Hoppa yfir valmynd
18. september 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Vegna umræðu um geislavarnir og almenna upplýsingagjöf

Geislavarnir ríkisins upplýstu velferðarráðuneytið í lok júní að uppsöfnun náttúrulegra geislavirkra efna við borholur á Reykjanesi hefði verið staðfest og að veita þyrfti HS Orku sérstakt leyfi til förgunar þeirra. Til upplýsingar eru hér m.a. birt gögn frá Geislavörnum ríkisins til velferðarráðuneytisins varðandi málið.

Vöktun og öryggisráðstafanir gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum eru einn af meginþáttunum í starfsemi Geislavarna ríkisins og mælingar á geislavirkni eru liður í daglegum störfum stofnunarinnar.

Geislavarnir upplýstu velferðarráðuneytið með meðfylgjandi minnisblaði þann 29. júní að staðfesting væri fengin á uppsöfnun náttúrulegra geislavirkra efna við borholur HS Orku á Reykjanesi. Geislavarnir höfðu áður kynnt velferðarráðuneytinu á samráðsfundi 22. apríl að mælingar væru fyrirhugaðar vegna útfellinga í rörum hjá HS Orku. Minnisblaði snérist um að upplýsa ráðuneytið og gera grein fyrir því að í ljósi þess að um geislavirkni væri að ræða þyrfti að veita HS orku sérstakt leyfi fyrir förgun á grundvelli 7. gr. laga um geislavarnir.

Þann 4. ágúst sendi forstjóri Geislavarna ríkisins heilbrigðisráðherra meðfylgjandi bréf með nánari upplýsingum um stöðu málsins og framvindu þess, m.a. varðandi hreinsun útfellinga.

Í opinberri umræðu síðustu daga hefur komið fram gagnrýni á að stjórnvöld hafi ekki birt almenningi upplýsingar um þetta tiltekna mál. Er í því samhengi vísað til 10. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál þar sem segir m.a. að stjórnvöldum sé „...ævinlega skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf sé ástæða til að ætla að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra“.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherraVarðandi það hvort efni hafi staðið til að gefa út opinberar upplýsingar vegna útfellinganna í borholum á Reykjanesi vill Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra koma því á framfæri að hann treystir fullkomlega mati færustu vísindamanna á þessu sviði þegar þeir segja að fólki sé engin hætta búin vegna þessa mál og augljóslega hafi hann engar faglegar forsendur til að véfengja mat þeirra.

„Ég ber fullt traust til forstjóra Geislavarna ríkisins og stjórnsýslu stofnunarinnar og fæ ekki séð neitt athugavert við að upplýsingar hafi ekki verið birtar opinberlega vegna þessa máls, enda almannahagsmunir ekki í húfi að mati stofnunarinnar, líkt og fram kemur í meðfylgjandi gögnum og þeirri frétt sem birt var á vef Geislavarna, 16. september. Aftur á móti má líta á það sem æskilegt í ljósi æ ríkari kröfu um opna stjórnsýslu að veita upplýsingar vegna máls sem er nokkuð einstakt eins og þarna um ræðir, þótt ekki sé augljóst að það hafi verið skylt samkvæmt lögum“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum