 2019. Samkvæmt vottorðinu hafi kærandi gengið í hjúskap með maka sínum, [...], sænskum ríkisborgara, hinn 10. desember 2019. Í ljósi þess að kærandi hafi gengið í hjúskap um það leyti sem hann hafi haft umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar á Íslandi hafi stofnunin sent honum bréf, dags. 7. desember 2020, þar sem óskað hafi verið eftir staðfestingu á því að kærandi og maki hans hefðu verið viðstödd hjónavígslu þá sem umsókn hans grundvallaðist á. Í bréfi kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 18. desember 2020, hafi hann vísað til þess að hjónavígsla þeirra hafi farið fram í [...], höfuðborg [...], þrátt fyrir fjarveru beggja hjónaefna. Hafi hann vísað til þess að samkvæmt trú og venjum þeirra hjóna hafi fulltrúahjúskapur verið viðurkenndur í aldanna rás, þrátt fyrir að hann sé ekki viðurkenndur hér á landi. Þá hafi kærandi vísað til þess að kærandi og maki hefðu eignast barn og vilji búa saman og annast uppeldi barnsins á Íslandi.

Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að hjónavígsluathöfn kæranda hafi brotið í bága við meginreglur íslensks hjúskaparréttar og allsherjarreglu og gæti því ekki orðið grundvöllur dvalarskírteinis kæranda fyrir aðstandendur EES- og EFTA-borgara og var umsókn hans því synjað með vísan til 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærunefnd barst ekki greinargerð frá kæranda. V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamálaÍ samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.Umsókn kæranda um dvalarskírteini byggir á hjúskap hans með sænskum ríkisborgara, [...], sem búsett er hér á landi. Í 86. gr. laga um útlendinga er kveðið á um rétt til dvalar lengur en í þrjá mánuði fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og aðra útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar. Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 85. gr. eftir því sem við á um útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar en eru aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem hafa dvalarrétt skv. a-, b- eða c-lið 1. mgr. 84. gr. Sama gildir um maka, sambúðarmaka eða barn eða ungmenni yngra en 21 árs sem fylgir eða kemur til EES- eða EFTA borgara sem hefur dvalarrétt skv. d-lið 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga.

Í 90. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarskírteini fyrir útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar og hafa rétt til dvalar skv. 86. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 90. gr. segir að útlendingur sem dvelst hér á landi skv. 86. gr. í meira en þrjá mánuði skuli fá útgefið dvalarskírteini. Umsóknarfrestur er þrír mánuðir frá komu til landsins. Er staðfesting á umsókn gefin út um leið og viðkomandi leggur fram gögn skv. 2. mgr. Í 2 mgr. 90. gr. segir að með umsóknum um dvalarleyfi fyrir aðstandanda skuli leggja fram gilt vegabréf, sbr. a-lið, gögn til staðfestingar á þeim fjölskyldutengslum sem eru grundvöllur dvalarréttar, sbr. b-lið, skráningarvottorð EES- eða EFTA-borgarans sem útlendingurinn fylgir til landsins eða kemur til, sbr. c-lið og staðfestingu á framfærslu þegar réttur aðstandanda er háður framfærslu hans, sbr. d-lið ákvæðisins. Í 92. gr. laga um útlendinga er kveðið á um brottfall dvalarréttar EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Samkvæmt 2. mgr. 92. gr. er m.a. heimilt að synja um útgáfu dvalarskírteinis ef stofnun hjúskapar brýtur í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga en í athugasemdum við ákvæðið er ekki að finna frekari skýringar á ákvæðinu.

Efnislega samhljóða ákvæði er að finna í 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæði 70. gr. laga um útlendinga segir orðrétt m.a.:

Með ákvæðinu er einnig tekinn af allur vafi um að brjóti stofnun hjúskapar í bága við allsherjarreglu og meginreglur íslenskra laga sé ekki um gildan gerning að ræða og hann veiti þar af leiðandi ekki rétt til dvalarleyfis. Þetta á t.d. við um hjónavígslu ef hjónin eða annað þeirra voru börn eða þegar annað eða hvorugt hjóna var viðstatt athöfnina (svokallaðar fulltrúagiftingar). Sama gildir um hjónavígslu ef vígslumaður hafði ekki réttindi til athafnarinnar (vígsluheimild) í því landi þar sem vígslan fór fram og þegar stofnað er til fjölkvænis eða fjölveris. Með broti á allsherjarreglu eða meginreglum laga (ordre public), í alþjóðlegum einkaréttarlegum skilningi, er átt við gerning sem stofnað er til í einu landi en talinn er stríða svo gegn réttarreglum annars lands þar sem beita á honum að rétt þykir að virða hann að vettugi.

Samkvæmt gögnum málsins gengu kærandi og maki hennar, sem er sænskur ríkisborgari, í hjúskap í [...], höfuðborg [...], hinn 10. desember 2019 en ljóst er af gögnum málsins að hvorugt þeirra var viðstatt hjónavígsluna.

Svo tilvik verði talið falla undir lokalið 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga þarf, samkvæmt orðalagi ákvæðisins, að koma til brot gegn allsherjarreglu og meginreglum íslenskra laga. Inntak hugtaksins allsherjarregla er hvorki skilgreint í 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga né í öðrum ákvæðum laganna. Í ljósi athugasemda við ákvæði 8. mgr. 70. gr. sömu laga í lögskýringargögnum og með vísan til innri samræmisskýringar telur kærunefnd að svo ákvæði 2. mgr. 92. gr. eigi við þurfi stofnun hjúskapar ekki eingöngu að vera andstæð meginreglum íslenskra laga heldur jafnframt að stríða svo gegn réttarreglum landsins að rétt þyki að virða hann að vettugi.

Það er meginregla í íslenskum hjúskaparrétti að hjónaefni skuli bæði vera viðstödd vígsluathöfn. Kveðið er á um regluna í 2. mgr. 24. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 en þar segir að bæði hjónaefni skuli vera viðstödd vígsluathöfn. Fyrir gildistöku hjúskaparlaga var samhljóða ákvæði í 21. gr. laga um stofnun og slit hjúskapar nr. 60/1972. Engar undanþágur eru frá þessari reglu í hjúskaparlögum.

Þá bendir kærunefnd á að íslenska ríkið gerði fyrirvara við ákvæði 2. mgr. 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1962 um samþykki og lágmarksaldur til hjúskapar o.fl., sbr. auglýsing 18/1977 í C-deild Stjórnartíðinda. Í því ákvæði er m.a. kveðið á um að ekki sé nauðsynlegt að bæði hjónaefni séu viðstödd vígsluathöfn ef þau hafi fyrir þar til bæru stjórnvaldi samþykkt hjúskaparstofnunina. Fyrirvari íslenska ríkisins var á þann veg að aðild að samningnum væri háð því að 2. mgr. 1. gr. tæki ekki til Íslands. Að mati kærunefndar bendir þessi fyrirvari til þess að umrædd regla hafi verið talin svo andstæð réttarreglum landsins að ekki væri unnt að innleiða hana hér á landi.

Að mati kærunefndar bendir forsaga ákvæða hjúskaparlaga og aðild Íslands að samningi Sameinuðu þjóðanna um samþykki og lágmarksaldur til hjúskapar o.fl. eindregið til þess að hjónavígslur, þar sem annað hjónaefna er ekki viðstatt vígsluathöfnina, stríði gegn réttarreglum landsins. Þá telur kærunefnd ljóst að sú vígsluathöfn sem fram fór í [...], þar sem bæði hjónaefni voru fjarverandi, teljist til svonefndra fulltrúargiftinga, en í ofangreindum athugasemdum við ákvæði 70. gr. laga um útlendinga er vísað til slíkra giftinga í dæmaskyni um gerning sem ekki veiti rétt til dvalarleyfis, en ákvæðið er eins og áður er rakið efnislega samhljóða ákvæði 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Þá hefur kærunefnd í úrskurðarframkvæmd sinni litið svo á að svonefndar fulltrúargiftingar veiti ekki rétt til dvalarleyfis á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga, sbr. úrskurði kærunefndar í málum nr. 172/2019 og 583/2019.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að hjónavígsluathöfn kæranda hafi farið í bága við meginreglu íslensks hjúskaparréttar og allsherjarreglu og geti því ekki veitt kæranda rétt til dvalarskírteinis á grundvelli 90. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 92. gr. laganna. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Gunnar Páll Baldvinsson                                  Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum