Hoppa yfir valmynd
17. september 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Samstarf Íslands og Færeyinga á heilbrigðissviði

Heilbrigðisráðherrar Íslands og Færeyinga telja mikla möguleika felast í samstarfi þjóðanna í lyfja- og heilbrigðismálum.

Þetta kom fram á fundi ráðherranna, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Hans Pauli Strøm, heilbrigðisráðherra Færeyinga, sem haldinn var í gær. Á fundinum voru ræddir möguleikarnir sem viljayfirlýsing Íslands og Færeyja um samstarf á heilbrigðissviði felur í sér.

Ráðherrarnir voru sammála um að leggja sérstaka áherslu á að efla samstarf þjóðanna á sviði lyfjamála og heilbrigðisþjónustu í anda fríverslunarsamningsins milli Íslands og Færeyja sem tók gildi 1. nóvember 2006 (Hoyvíkur samningsins).

Ráðherrarnir lýstu báðir yfir þeirri skoðun sinni að samvinna milli Íslands og Færeyja gæti styrkt stöðu landanna á evrópskum lyfjamarkaði. Í ljósi þessa ákváðu ráðherrarnir að setja saman vinnuhóp til að vinna að framgangi málsins á næstu vikum.

Guðlaugur Þór Þórðarson hyggst taka samstarf á norrænum vettvangi í lyfja- og heilbrigðismálum til umræðu á fundi norrænu heilbrigðismálaráðherranna sem fyrirhugaður er í tengslum við þing Norðurlandaráðs í október.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum