Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2019 Utanríkisráðuneytið

Fulltrúar IFAD kynntu sér fjölbreytileika bláa hagkerfisins á Íslandi

Hópurinn í heimsókn á Dalvík. - mynd

Síðustu daga hafa verið hér á landi fulltrúar Alþjóðasjóðs um þróun landbúnaðar (IFAD) ásamt fulltrúum nokkurra strandríkja til að kynna sér bláa hagkerfið, rannsóknastarf, þróun og tækni sem tengjast endurnýjanlegum auðlindum hafsins. Heimsóknin er liður í samkomulagi milli ríkisstjórnarinnar og IFAD um miðlun þekkingar Íslendinga á þessu sviði til að efla verkefni fjármögnuð af IFAD víðs vegar um heiminn.

Að sögn Árna Helgasonar sendiráðunautar á þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins sem skipulagði Íslandsferðina fjármagnar IFAD ýmiss konar verkefni í þágu fólks til sveita, meðal annars hvað varðar fæðuöryggi og næringu en nokkur slík verkefni tengjast hafi og fiski, eða bláa hagkerfinu.

Fulltrúar IFAD höfðu að sögn Árna mikinn áhuga á fjölbreytileikanum í bláa hagkerfinu á Íslandi þar sem öflug og frjó atvinnu- og frumkvöðlastarfsemi hefur byggst upp í kringum íslenskan sjávarútveg, sem stuðlar að hagkvæmni í greininni.

„Þeir sýndu til dæmis mikinn áhuga á innleiðingu vistvænna lausna og sókn í átt að 100 prósent nýtingu á afla úr sjó með nýstárlegri nýtingu á þeim hluta fiskafla sem áður taldist úrgangur en felur nú í sér verðmætar afurðir, nýttar í heilsuvörur og lyf. Einnig þótti þátttakendum athyglisvert að sjá hversu öfluga starfsemi á þessum sviðum mátti finna í litlum samfélögum á landsbyggðinni, og fullyrtu að margt af því sem Ísland hefur upp á að bjóða á þessu sviði getur orðið leiðarljós í þróunarverkefnum sem studd eru af IFAD í fátækum löndum heims,“ segir Árni.

Auk fulltrúa frá höfuðstöðvum IFAD í Róm komu hingað til lands fulltrúar frá Indónesíu, Indlandi, Brasilíu, Mósambík og Saó Tóme. Dagskráin samanstóð af kynningarfundum með fulltrúum opinberra stofnana á vettvangi sjávarútvegs á Íslandi, heimsókn í fyrirtæki tengdum sjávarútvegi á Siglufirði, Dalvík og á Akureyri og fundum með nýsköpunar-og tæknifyrirtækjum í Reykjavík og á landsbyggðinni, sem tengjast eð þjóna sjávarútveginum.

IFAD er ein af þremur alþjóðstofnunum í Róm sem Ísland á í samvinnu við á sviði þróunarsamvinnu en hinar tvær stofnanirnar eru Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP). Fastafulltrúi Íslands gagnvart þessum þremur stofnunum er Stefán Jón Hafstein.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

14. Líf í vatni
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum