Hoppa yfir valmynd
7. maí 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

53,7 milljónir í bætt aðgengi fyrir alla að ferðamannastöðum

 Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, hefur ákveðið að veita viðbótarstyrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til verkefna tengdum bættu aðgengi á ferðamannastöðum með áherslu á aðgengi fólks með skerta hreyfigetu og vegna eldgossins í Geldingadölum. Einnig hljóta nokkur önnur verkefni styrk að þessu sinni.

Við leggjum sérstaka áherslu á aðgengismálin að þessu sinni og ég þakka bæði Sjálfsbjörg og Öryrkjabandalaginu fyrir þeirra framlag við mótun tillagnanna. Það er von mín að þessi áhersla nú skili sér í aukinni meðvitund fyrir mikilvægi þess að hugað sé að aðgengismálum í öllum verkefnum. Þá er einnig gott að geta styrkt enn fleiri staði til framfara og styrkt innviði þeirra,“ segir Þórdís Kolbrún.

Viðbótarúthlutun ráðherra að þessu sinni má rekja til fjármagns sem safnast hefur upp vegna niðurfelldra og ónýttra styrkja sjóðsins, alls um 200 milljónir króna. Styrkirnir skiptast í þrjá flokka og er heildarúthlutun nú 122 milljónir króna:

Bætt aðgengi - 53.7 milljónir króna

Ferðamannastaðir eiga að vera aðgengilegir fólki með fötlun , öldruðum og öðrum sem hafa skerta hreyfigetu. Því er brýnt að leggja aukna áherslu á aðgengi fyrir alla að ferðamannastöðum og voru tillögurnar unnar í samvinnu við fulltrúa Sjálfsbjargar lsh. og Öryrkjabandalags Íslands. . Við vinnuna var haft að leiðarljósi að styrkt yrðu verkefni úr öllum landshlutum.

Eldgosið í Geldingadölum - 10 milljónir króna

Styrkveiting til Grindavíkurbæjar til aðgerða vegna eldgossins í Geldingadölum, líkt og greint var frá 26. mars sl. Verkefnið felst í stikun gönguleiðar til að greiða aðgengi fólks að eldgosinu í Geldingadölum, púða fyrir aðstöðu og salerni, gerð bílastæðis nærri gönguleið, skiltagerð og merkingar og lagfæringar áslóðum fyrir viðbragðsaðila. Tillagan var unnin í samráði við bæjarstjóra og sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Grindavíkurbæjar.

Önnur verkefni – 58,3 milljónir króna

Þá hefur ráðherra ákveðið að styrkja sjö góð og brýn verkefni sem ekki hlutu brautargengi við síðustu úthlutun.

Styrkirnir renna til eftirtalinna aðila:

Akureyrarbær vegna áfangastaðarins Hríseyjar,

Eyvindartunga vegna áningarstaðarins Kolhóls,

Vestmannaeyjabæ vegna skipulags og hönnunar gönguleiðar á Helgafell,

Hafnarfjarðarbær vegna stækkunar bílastæða við Kaldársel,

Menningarfélagið Tankur vegna útilistaverks,

Blönduósbær vegna framkvæmda við jarðvegsvinnu, lýsingu og merkingar við Hrútey,

Reykjanes Geopark til vinnslu ítarlegs deiliskipulags og hönnunar fyrir áningarstaðinn Þorbjarnarfell.

Í mars sl. úthlutaði ráðherra styrkjum úr sjóðnum til 54 verkefna um land allt, alls 807 milljónum króna.

„Smám saman, en þó örugglega, er að verða bylting í aðstöðu við bæði gamla og nýja ferðamannastaði á Íslandi. Og sífellt liggur meiri heildarsýn á bak við þessa uppbyggingu, sem endurspeglast í tengingum við áætlanir hvers landshluta um uppbyggingu á sínu svæði. Það er mjög jákvæð þróun,“ segir ráðherra.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum