Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2024 Utanríkisráðuneytið

Ísland fjármagnar verkefni gegn fæðingarfistli í Namayingo héraði í Úganda

Við formlega athöfn vegna undirritunar samningsins. - mynd

Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt að fjármagna sérstakt verkefni gegn fæðingarfistli í Namayingo-héraði í Úganda í samstarfi við Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). Ísland styður nú við svipuð verkefni með UNFPA í öllum samstarfsríkjunum þremur í Afríku.  

Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, og Gift Malunga, yfirmaður UNFPA í Úganda, undirrituðu samning um verkefnið í sendiráði Íslands í Kampala í gær.  Það verður unnið í samstarfi við héraðsyfirvöld í Namayingo ásamt frjálsum félagasamtökum með sérþekkingu á málinu. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um þrjár milljónir bandaríkjadala yfir þriggja ára tímabil. 

Alvarlegt og viðvarandi vandamál

Fæðingarfistill er alvarlegt og viðvarandi vandamál í fátækustu ríkjum heims þar sem algengt er að barnungar stúlkur eignist börn, en kvillinn þekkist varla á Vesturlöndum. Orsök fæðingarfistils er rifa í fæðingavegi, t.d. milli ristils og legganga sem ekki er meðhöndluð. Konur sem þjást af fæðingarfistli eiga því oft erfitt með að hafa stjórn á þvaglátum eða hægðum. Í Úganda er áætlað að á bilinu 75.000 til 100.000 konur og stúlkur þjáist af fæðingarfistli. Á hverju ári bætast við um 1.900 ný tilfelli og er biðtími eftir aðgerð fimm ár. Tíðni þungana meðal unglingsstúlkna í landinu er sú hæsta í Austur-Afríku og hefur aukist á undanförnum árum en unglingsstúlkur eru útsettari fyrir fæðingarfistli sökum þess að hafa ekki náð fullum líkamlegum þroska við barnsburð. Mæðradauði er einnig mikill en ein af hverjum fimm konum í Úganda deyr af barnsförum á unglingsaldri. 

Í Namayingo, öðru samstarfshéraða Íslands í Úganda, eignast konur að meðaltali 7,8 börn á lífsleiðinni samanborið við 5,2 börn á landsvísu. Heilbrigðiskerfi héraðsins er mjög ábótavant en enginn fæðingar- eða kvensjúkdómalæknir starfar þar og næsti spítali í sextíu kílómetra fjarlægð. Í héraðinu eru yfir 230 þúsund íbúar. 

Heildræn nálgun til að takast á við afleiðingarnar

Neikvæð áhrif fæðingarfistils á líf kvenna og stúlkna eru margþætt og verður verkefnið unnið samkvæmt heildrænni nálgun til að takast á við bæði orsakir og afleiðingar fæðingarfistils. Þannig verður lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir sem snúa að vitundarvakningu í samfélaginu og eflingu heilbrigðiskerfisins. Þá verður áhersla lögð á bætta mæðravernd, hugarfarsbreytingu varðandi þunganir unglingsstúlkna og aðgerðir til að draga úr kynferðis- og kynbundnu ofbeldi. Jafnframt verður konum og stúlkum sem þjáðst hafa af fæðingarfistli veitt endurhæfing og stuðningur við að fóta sig í samfélaginu á ný. 

Ísland fjármagnar svipuð verkefni með UNFPA í Malaví og Síerra Leóne. Með stuðningi við verkefnið í Úganda leggur Ísland því sitt af mörkum í að berjast gegn fæðingarfistli í öllum tvíhliða samstarfsríkjum sínum á sviði þróunarsamvinnu. 

Meginverkefni Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) er að bæta og tryggja kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindi, og gegnir stofnunin lykilhlutverki í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. 

  • Fulltrúi heilbrigðisráðuneytis Úganda, Gift Malunga, yfirmaður UNFPA, og Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala. - mynd
  • Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, og Gift Malunga, yfirmaður NFPA, eftir undirritun samningsins. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum