Hoppa yfir valmynd
3. september 2014 Utanríkisráðuneytið

Þegar orðin eru dýr

Anna Jóhannsdóttir fastafulltrúi Íslands hjá NATO stödd í Wales
Anna Jóhannsdóttir fastafulltrúi Íslands hjá NATO stödd í Wales

Þegar saman koma þjóðarleiðtogar og oddvitar ríkisstjórna í Norður-Ameríku og Evrópu, eru það ákveðin tímamót. Yfirlýsingar eru gefnar, staða tekin á heimsmálunum og mörkuð stefna til næstu framtíðar.  Einn fyrir alla og allir fyrir einn. Það er grunnurinn, kletturinn í því sem Atlantshafsbandalagið stendur fyrir, en hvert ríki hefur sína utanríkisstefnu, sínar áherslur og tekur þátt með misjöfnum hætti í verkefnum og samstarfi.  
 
Í Brekkukotsannál segir: „Í Brekkukoti var sérhvert orð dýrt, litlu orðin líka.“ Það á vel við þegar tekist er á um texta og orðalag í yfirlýsingum, skýrslum og efni sem ætlunin er að leggja fyrir forseta og forsætisráðherra Atlantshafsbandalagsins til samþykktar.
Dagskráin er klár, markmiðin og grunnurinn sameiginlegur, en það getur verið vandasamt að ná að orða þá hugsun, þau markmið og þær skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur og ná að umbreyta hugsun og framtíðarsýn, í texta.
Hvert orð, hver setning, hefur krafist gríðarlegrar yfirlegu.  Tugir manna frá öllum þjóðunum sem þátt taka, hafa haldið á lofti sínum sjónarmiðum, barist fyrir  ákveðnu orðalagi og tekist á um stór og smá atriði.  Það einfaldar ekki málið, að minnihluti þjóðanna sem eru í Atlantshafsbandalaginu, hafa ensku að móðurmáli, en það er tungumálið sem textinn er unnin á og því þarf hver fastanefnd að tryggja að merking og hugtök skili sér rétt út frá eigin tungumáli.

Nú erum við á lokametrunum. Svefnvana fulltrúar í textateymum hafa fundað með stuttum næturhléum dögum saman og raunar síðustu vikur.   Endanlegar textatillögur bíða samþykkta.  Ráðgjafar og embættismenn, hermálastarfslið og sérfræðingar fylgja sínum leiðtogum áleiðis til Wales í fyrramálið.  Sumar sendinefndirnar eru mjög litlar, eins og okkar frá Íslandi, en aðrar mjög fjölmennar og stórar.  Engu að síður á hver þjóð eitt sæti við borðið og engar ákvarðanir verða teknar nema allar þjóðirnar sammælist um það. Við forgangsröðum, vinnum með líkt þenkjandi vinaþjóðum, hömrum okkar áherslur inn.

Leiðtogarnir funda á morgun í heiðgrænu og skógi vöxnu umhverfi í Celtic Manor í Wales, eða eins og landið heitir upp á frönsku –  landi Gaulverjanna (Pays de Galles)  Það er ekki laust við að Ástríkur og félagar komi upp í hugann, enda voru þeir líklega keltar þó þeir hafi búið hinum megin sundsins í Gallíu.  Merki fundarins í Wales minnir okkur síðan á keltneskar sagnir um dreka og kastala, iðnað og hönnun. Í þessu umhverfi mun Atlantshafsbandalagið halda leiðtogafundinn á 65 ára afmæli sínu, í ákveðnum ólgusjó að þessu sinni. Enn gildir þó hið fornkveðna, að sameinuð stöndum við en sundruð föllum við.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum