Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2022 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 15/2021- Úrskurður

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Terra umhverfisþjónustu hf.

 

Kyn. Launamismunun. Leiðréttingarkrafa. Uppsögn. Sönnunarregla. Brot.

A kærði mismun á launum hennar og tveggja karlkyns starfsmanna hjá T hf. þegar hún gegndi starfi framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu. Þá kærði hún þá ákvörðun fyrirtækisins að segja henni upp störfum í kjölfar þess að hún leitaði eftir leiðréttingu á þessum launamun. Fallist var á að A hefði leitt líkur að því að laun hennar hefðu verið ákvörðuð lægri fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, sbr. 2. mgr. 18. gr. og 6. gr. laga nr. 150/2020 og að henni hefði verið sagt upp störfum sökum þess að hún hefði krafist leiðréttingar á grundvelli laga nr. 150/2020, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Samkvæmt því kom það í hlut kærða að sýna fram á að munurinn á laununum skýrðist af öðrum þáttum en kyni og að uppsögnin grundvallaðist ekki á leiðréttingarkröfu kæranda. Var það niðurstaða kærunefndar að það hefði ekki tekist hjá T hf. Hefði A því verið mismunað á grundvelli kyns í launum, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020, sbr. 6. gr. sömu laga nr. 86/2018, þegar hún gegndi starfi framkvæmdastjóra hjá T hf., og að kæranda hefði verið sagt upp störfum sökum þess að hún hefði krafist leiðréttingar á grundvelli laganna, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 27. apríl 2022 er tekið fyrir mál nr. 15/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 1. Með kæru, dags. 5. október 2021, kærði A mismun á launum hennar og tveggja karlkyns starfsmanna hjá Terra umhverfisþjónustu hf. þegar hún gegndi starfi framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu. Þá kærði hún þá ákvörðun fyrirtækisins að segja henni upp störfum í kjölfar þess að hún leitaði eftir leiðréttingu á þessum launamun.
 2. Kærandi gerir kröfu um að fá greiddan launamismuninn frá 1. maí 2021 til loka uppsagnarfrests.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 15. október 2021. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 12. nóvember 2021, og var hún kynnt kær­anda með bréfi kærunefndar, dags. 16. nóvember 2021. Kærunefndinni bárust athuga­semdir kæranda með bréfi, dags. 30 nóvember 2021, sem voru kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dags. 2. desember 2021. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 17. desember 2021, og voru þær sendar kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 21. desember 2021. Með bréfi, dags. 28. mars 2022, óskaði kærunefndin eftir frekari upplýsingum. Svar kærða barst með bréfi, dags. 4. apríl 2022.

  MÁLAVEXTIR

 4. Kærandi var ráðin sem mannauðs- og gæðastjóri hjá kærða 1. janúar 2020 og heyrði hún samkvæmt þágildandi skipuriti beint undir forstjóra. Í kjölfar breytinga á skipuriti í maí 2021 voru tveir nýir framkvæmdastjórar ráðnir og kærandi gerð að framkvæmda­stjóra gæða- og mannauðsmála. Samkvæmt skipuritinu voru samtals fjórir fram­kvæmda­stjórar hjá fyrirtækinu sem heyrðu beint undir forstjóra, tveir karlar og tvær konur, og var kærandi önnur þeirra. Voru laun karlanna hærri en kæranda. Launa­samtal milli kæranda og forstjóra kærða að beiðni kæranda fór fram 1. september 2021. Nýtt skipurit hjá kærða tók gildi í lok september 2021 þar sem framkvæmdastjórum var fækkað úr fjórum í þrjá og staða framkvæmdastjóra gæða- og mannauðsmála, sem kærandi hafði gegnt, lögð niður. Voru þeir málaflokkar sem heyrt höfðu undir svið kær­anda færðir til stjórnenda einstakra sviða og starfsmanns sem heyrði beint undir forstjóra og kæranda í framhaldinu sagt upp störfum.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 5. Kærandi heldur því fram að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 með því að greiða henni lægri laun en tveimur framkvæmdastjórum sem voru karlkyns. Heldur kærandi því fram að málaflokkar sem heyrðu undir þessa tvo karlkyns framkvæmda­stjóra hafi ekki verið umfangsmeiri en þeir málaflokkar sem heyrðu undir hana sem framkvæmdastjóra. Þá hafi kærði sagt henni upp störfum þegar hún leitaði eftir leiðréttingu á þessum launamun. Fer kærandi fram á það að fá greiddan launamuninn frá 1. maí 2021 og til loka uppsagnarfrests, ásamt orlofi.
 6. Kærandi bendir á að í maí 2021 hafi nýtt skipurit tekið gildi hjá kærða þar sem hún hafi færst úr því að vera mannauðs- og gæðastjóri yfir í að vera framkvæmdastjóri sviðs sem einnig hafi borið ábyrgð á markaðsmálum, samfélagsábyrgðarmálum og öryggis­málum. Á sama tíma hafi verið ráðnir tveir nýir karlkyns framkvæmdastjórar á mun hærri launum.
 7. Bendir kærandi á að hún hafi hvorki minni menntun eða reynslu né hafi umfang eða mikilvægi verkefna sem undir svið hennar féllu verið minna fyrir rekstur fyrirtækisins þannig að hægt væri að rökstyðja launamun milli kæranda og þessara tveggja karlkyns framkvæmdastjóra.
 8. Kærandi tekur fram að yfirskrift fundar sem fór fram 1. september 2021 hafi verið „spjall“ og hafi fundurinn verið boðaður af forstjóra. Fundurinn hafi staðið yfir í 30 mínútur. Aldrei hafi komið fram, hvorki í fundarboði né í samræðum fyrir og eftir fundinn, að efni hans hafi verið að leggja fram áætlun um til hvaða aðgerða ætti að grípa vegna stöðu fyrirtækisins. Skilningur kæranda hafi verið sá að fara ætti yfir mála­flokka sem heyrðu undir kæranda í því skyni að samræma væntingar nýs forstjóra og kæranda.
 9. Kærandi telur að ekki sé hægt að halda því fram að starf framkvæmdastjóra sem beri ábyrgð á mannauðs-, gæða-, markaðs- og samskiptamálum auk samfélagsábyrgðar­mála sé ekki jafn verðmætt starf fyrir fyrirtæki eins og kærða sem hafi verið með tvær gæðavottanir, starfað á samkeppnismarkaði, sem hafi fengið neikvæða athygli frá markaði, og starf framkvæmdastjóra fjármála- og upplýsingatækni.
 10. Bendir kærandi á að miðað við núverandi starfslýsingar hafi starfi framkvæmdastjóra sölu- og rekstrarsviðs verið breytt og því áhugavert að sjá hvort launum hafi verið breytt í samræmi við það. Tekur kærandi fram að mögulega væri hægt að halda því fram að starfið skilaði meiri verðmætum en starf kæranda ef horft væri til eldri mæli­kvarða um að krónur væru mikilvægari en öryggi starfsfólks. Hins vegar sé erfiðara að sýna fram á að starf framkvæmdastjóra fjármála- og upplýsingatækni skili meiri verðmætum.
 11. Bendir kærandi á að umsjón með mánaðaruppgjöri sé mikilvægt starf á sama hátt og starf sem tryggir öryggi starfsfólks og stuðlar að aukinni ánægju viðskiptavina. Að sama skapi er umsjón með fjárhagsáætlun mikilvægt starf en það eigi einnig við um starf sem snýr að því að fá framlengda vottun á hverju ári frá utanað­komandi eftirlitsaðilum vegna ISO 9001, ISO 14001 og ÍST 85:2012.
 12. Þá bendir kærandi á að ábyrgð á samskiptum við bankastofnanir sé mikilvægt starf en það sama eigi við um starf sem snýr að ábyrgð á samskiptum við opinbera aðila vegna starfsleyfa, úttekta og fleiri þátta auk samskipta við óánægða viðskiptavini og starfs­menn. Jafnframt bendir kærandi á að veltan sem fjármálastjórinn beri ábyrgð á verði til vegna vinnu sem unnin er annars staðar en á fjármálasviðinu. Þá hafi fjárfestar áhuga á sjálfbærni og samfélagsábyrgð og jafnframt þekkingu á þeim þáttum. Telur kærandi að það væri furðulegur mælikvarði sem myndi mæla starf framkvæmdastjóra fjármála- og tæknisviðs verðmætara en starf kæranda.
 13. Bendir kærandi á að kærði hafi lokið jafnlaunavottun undir stjórn kæranda sem farið hafi fram áður en nýr forstjóri og nýir framkvæmdastjórar tóku til starfa. Kærandi tekur fram að það að vera með jafnlaunavottun þýði því miður á engan hátt að ekki séu frábrigði hjá fyrirtækinu þar sem vottunin byggi á handahófskenndum úrtökum. Bendir kærandi á að ný launasetning fyrirtækisins hefði ekki verið tekin út.
 14. Að mati kæranda hafi kærði í engu sýnt fram á að hann hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 15. Kærði heldur því fram að hann hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020. Bendir kærði á að 15. júní 2020 hafi hann fengið jafnlaunavottun samkvæmt staðlinum ÍST 85:2012. Fyrirtækið hafi komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggi að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Hafi ákvarðanir um laun framkvæmda­stjóra hjá kærða verið teknar í samræmi við málsmeðferð sem staðallinn byggi á og telur kærði að með því hafi verið tryggð fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggi beina og óbeina mismunun vegna kyns.
 16. Kærði tekur fram að kærandi hafi óskað eftir launasamtali við forstjóra 7. júlí 2021 sem hafi tjáð henni að launasamtalið gæti farið fram strax að loknu sumarleyfi. Óskaði forstjórinn jafnframt eftir því að kærandi skilaði fyrir fundinn áætlun um hvernig ná ætti árangri í þeim málaflokkum sem heyrðu undir hana. Fundurinn var haldinn 1. september s.á. þar sem kærandi lagði fram lista yfir þá málaflokka sem hún bar ábyrgð á en skilaði hvorki áætlun um hvernig hún ætlaði að ná fram breytingum á þeim málaflokkum né áætlun um það til hvaða aðgerða ætti að grípa til að bæta stöðuna.
 17. Tekur kærði fram að í september 2021 hafi nýtt skipurit tekið gildi þar sem stöðum framkvæmdastjóra var fækkað úr fjórum í þrjár og staða framkvæmdastjóra gæða- og mannauðsmála, sem kærandi hafði gegnt í rúma þrjá mánuði, lögð niður. Voru öryggis- og gæðamál, sem höfðu heyrt undir svið kæranda, færð til stjórnenda einstakra sviða. Þá voru verkefni er lutu að mannauðsmálum færð til starfsmanns sem ber titilinn forstöðu­maður og heyrir beint undir forstjóra.
 18. Bendir kærði á að kæranda hafi verið sagt upp í tengslum við framangreindar skipu­lags­breytingar. Hafi kæranda verið gerð skýr grein fyrir ástæðu uppsagnar á fundi þar sem uppsögnin var rædd. Hafði uppsögnin ekkert með óskir kæranda um hærri laun að gera heldur var ástæða hennar breytingar á skipulagi sem gera þurfti til að ná árangri í rekstri kærða.
 19. Kærði telur að kærandi hafi ekki með neinu móti leitt líkur að því að hún hafi sinnt sama eða jafn verðmætu starfi og þeir tveir karlkyns framkvæmdastjórar sem ráðnir voru til kærða í maí 2021. Mótmælir kærði því að munur á launum kæranda og annarra framkvæmdastjóra hjá kærða byggist á kynferði starfsmanna. Þvert á móti skýrist umræddur launamunur af mjög mismunandi umfangi og ábyrgð starfanna.
 20. Kærði vísar til starfslýsingar framkvæmdastjóra fjármála- og tæknisviðs frá maí 2021. Þar kemur fram að hlutverk framkvæmdastjóra sviðsins sé að stýra fjármála- og tæknisviði, sjá um að mánaðaruppgjör og ársuppgjör séu rétt og skilað á tilsettum tíma, að fjárhagsáætlun sé unnin og skilað á réttum tíma, svo og að bæði ársáætlun og spár innan árs séu gerðar, ef þörf er á. Undir starfið falli einnig samskipti við rekstrarstjóra og fjárhagsleg upplýsingagjöf, eftirfylgni með því að innan félagsins sé virkt kostnaðar­eftirlit, bæði á fjármálasviði og í þeim deildum sem hafa heimild til að skuldbinda félagið og að uppgjör til lánardrottna sé gert á réttum tíma. Framkvæmdastjóri fjármála- og tæknisviðs beri einnig ábyrgð á að lausafjárstýring sé til staðar og að lausafé félagsins sé stýrt með skilvirkum og hagkvæmum hætti. Þá beri hann ábyrgð á samskiptum félagsins við bankastofnanir. Einnig beri honum að sjá til þess að til staðar sé þarfagreining og markmið fyrir upplýsingatækniumhverfi félagsins. Hann beri ábyrgð á stafrænni þróun félagsins auk ábyrgðar á innleiðingu upplýsingatæknikerfa og þróunar þeirra í samræmi við stefnu félagsins. Framkvæmdastjórinn sitji í stjórnum tveggja dótturfélaga kærða, undirbúi og sitji stjórnarfundi ásamt forstjóra auk þess að sinna öðrum tilfallandi verkefnum.
 21. Tekur kærði fram að af framangreindu sé ljóst að framkvæmdastjóri fjármála- og tæknisviðs beri ábyrgð á fjárreiðum, fjármögnun, uppgjörum félagsins og dótturfélaga með brúttó veltu upp á ríflega sjö milljarða króna auk þess að stjórna öllu er viðkomi upplýsingatækni, viðskiptagreind og stafrænni þróun. Framkvæmdastjórinn stýri níu manna einingu og heyri allir starfsmenn beint undir hann.
 22. Kærði bendir á að sá einstaklingur sem hafi verið ráðinn til að gegna starfi fram­kvæmda­stjóra fjármála- og tæknisviðs sé menntaður viðskiptafræðingur. Hann fái greiddar x kr. í föst mánaðarlaun, hafi bifreið til umráða auk farsíma og nettengingar á heimili. Launin taki ekki almennum launabreytingum en skulu endurskoðuð ár hvert.
 23. Kærði tekur fram að hlutverk framkvæmdastjóra kjarnastarfsemi, áður þjónustu- og viðskiptasviðs, sé samkvæmt starfslýsingu að stuðla að skilvirkri þjónustu bæði innan fyrirtækisins og utan. Undir framkvæmdastjóra heyri akstursþjónusta, umhleðsla í Berghellu, verkstæði og lager. Framkvæmdastjórinn beri ábyrgð á þjónustustigi aksturs­deildar gagnvart viðskiptavinum, ferlum og framkvæmd flokkunar í umhleðslustöð í Berghellu, skilvirkni verkstæðis gagnvart akstursdeild og skipulagi lagers og viðhaldi og útliti leiguíláta viðskiptavina. Þá taki framkvæmdastjórinn þátt í ýmsum sýningum og kynningum á vegum fyrirtækisins. Undir framkvæmdastjóra kjarnastarfsemi heyri fjórar deildir, í heild 88 starfsmenn.
 24. Kærði bendir á að sá einstaklingur sem gegni stöðu framkvæmdastjóra kjarnastarfsemi hafi lokið M.Sc. í ferlaverkfræði, stefnumótun og stjórnun með áherslu á flutninga- og vörustýringu og sérhæfingu í líkanagerð og hermun frá háskóla í Hollandi auk þess að vera með B.Sc.-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún fái greiddar x kr. í föst mánaðarlaun en laun hennar hækki í samræmi við kjarasamninga SA (voru upphaflega x kr.), hafi bifreið til umráða auk farsíma, tölvu og nettengingar á heimili. Frá og með ágúst 2022 muni laun hennar nema x kr. á mánuði.
 25. Kærði tekur fram að framkvæmdastjóri sölu- og rekstrarsviðs fari með daglega stjórnun sölu- og rekstrarsviðs. Hann beri ábyrgð á verðlagningu vöru og þjónustu og upp­lýsingagjöf til hagaðila. Framkvæmdastjóranum beri að fylgja eftir markmiðum fyrir­tækisins og hafa eftirfylgni með verkefnum. Þá beri honum að þróa vöru- og þjónustu­framboð fyrirtækisins og eiga í samskiptum við viðskiptavini. Einnig beri hann ábyrgð á markaðsmálum og skuli byggja upp vörumerki félagsins. Að auki sitji framkvæmda­stjórinn í stjórnum tveggja dótturfélaga og taki að sér önnur tilfallandi verkefni. Framkvæmdastjóri sölu- og rekstrarsviðs sé jafnframt staðgengill forstjóra félagsins. Hann beri þannig ábyrgð á allri þjónustu og markaðsmálum þessa stóra þjónustu­fyrirtækis auk þess að sjá um sölu félagsins. Framkvæmdastjórinn stýri 126 manna einingu þar sem 12 manns heyri beint undir hann.
 26. Kærði bendir á að sá einstaklingur sem gegni stöðu framkvæmdastjóra sölu- og rekstrarsviðs sé viðskiptafræðingur að mennt og hafi lagt stund á meistaranám í fjármálum fyrirtækja. Hann fái greiddar x kr. í föst mánaðarlaun auk þess sem hann hafi bifreið til umráða auk farsíma og nettengingar á heimili. Launin taki ekki almennum launabreytingum en skulu endurskoðuð ár hvert.
 27. Kærði tekur fram að starfslýsingu mannauðs- og gæðastjóra hafi ekki verið breytt eftir að mannauðs- og gæðastjóri var gerður að framkvæmdastjóra gæða- og mannauðsmála. Hlut­verk mannauðs- og gæðastjóra hafi verið að hafa yfirumsjón með gæðamálum fyrir­tækisins og dótturfélaga þess. Einnig hafi hann séð um vottanir kærða og dótturfélaga og verið tengiliður við eftirlitsaðila vegna starfsleyfismála. Þá hafi hann séð um markaðs- og samskiptamál og mannauðs- og launamál. Undir framkvæmdastjóra gæða- og mannauðsmála störfuðu lengst af tveir starfsmenn, en við starfslok kæranda hafi undirmenn verið orðnir fjórir.
 28. Bendir kærði á að kærandi, sem gegnt hafði stöðu mannauðs- og gæðastjóra frá því í janúar 2020, hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra gæða- og mannauðsmála í þrjá og hálfan mánuð sumarið 2021. Hún hafi lokið B.Sc.-námi í iðnaðartæknifræði og iðnrekstrarfræði. Mánaðarlaun hennar hafi numið x kr. eftir fastráðningu sem mannauðs- og gæðastjóri um mitt ár 2020. Laun hennar hafi hækkað í samræmi við kjarasamninga SA og námu x kr. þegar hún lét af störfum. Laun kæranda hafi ekki breyst þó að starfstitill hennar hafi breyst með nýju skipuriti enda hafi verkefnin breyst óverulega. Að auki hafi hún haft afnot af bifreið, farsíma og tölvu auk nettengingar á heimili.
 29. Jafnframt bendir kærði á að af dómum Hæstaréttar í málum nr. 258/2004 og nr. 11/2000 megi ráða að úrlausn þess, hvort störf teljist jafn verðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga, verði að byggjast á heildstæðu mati og að það sem ráði úrslitum um hvort um sömu eða jafn verðmæt störf sé að ræða í skilningi jafnréttislaga sé heildar­mat á þeim störfum sem raunverulega séu unnin, ekki almenn gögn eða ytri umgjörð skipulags vinnustaðar.
 30. Kærði telur að af framangreindri lýsingu á verkefnum og umfangi starfa þeirra fjögurra framkvæmdastjóra sem störfuðu hjá kærða á tímabilinu maí til september 2021 sé ljóst að mikill munur hafi verið á verkefnum, ábyrgð og stærð stjórnunareininga þeirra. Sé því um að ræða eðlisólík störf þó að allir fjórir starfsmennirnir hafi borið titilinn framkvæmdastjóri. Eðlilegt sé að munurinn á verkefnum og ábyrgð komi fram í launa­kjörum þeirra er gegna umræddum störfum og mótmælir kærði því alfarið að launa­munur tengist á nokkurn hátt kynferði þeirra er störfunum gegndu. Einnig bendir kærði á að hafa verði í huga að laun á vinnumarkaði fyrir stjórnendur á sviði fjármála- og upplýsingatækni séu almennt hærri en laun þeirra er stýra mannauðs- og gæðamálum. Því stjórni markaðurinn að einhverju leyti launasetningu starfsmanna. Þá bendir kærði á að eðlilegt sé að staðgengill forstjóra fái sérstaka umbun fyrir þá ábyrgð sem því starfi fylgi.
 31. Kærði áréttar að launamunur milli framkvæmdastjóra félagsins hafi ekki haft neitt með kyn þeirra sem gegndu stöðu framkvæmdastjóra að gera, heldur hafi launa­munurinn skýrst af mjög mismunandi umfangi og ábyrgð starfa framkvæmda­stjóranna.
 32. Hafnar kærði því að fyrirtækið hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020 og telur að ekki sé neinn grundvöllur til að fallast á kröfur kæranda í málinu.

  NIÐURSTAÐA

 33. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sbr. 6. gr. sömu laga, með því að greiða kæranda sem gegndi starfi framkvæmdastjóra lægri laun en tveimur karlkyns framkvæmdastjórum. Jafnframt beinist málið að því hvort kærði hafi brotið gegn 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020 með því að segja kæranda upp störfum sökum þess að hún hafi krafist launa­leiðréttingar á grundvelli laganna.
 34. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórn­sýslu jafnréttismála gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
 35. Almennt ákvæði um launajafnrétti er í 6. gr. laga nr. 150/2020. Samkvæmt 1. mgr. skulu konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Í 2. mgr. ákvæðisins er tekið fram að með jöfnum launum sé átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni. Skuli þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.
 36. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 2. mgr. 18. gr. kemur það í hlut einstaklings sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að hann njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf á grundvelli kyns. Takist sú sönnun skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekanda óheimilt að segja einstaklingi upp störfum sökum þess að hann hafi krafist leiðréttingar á grundvelli laganna. Samkvæmt sönnunarreglu 3. mgr. 20. gr. kemur það í hlut einstaklings sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að gengið hafi verið gegn ákvæðinu. Takist sú sönnun skal atvinnurekandi sýna fram á að uppsögn grundvallist ekki á leiðréttingarkröfu einstaklings. Er því um sams konar sönnunarreglu að ræða og í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á launakjör í starfi því sem um ræðir og að henni hafi verið sagt upp störfum á grundvelli leiðréttingarkröfu.
 37. Í málinu liggur fyrir að kærandi hafði starfað sem mannauðs- og gæðastjóri hjá kærða í rúmt ár þegar hún var gerð að framkvæmdastjóra gæða- og mannauðsmála í kjölfar skipulagsbreytinga í maí 2021. Samkvæmt þessu nýja skipuriti var kærandi ein fjögurra framkvæmdastjóra sem heyrðu beint undir forstjóra. Um var að ræða tvo karla og tvær konur sem báru ábyrgð á fjórum mismunandi sviðum. Karlarnir voru nýráðnir en konurnar höfðu gegnt störfum fyrir fyrirtækið áður, þar af önnur sem framkvæmda­stjóri. Karlarnir gegndu annars vegar stöðu framkvæmdastjóra fjármála- og tæknisviðs og hins vegar stöðu framkvæmdastjóra sölu- og rekstrarsviðs. Kærandi gegndi sem fyrr segir stöðu framkvæmdastjóra gæða- og mannauðsmála en hin konan gegndi stöðu framkvæmdastjóra kjarnastarfsemi. Í málinu liggur fyrir að karlarnir nutu sömu launakjara í þessum störfum sínum og að báðar konurnar nutu verri launakjara en karlarnir en kærandi þó sýnu verst og var munurinn á mánaðarlaunum hennar og karlanna umtalsverður.
 38. Kærði hefur lýst því að starf framkvæmdastjóra fjármála- og tæknisviðs og starf fram­kvæmdastjóra sölu- og rekstrarsviðs hafi bæði verið umfangsmeiri en starf fram­kvæmda­stjóra gæða- og mannauðsmála auk þess sem meiri ábyrgð hafi falist í fyrr­nefndu störfunum og að stjórnunareiningarnar hafi verið stærri. Í því sambandi vísar kærði m.a. til þess að framkvæmdastjóri fjármála- og tæknisviðs stýri níu manna einingu og sitji í stjórnum tveggja dótturfyrirtækja kærða, framkvæmdastjóri kjarnastarfsemi stýri fjórum deildum með 88 starfsmönnum og framkvæmdastjóri sölu- og rekstrarsviðs stýri 126 manna einingu auk þess að sitja í stjórnum tveggja dótturfyrirtækja kærða og vera staðgengill forstjóra. Til samanburðar hafi framkvæmdastjóri gæða- og mannauðsmála verið yfirmaður tveggja til fjögurra starfsmanna. Að auki vísar kærði til þess að laun stjórnenda á sviði fjármála- og upplýsingatækni séu almennt hærri en laun þeirra sem stýra mannauðs- og gæðamálum og því stjórni markaðurinn að einhverju leyti launasetningu starfsmanna. Eigi launamunurinn því sér eðlilegar og málefnalegar skýringar.
 39. Af skipuriti því sem var samþykkt í maí 2021 má ráða að nokkrar deildir hafi heyrt undir hvern framkvæmdastjóra sem hafi verið stýrt af tilteknum starfsmönnum. Þannig hafi fjórar deildir átt heima undir framkvæmdastjóra fjármála- og tæknisviðs, fjórar deildir undir framkvæmdastjóra kjarnastarfsemi, fjórar deildir undir framkvæmdastjóra gæða- og mannauðsmála og þrjár undir framkvæmdastjóra sölu- og rekstrarsviðs sem hafi skipst í frekari einingar. Allir framkvæmdastjórarnir heyrðu svo, eins og áður hefur komið fram, beint undir forstjóra kærða.
 40. Af starfslýsingum umræddra fjögurra framkvæmdastjóra sem liggja fyrir í málinu verður ráðið að um hafi verið að ræða mikilvæg störf innan fyrirtækisins og að tiltekin ábyrgð hafi falist í þeim öllum þótt eðli málsins samkvæmt hafi þau ekki verið nákvæmlega eins. Þá hafi menntun þessara starfsmanna ekki verið sú sama þótt þau hafi öll verið með háskólagráðu.
 41. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 150/2020 ber atvinnurekanda að greiða jöfn laun, sem eru ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni, fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Eins og kemur fram í athugasemdum með þessu ákvæði í frumvarpi því sem varð að framangreindum lögum er ákvæðinu ætlað að tryggja að konur og karlar njóti sömu launa og sömu kjara fyrir sömu störf og fyrir ólík störf sem metin eru jafn verðmæt og jafngild. Geta ólík störf, eins og lík störf, verið jafn verðmæt en það hvort störf eru jafnverðmæt verður að byggjast á heildstæðu mati.
 42. Af framangreindu má ráða að störf geta verið jafn verðmæt þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir og að störfin krefjist mismunandi menntunar og starfsreynslu. Þetta nýja fyrirkomulag í skipuriti með fjórum framkvæmdastjórum sem heyrðu beint undir forstjóra, þar af tveimur nýráðnum, og það mikilvægi sem þessum störfum var sýni­lega ætlað að hafa í starfsemi kærða samkvæmt starfslýsingum þessara fram­kvæmda­stjóra, styður það sjónarmið að með störfunum hafi átt að vera jafnræði í ytri ásýnd jafnvel þótt störfin hafi í eðli sínu verið ólík.
 43. Með vísan til framangreinds verður fallist á að kærandi hafi leitt líkur að því að henni hafi verið ákvörðuð lægri laun en tveir karlkyns framkvæmdastjórar nutu fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, sbr. 2. mgr. 18. gr. og 6. gr. laga nr. 150/2020. Samkvæmt því kemur það í hlut kærða að sýna fram á að launamunurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni.
 44. Kærði hefur auk þeirra sjónarmiða sem rakin eru hér að framan vísað til þess að ákvörðun um laun framkvæmdastjóra hafi verið í samræmi við staðalinn ÍST 85:2012 en kærði hafi fengið jafnlaunavottun á árinu 2020, sbr. 7. gr. laga nr. 150/2020, eða ári áður en umræddar launaákvarðanir voru teknar. Hafi kærði því komið sér upp stjórnunar­kerfi sem tryggi að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum sé byggð á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun og hafi það átt við um ákvörðun um laun framkvæmdastjóra kærða.
 45. Árétta ber að jafnlaunavottun er ætlað að staðfesta að málefnaleg sjónarmið ráði við launaákvarðanir, að þau viðmið sem búi að baki launum einstakra starfsmanna séu fyrirliggjandi og að þau séu þau sömu fyrir allt starfsfólk viðkomandi fyrirtækis. Sam­kvæmt því er það atvinnurekandans að sýna fram á að þessi málefnalegu sjónarmið hafi legið til grundvallar við launaákvörðun framkvæmdastjóranna. Eftir sem áður er atvinnurekandinn bundinn af 6. gr. og 18. gr. laga nr. 150/2020 við launaákvörðunina og getur því ekki eingöngu borið fyrir sig að jafnlaunavottun sé til staðar hjá fyrir­tækinu. Þá ber að árétta að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 150/2020 mega þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.
 46. Svo sem að framan er rakið leiddi af skipuriti kærða, sem tók gildi í maí 2021, að starfsemi kærða var skipt í fjögur meginsvið, sem samkvæmt skipuritinu voru jafnsett hvað það varðar að heyra beint undir forstjóra. Einstökum deildum eða þáttum í starf­semi kærða var síðan deilt niður á einstök svið og þar með undir viðkomandi framkvæmdastjóra sem töldust stýra viðkomandi sviði. Þannig stýra framkvæmdastjórarnir í reynd viðkomandi verkefnum innan fyrirtækisins gagnvart forstjóra. Ráða má að framkvæmdastjórum sviðanna hafi þannig í hverju tilviki verið gert að hafa yfirumsjón með verkefnum þeim sem undir sviðin féllu og verður ekki ráðið að sú ábyrgð, gagnvart forstjóra, hafi verið mismunandi í einstökum tilvikum. Staða starfanna með tilliti til þessarar ábyrgðar og ytri ásýndar innan fyrirtækisins verður að teljast styðja að ekki hafi verið gerður sérlegur munur á verðmæti starfanna að þessu leyti. Kærði telst a.m.k. ekki hafa sýnt fram á annað.
 47. Af fyrrnefndu skipuriti má og nánar tiltekið ráða að undir hvert sviðanna hafi heyrt skilgreindar deildir, fjórar til sex talsins að meginstefnu til, og verður ekki annað ráðið en að sú skipting hafi verið til samræmis við afmörkun sviðanna. Hverri slíkri deild hafi síðan verið stýrt af undirmönnum sem heyrðu beint undir viðkomandi fram­kvæmdastjóra, bæði að formi til og með tilliti til verkefna. Undir svið kæranda, gæða- og mannauðsmál, heyrðu þannig markaðsmál, öryggis- og gæðamál, innri og ytri samskipti, mannauðs- og launamál auk samfélagsábyrgðar kærða. Af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. af almennum lýsingum á verkefnum, ábyrgð og inntaki einstakra sviða, verður ekki séð að kærða hafi tekist að réttlæta að mati kærunefndar, með tilliti til þeirra krafna sem gera verður til hans að þessu leyti á grundvelli 18. gr. laga nr. 150/2020, þann umtalsverða launamun sem var á launum kæranda og umræddra karlkyns framkvæmdastjóra.
 48. Í ljósi alls framangreinds og aðstæðna allra í máli þessu verður ekki séð að sýnt hafi verið fram á að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hafi ráðið þeim launamun sem var á launum kæranda sem framkvæmdastjóra hjá kærða og tveggja karlkyns framkvæmda­stjóra. Verður því að telja að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að launamunurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020, sbr. 6. gr. laganna. Það athugast að í lok árs 2021 tók kærði ákvörðun um að hækka laun hinnar konunnar sem gegndi framkvæmdastjórastarfi á sama tíma og kærandi, til samræmis við laun karlanna eins og þau voru í maí 2021.
 49. Kærði hefur sjálfur lýst því að kærandi hafi óskað eftir launasamtali 7. júlí 2021 en vegna sumarleyfa hafi kærði óskað eftir því að það færi fram strax að loknu sumarleyfi. Fyrir liggur að fundurinn fór fram 1. september 2021, skömmu áður en nýtt skipurit tók gildi og skömmu áður en kæranda var sagt upp störfum. Fyrir liggur að hvorki var haldin fundargerð né voru ritaðir minnispunktar af hálfu forstjóra á þessum fundi. Þá liggja ekki fyrir nein gögn um skipulagsbreytingar og uppsögn kæranda. Með vísan til þessa verður fallist á að kærandi hafi leitt líkur að því að henni hafi verið sagt upp störfum sökum þess að hún hafi krafist leiðréttingar á grundvelli laga nr. 150/2020, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Samkvæmt því kemur það í hlut kærða að sýna fram á að uppsögnin grundvallist ekki á leið­réttingarkröfu kæranda.
 50. Kærði hefur bent á að tilgangur skipulagsbreytinganna í september 2021 hafi verið að straumlínulaga stjórnun félagsins, bæta afkomu félagsins, fjölga viðskiptavinum og auka ánægju starfsmanna. Á þeim tæplega tveimur árum sem kærandi var við störf hafi ekki orðið þær breytingar sem væntingar hefðu staðið um, m.a. varðandi þjálfun starfsmanna og starfsánægju þeirra. Við gildistöku skipuritsins hafi kæranda og öðrum starfsmanni verið sagt upp, þ.e. samskiptastjóra fyrirtækisins, auk þess sem tveir aðrir starfsmenn voru færðir til í starfi.
 51. Fyrir liggur að kærandi var gerð að framkvæmdastjóra í maí 2021, eftir rúmlega eins árs starf hjá kærða, á grundvelli nýs skipurits. Rúmum mánuði síðar óskaði kærandi eftir launasamtali við forstjóra sem var haldið 1. september. Í kjölfarið urðu skipulags­breytingar og kæranda var sagt upp störfum. Engar fundargerðir liggja fyrir um að stjórn kærða hafi verið kynntar þessar breytingar af hálfu forstjóra, hvorki á stjórnarfundum í júní né september. Fyrir liggur hins vegar að forstjóri kærða kynnti þær breytingar á skipuriti kærða sem tóku gildi í maí 2021 fyrir stjórn á stjórnarfundi 10. maí 2021, auk þess að tilkynna um ráðningu tveggja nýrra framkvæmdastjóra, sbr. bókun í fundargerð stjórnarfundar þar að lútandi. Verður kærði að bera hallann af því, eins og hér stendur á, að engar fundargerðir, minnisblöð eða sambærileg gögn liggja fyrir um það sem kom fram á þessum fundum rétt eins á fundinum 1. september 2021 þegar launasamtalið fór fram. Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki hjá því komist að telja að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að uppsögnin hafi ekki grund­vallast á leiðréttingarkröfu kæranda, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020.
 52. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns í launum, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020, sbr. 6. gr. sömu laga, þegar hún gegndi starfi framkvæmdastjóra hjá kærða. Þá er það niðurstaða kærunefndar að kæranda hafi verið sagt upp störfum sökum þess að hún hafi krafist leiðréttingar á grundvelli laganna, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020.
 53. Kröfu kæranda um að fá greiddan launamismun frá 1. maí 2021 til loka uppsagnar­frests er vísað frá þar sem ekki verður talið að það falli undir almennar heimildir kæru­nefndar samkvæmt lögum nr. 151/2020 að fjalla um slíkar kröfur.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Terra umhverfisþjónusta hf., braut gegn 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna við launaákvörðun og uppsögn kæranda A sem framkvæmdastjóra hjá kærða.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Anna Tryggvadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira