Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 21/2014.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 20. nóvember 2014

í máli nr. 21/2014:

Öryggismiðstöð Íslands hf.

gegn

Ríkiskaupum og

innanríkisráðuneytinu

Með kæru 7. nóvember 2014 kærir Öryggismiðstöð Íslands hf. útboð varnaraðila nr. 15705 auðkennt „Fangelsi á Hólmsheiði. Samskiptakerfi (kallkerfi)“. Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um val á tilboði í útboðinu, en til vara að varnaraðilum verði gert að bjóða út innkaupin í heild sinni að nýju. Þess er jafnframt krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila auk þess sem krafist er málskostnaðar. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Mál þetta lýtur að fyrrgreindu útboði um kaup á samskiptakerfi með uppsetningu og viðhaldsþjónustu til allt að fimm ára vegna byggingar fangelsis á Hólmsheiði. Fjögur tilboð bárust í útboðinu en þar af var tilboð kæranda lægst og svaraði til rúmlega 79% af kostnaðaráætlun. Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðilar hafi talið tilboð kæranda kynni að vera óeðlilega lágt og því hafi framkvæmdastjóra kæranda gefist kostur á að koma skýringum á framfæri samkvæmt 73. gr. laga um opinber innkaup á fundi hinn 7. október 2014. Á fundi þessum var kærandi einnig beðinn um að varpa ljósi á tæknilega útfærslu þess samskiptakerfis sem hann bauð og varð hann við því með tölvupósti 14. sama mánaðar. Með bréfi 27. sama mánaðar var kærandi upplýstur um að ákveðið hefði verið að taka tilboði frá Securitas hf., en fram kom að tilboð kæranda hefði verið metið ógilt. Í rökstuðningi varnaraðila hinn 28. sama mánaðar kom fram að tilboð kæranda hefði ekki verið í samræmi við óundanþægar lágmarkskröfur útboðsgagna. Kröfur kæranda byggja í meginatriðum á því að varnaraðilar hafi metið tilboð kæranda með röngum hætti að teknu tilliti til skilmála útboðsgagna og ákvæða laga um opinber innkaup.

Niðurstaða

Í lið 4.4.1 í útboðsgögnum kemur fram að í svokallaðri klefastöð skuli vera hnappur með gaumljósi til að kalla á hjálp, ásamt hnappi til að afturkalla boð og hnappi fyrir fangavörð að óska eftir aðstoð og hnappi til að kvitta fyrir að hafa sinnt boði. Af svari varnaraðila við fyrirspurn bjóðanda um nánara efni þessa skilmála, áður en tilboð voru lögð fram, verður ráðið að með honum hafi verið óskað eftir fjórum aðskildum hnöppum í klefastöð. Í beiðni varnaraðila um skýringar á tilboði kæranda 10. október sl. kom fram að í tilboði kæranda virtist klefastöð einungis vera búin einum hnappi en ekki fjórum. Í svari kæranda við þessari fyrirspurn kom fram að klefastöðin væri með einum tvívirkum hnappi en engu að síður væri hægt að setja upp fleiri hnappa við stöðina ef á þyrfti að halda eða ef óskað væri. Verður þessi skýring kæranda ekki skilin á aðra leið en þá að hann hafi með tilboði sínu boðið klefastöð með fjórum hnöppum, í stað tveggja tvívirkra, ef þess væri á annað borð óskað af varnaraðilum og þá jafnframt án þess að það hefði áhrif á fjárhæð tilboðs. Eins og málið liggur fyrir á þessu stigi þess verður því ekki á það fallist að fram sé komið að tilboð kæranda hafi verið í ósamræmi við útboðsskilmála að þessu leyti.

Í lið 4.4.2 í útboðsgögnum kemur fram að gert sé ráð fyrir því að ljósgjafa (gaumljósi) sé komið fyrir utan við hvern fangaklefa til að sýna með rauðu ljósi að fangi hafi óskað eftir aðstoð. Ljósinu skal komið fyrir í rofadós en sé þess ekki kostur skal verktaki tryggja að búnaðurinn sé varinn gagnvart skemmdum og fikti. Í lið 4.4.3 í útboðsgögnum kemur fram að gera skuli ráð fyrir að hnappi, til að kvitta fyrir að hafa sinnt boði, verði komið fyrir utan við klefa en ákvörðun um hvort hnappurinn verði settur upp verði tekin síðar. Varnaraðilar hafa vísað til þess að samkvæmt útboðsskilmálum verði ákvörðun um hvort sérstakur kvittunarhnappur verði settur upp tekin síðar. Þar sem kvittunarhnappur og gaumljós sé sambyggt samkvæmt tilboði kæranda þurfi að greiða fyrir hnappinn þótt hann verði ekki notaður.

Jafnvel þótt fallist yrði á það með varnaraðilum að þeim væri heimilt að óska eftir leiðréttingu tilboðs á framangreindum grundvelli, þ.e. ef ákveðið yrði að hafa ekki sérstakan kvittunarhnapp, er til þess að líta að lækkun á tilboðum annarra bjóðenda en kæranda myndi ekki hagga því að tilboð hans væri eftir sem áður lang lægst. Að þessu virtu verður ekki séð að umrætt atriði í tilboði kæranda sé þess eðlis að það réttlæti að það sé metið ógilt, enda kveður liður 4.4.3 í útboðsgögnum beinlínis á um að tilboð skuli gera ráð fyrir kvittunarhnappi fyrir utan klefa.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi því leitt nægar líkur að því að varnaraðilar hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup með því að meta tilboð hans ógilt. Því er ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup til þess að aflétta stöðvun samningsgerðar. Þá hafa varnaraðilar ekki fært fyrir því viðhlítandi rök eða lagt fram gögn því til stuðnings að almannahagsmunir krefjist þess að stöðvun samningsgerðar verði aflétt.

Ákvörðunarorð:

Kröfu varnaraðila, Ríkiskaupa og innanríkisráðuneytisins, um að aflétt verði stöðvun samningsgerðar vegna útboðs nr. 15705 auðkennt „Fangelsi á Hólmsheiði. Samskiptakerfi (kallkerfi)“ er hafnað.

                                                                                                Reykjavík, 20. nóvember 2014.

                                                                                                Skúli Magnússon

                                                                                                Stanley  Pálsson                                                                                                

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum