Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2023 Utanríkisráðuneytið

Metfjöldi flóttafólks í heiminum

Forsíðumynd skýrslunnar - mynd

Flóttafólk í heiminum hefur aldrei verið fleira en í fyrra. Heildarfjöldinn nálgast 110 milljónir.  Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, kallar eftir samstilltum aðgerðum. Fjölgun fólks á flótta á síðasta ári skýrist af stríðinu í Úkraínu og endurskoðuðu mati á fjölda afganskra flóttamanna, auk nýrra átaka sem blossað hafa upp, sérstaklega í Súdan.

Innrás Rússa í Úkraínu, samhliða átökum annars staðar og umrót af völdum loftslagsbreytinga, hafa haft í för með sér að fleira fólk en nokkru sinni hraktist frá heimilum sínum á síðasta ári. Þetta hefur aukið á þörfina fyrir tafarlausar, sameiginlegar aðgerðir til að draga úr orsökum og áhrifum landflótta, að því er segir í tilkynningu UNHCR, Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.  

Ársskýrsla Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, almenn þróun um þvingaðan fólksflótta - Global Trends in Forced Displacement 2022 -  kom út á dögunum og þar segir að í lok árs 2022 hafi fjöldi fólks sem stökkt hefur verið á flótta vegna stríðs, ofsókna, ofbeldis og mannréttindabrota náð metfjölda eða 108,4 milljónir. Það er 19,1 milljón fleiri en árið áður.

Fátt bendir til að það hægi á fjölgun fólks sem neyðst hefur til að flýja heimili sín á heimsvísu árið 2023. Á þessu ári hafa þannig brotist út átök í Súdan sem hrundu af stað nýjum flóttamannastraumi með þeim afleiðingum að áætlað er að heildarfjöldinn í heiminum hafi náð 110 milljónum á vormánuðum. „Þessar tölur sýna okkur að sumir eru allt of fljótir að grípa til vopna og allt of seinir að leita lausna. Afleiðingin er eyðilegging, landflótti og hörmungar fyrir allar þær milljónir manna sem stökkt er á flótta,“ sagði Filippo Grandi flóttamannastjóri Sameinuðu þjóðanna. 

Af þeim sem hröktust á flótta í heiminum voru 35,2 landflóttamenn, fólk sem flúði yfir alþjóðleg landamæri í leit að öryggi, en meirihluti – 58 prósent, 62,5 milljónir manna – voru á vergangi í heimalöndum sínum vegna átaka og ofbeldis. 

Stríðið í Úkraínu var helsta orsök fólksflótta árið 2022. Fjöldi flóttamanna frá Úkraínu jókst úr 27.300 í lok árs 2021 í 5,7 milljónir í lok árs 2022. Leita þarf aftur til síðari heimsstyrjaldarinnar til að finna dæmi um að svo margir leggist á flótta svo hratt sem raun ber vitni. Tölur um fjölda flóttamanna frá Afganistan voru verulega hærri í lok árs 2022 vegna endurskoðaðs mats á fjölda Afgana, sem leitað hafa hælis í Íran, en margir þeirra höfðu komið þangað á fyrri árum. Á sama hátt endurspeglaði skýrslan hærri tölur í Kólumbíu og Perú um fjölda Venesúelabúa.

Tölurnar staðfesta einnig að hvort heldur miðað er við efnahagslegan styrk eða íbúafjölda, eru það enn sem fyrr lág- og millitekjulönd heimsins – ekki auðug ríki – sem hýsa flest fólk á flótta. Um 46 lágtekjuríki með minna en 1,3 prósent af vergri landsframleiðslu á heimsvísu hýsa meira en 20 prósent allra flóttamanna.

Þrátt fyrir að flóttafólki fjölgi sýnir Global Trends skýrslan einnig að þeir sem neyddir eru til að flýja eru ekki dæmdir í ævilanga útlegð, heldur geta þeir farið heim, sjálfviljugir og með öruggum hætti. Árið 2022 sneru yfir 339 þúsund flóttamenn aftur til 38 landa, og þótt sú tala hafi verið lægri en árið áður sneru töluvert margir sjálfviljugir heim til Suður-Súdan, Sýrlands, Kamerún og Fílabeinsstrandarinnar. Á sama tíma sneru 5,7 milljónir manna á vergangi innanlands árið 2022 aftur til sinna heimahaga, einkum innan Eþíópíu, Mjanmar, Sýrlandi, Mósambík og Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó. 

Í lok árs 2022 var áætlað að 4,4 milljónir manna um allan heim væru ríkisfangslausir eða af óskilgreindu þjóðerni, tveimur prósentum fleiri en í lok árs 2021. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum